Ég var að vafra í gegnum gömlu færslurnar mínar og rakst á þessa skemmtilegu sögu sem ég ætla að láta flakka aftur. Enda finnst mér hún mjög fyndin hrmpf (heimskur hlær að sjálfs síns fyndni segir einhversstaðar). Here goes:
febrúar 12, 2004
Lag dagsins er: Beautiful Day
Lag dagsins er: Beautiful Day með U2
Já eitt hérna, Gústi Alex litli bróðir minn átti afmæli í gær, peyinn varð 16 ára. Shit, ég man þegar ég varð 16 ára og fannst ég vera tilbúinn í allt. Djöfull er tíminn fljótur að líða, mér finnst nú ekki svo langt síðan að maður var oft að passa Gústa í Söðulsholti, en svona er þetta marr, uusss.
jæja, allavena til hamingju með daginn í gær Gústi minn.
Þetta minnir mig reyndar á söguna um alverstu skítalykt sem ég hef á ævinni fundið. Ekki tengja það samt neitt við Gústa Alex nema að þetta gerðist á þeim tíma sem að hann var pínku ponsu lítill.
Lífið í Söðulsholti gekk yfirleitt sinn vanagang, vorin voru yfirleitt mjög skemmtilegur tími, skólinn að verða búinn og sumarið framundan, mig minnir að ég hafi verið svona 12 – 13 vetra og Ninni bróðir 5 árum yngri. Við vorum mikið saman eins og gefur að skilja enda ekki mikið um félagsskapinn í sveitinni. Ekki það að Ninni hafi verið slæmur félagsskapur langt því frá. Við brölluðum margt skemmtilegt saman. Svo var það einn vordaginn að gesti bar að garði í Söðulsholtið, þetta fannst okkur bræðrum ákaflega spennandi enda skemmtileg tilbreytni að fá gesti í heimsókn. Gestirnir í þetta skiptið voru frá Grundarfirði, einhvað hestafólk sem ég man ekki alveg hverjir voru fyrir utan einn sem kemur við sögu hér, mig minnir að Kjarri Jéra og Bjarni Eyjólfs hafi verið í þessu föruneyti en vegna gloppótts minnis og margra ára gæti mér skjátlast. En eitt man ég að Rögnvaldur gamli frá Grundarfirði var þarna með. Fyrir þá sem ekki vita er Rögnvaldur gamli mjög sérstakur gamall karl. Grundfirðingar vita nú allt um hann og hans sögu en fyrir þá sem vita það ekki þá er hann mjög stór maður, allavena fannst okkur bræðrum það enda ungir að árum og litlir miðað við aldur.
Þegar allir gestirnir eru komnir inn í andyrið vekur Rögnvaldur strax athygli okkar bræðra, ekki veit ég af hverju það var en það gæti hafa spilað inn í að karlinn virtist eitthvað hálf slappur. Þegar inn var komið fóru allir inn í eldhús, nema Rögnvaldur, hann laumar sér inn á klósett. Enginn gefur þessu neinn gaum nema við Ninni, enda þurfti Ninni að mig minnir að nota klósettið. Svo líður tíminn að því er virtist óra lengi og aldrei kemur karlinn út af kamrinum. Ninna var hætt að lítast á blikuna enda bara eitt klósett í kotinu. Svo líður og bíður og loksins, já ég segi loksins, heyrist einhver umgangur af klósettinu. Við Ninni öndum léttar enda á þessum tímapunkti farnir að hafa áhyggjur af því að karlinn væri hreinlega dauður og við fengjum aldrei að nota klósettið aftur. Sáum fram á að þurfa að létta á okkur út í skurði eða eitthvað álíka.
Loksins opnast hurðin og Ninni stekkur af stað í átt að klósettinu og mætir Rögnvaldi gamla í dyrunum, ég horfði svona á eftir honum og sá viðbrögðin þegar hann mætti Rögnvaldi, það er svolítið erfitt að lýsa þessu, en það var svona svipað og að Ninni hefði stungið hausnum upp í rassgatið á rotnandi hesti sem hefur legið í 6 vikur ofan í rotþró. Skelfingarsvipurinn á stráknum var rosalegur, hann hvítnaði allur upp og sneri við í snarhasti. Ekki liðu nema svona 4 sekúndur þangað til ég komst að því, ðe hard vei, af hverju viðbrögð Ninna voru svona allsvakaleg. Skítalyktin breiddist um húsið eins og eldur í sinu. Rögnvaldur sá greinilega viðbrögð okkar enda var engin leið fyrir okkur að leyna þessum ósköpum, gamli karlinn rölti bara fram hjá okkur eins og ekkert hefði í skorist á meðan við vorum þarna í dauðateygjunum að reyna að gaspra í súrefni. Við sáum okkur þann kostinn vænstan að flýja hreinlega út úr húsinu til að fá loft, jesús minn, verri lykt hef ég aldrei fundið um ævina.
Ekki hættum við okkur inn aftur fyrr en gestastóðið var farið af bænum og þá ennþá vottaði fyrir helvítis lyktinni.
Ástæðan fyrir þessari sögu er bara sú að mér datt þetta í hug í Félagsfræði tíma í morgun. Vissulega eru einhverjar ýkjur vegna misminnis en grunnurinn er nokkurnveginn réttur.
Svona eru bernskuminningarnar skrítnar, poppa bara upp þegar síst varir, það lá við að ég hefði fengið hláturskast í tíma en sem betur fer náði ég að halda niður í mér hlátrinum og forðaði mér frá því að hafa mig að fífli, finnst betra að gera það hér á blogginu hehehe.
Jæja, nóg í bili.
Þangað til næst……
Vonandi höfðuð þið gaman að þessu.
Þangað til næst…..
Hey ég man eftir þessu var einmitt í þessari ferð þið voruð nýbúin að fá Diddú!Vorum að koma heim frá Kaldármelum.