Lag dagsins er: Dance Commander

Lag dagsins er: Dance Commander með Electric Six

Viðurkenning:

Já Tomminn ætlar að gefa sjálfum sér viðukenningu, ekki svona hefðbundna viðurkenningu eins og maður fær fyrir að binda hnúta í skátunum eða svoleiðis, nei ónei því að Tomminn á enga slíka viðurkenningu skilið fyrir gríðarslakann árangur í prófinu í morgun en það er önnur saga.
Þessi viðurkenning byggist upp á því að Tomminn ætlar að viðurkenna svolítið sem hefur mörgum verið hulið í mörg mörg ár, þ.e. þeim sem hafa þekkt mig í mörg mörg ár, líklega bara nánasta fjölskylda, hinir geta bara lesið og haft gaman af. Jæja hefst þá viðurkenningin.

Einu sinni fyrir mörgum árum sirkabát níu árum þegar Tomminn var nýorðinn 18 ára og ennþá ungur og vitlaus hafði hann svolítið gaman af því að spila Championship Manager. Þessi leikur, sem var sá fyrsti í röðinni af mörgum, byggðist upp á Ítalska boltanum tímabilið 92/93 minnir mig.
Þannig var mál með vexti að Tomminn var (og er kannski enn) einstaklega tapsár þegar kemur að allskyns keppnum og öðru slíku og líkar það mjög illa að lúta í gras. Þannig var það í eitt skiptið að Tomminn var búinn að byggja upp þvílíkt meistarlið (að honum fannst) sem átti að hans mati að vera alveg ósigrandi í öllum keppnum. Tölvan var ekki á sama máli og Tomminn. En Tommi komst þó með liðið sitt í Úrslitaleik í Evrópukeppni meistaraliða og átti þar að etja kappi við hið ómerkilega lið Rauðu Stjörnuna frá Belgrad. Tomminn ýtir á “save” fyrir leikinn bara svona til öryggis ef þetta skildi nú fara illa því það var nú bara, að hans mati, formsatriði að klára þennan leik.
Svo byrjar Tomminn að spila og tapar 3-0 sér til mikillar gremju, en restartar bara og byrjar upp á nýtt því þetta gat að sjálfsögðu ekki staðist. Aftur byrjar Tomminn að spila og tapar, nú frekar stórt, 4 eða 5-0. Þetta fer að fara í skapið á Tommanum og hann er byrjaður að bölva upphátt við sjálfan sig (sem gerist ekki oft nema mikið sé vegið að Tommanum). Aftur restartar Tomminn og byrjar aftur og þetta gengur svona í nokkur skipti í viðbót og Tomminn orðinn brúnaþungur. Svo prófar Tomminn einu sinni enn og byrjar að spila. Nær jafntefli og sigurreifur Tomminn segir við sjálfan sig að nú hljóti þetta að koma, vítaspyrnukeppni og Tomminn raðar sínum vítaskyttum upp og bíður spenntur, en viti menn. Tomminn tapar í vítaspyrnukeppninni og þá var honum nóg boðið.
Tomminn ríkur upp úr stólnum þannig að stóllinn þeytist aftur fyrir sig, snýr sér til að leita að einhverju til að kýla í af öllu afli og hittir þar fyrir forláta rúmdýnu sem lá þarna í sakleysi sínu. Tomminn lætur vaða í helvítis dýnuna til að fá smá útrás fyrir þessum uppsafnaða pirring en vildi svo illa til að Tomminn hittir fyrir eitthvað verulega hart undir mjúkri dýnunni.
Tomminn fékk nú sýna útrás af þessu, stendur í smá stund meðan honum rennur reiðin og jafnar sig. Lagar stólinn og sest aftur við tölvuna, tekur um músina en finnur þá fyrir stingandi verk í hægri hendinni. Tommanum líst nú illa á þetta, slekkur á tölvudruslunni og tekur að rölta upp á heimavistina á Akranesi (Tomminn var staddur í húsi þáverandi kærustu á þessum tíma). Þegar upp á vistina var komið var hönd Tommans orðin frekar mikið bólgin og blá að Tomminn lætur Dabba frænda sinn skutla sér niður á heilsugæslu. Þar kemur í ljós að Tomminn hefur brotið á sér hendina í þessu bræðiskasti sínu. Læknirinn spyr nú hvernig þetta hafði gerst og skömmustulegur Tomminn segist hafa dottið á svelli og lent svona helvíti illa, læknirinn segir nú að þetta sé nú kallað “boxarabrot” og hendi yfirleitt þá sem hafi gefið einhverjum á kjammann. Tomminn þrætti nú fyrir þetta og stóð fastur á þessari “dettaásvelli” sögu sinni. Þannig útskýrði líka Tomminn þetta kjánaprik sitt fyrir sinni nánustu fjölskyldu sem tók Tommann trúarlegan. Enn þann dag í dag heldur fólk að hinn rólegi Tommi hafi dottið á svelli á leið sinni í skólann en þar hafiði það. Hinn skapstóri Tommi handarbraut sig á rúmdýnu í bræðiskasti yfir að hafa tapað í CM og geri aðrir betur.

Nú er Tomminn búinn að létta þessari vitleysu af samviskunni og getur nú andað léttar.

Þangað til næst……

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s