Doing.
Ég, Rúna og Kristján Freyr skelltum okkur í höfuðborg Norðursins um liðna helgi. Vorum í góðu glúteinlausu yfirlæti hjá Ninna og Dagmar. Þetta var heví næs.
Við lögðum af stað á föstudeginum um fjögur leytið. Rúntuðum sem leið lá í Borgarnes – Bauluna – Blönduós – Akureyri í finu færi, smá hálku en annars bara bongó blíða ef þannig má að orði komast. Við vorum mætt c.a. hálf tíu á Akureyri en þá voru húsráðendur í Melasíðunni stungnir af. Reyndar voru þau svo góð að skilja eftir opið fyrir okkur svo að við þyrftum ekki bíða í bílnum á meðan þau voru í leikhúsi. Við skelltum okkur inn og horfðum á Idolið í rólegheitarstemmingu.
Á laugardeginum var stefnan sett rakleitt upp í Hlíðarfjall. Frábært veður og færi til skíðaiðkunar. Við Rúna fórum á undan því að við ætluðum að leigja skíði. Hefðum reyndar þurft að fara c.a. klst fyrr því að nánast öll leiguskíðin voru búin. Reyndar fékk Rúna síðustu nothæfu skíðin í kofanum og hún hélt ein á leið uppí fjall og skildi mig eftir. Ég fór bara að taka myndir í staðinn og leika við Ninna og Kristján Freyr. Dagmar reddaði sér skíðum niðri í bæ og útlitið ekkert of gott fyrir mig.
En svo ákváðum við að fá okkur kakóbolla í hádeginu og í einhverju bjartsýniskasti ákvað ég að kíkja aftur í leiguna og viti menn. Þar sátu þau og biðu eftir mér…. Gullfalleg Rossingnol skíði af flottustu sort. Afgreiðslumaðurinn spurði mig hvort að ég væri ekki örugglega Schumacher maður því að þessi skíði gengu undir nafninu FERRARI skíðin. Mér leist nú ekkert á blikuna en ákvað samt að skella mér á þetta.
Sæll og glaður byrja ég að rifja upp gamla skíðatakta í barnabrekkunni. Fór fljótlega í stólalyftuna og kúkaði næstum því á mig af lofthræðslu.
En þetta var frábær skíðadagur og svaka stuð. Undir lokin gat ég varla gengið af verkjum í lærunum sökum þreytu.
Svo þegar heim var komið fór elskan hún Dagmar að elda kjötsúpu fyrir liðið á meðan við hin skelltum okkur í Þelamörk í sund. Komum heim og þar beið þessi líka yndislega kjötsúpa með gríðarlega girnilegu feitu og djúsí lambakjöti eftir okkur… smjatt. Þetta var geðveikt. Kjötsúpan var líka í hádeginu daginn eftir og þar af leiðandi var þetta í fyrsta sinn síðan 1992 að maður fer á Akureyri án þess að koma við á Greifanum… Ég fer bara tvisvar næst.
Á sunnudeginum tókum við því bara rólega. Hittum Tudda Jónasar á Glerártorgi og við Kristján kíktum í Toys’R us í svaka stuði. Svo fórum við að dóla okkur heim um fimm leytið. Var með Dabba frænda í beinni sms útsendingu yfir úrslitaleik Man Utd og Tottenham. Pissaði næstum í brækurnar af stressi yfir vítaspyrnukeppninni. En það hafðist hjá United sem betur fer.
Við stoppuðum á Blönduósi og vorum svona að velta því fyrir okkur að fá okkur að borða en ákváðum frekar að prófa nýja Staðarskála…. Við hefðum betur sleppt því. Þegar við nálgumst Staðarskála þá sjáum við 4 stórar rútur á planinu. Ég hugsaði með mér “Fokk”. Þegar við komum inn sjáum við okkur til mikillar skelfingar að þar inni eru c.a. 8000 tíu ára gamlir sveittir fótboltastrákar og allir að bíða eftir hamborgara. Röðin í grillið var kílómeters löng án þess að ýkja neitt. Og ég sem var búinn að hugsa um sveittan beikonborgara alla leiðina frá Blönduósi en varð að láta mér nægja eina skitna pylsu.
Sót svartur af bræði arkaði ég aftur uppí bíl og hundskaðist heim á leið. Vorum mætt aftur heim kl 22 á sunnudagskvöldi enda aðeins verri færð á leiðinni heim.
En frábær helgi að baki.
Þangað til næst…..
Er í alvörunni svona næs og gaman að fara norður til Ninna og Dagmar?
hmmmm……þetta sándaði allavega allt frekar næs og skemmtilega…… held að þú sért að ljúga!!!
Alveg hreinasannleikur get ég sagt þér.. Takk fyrir skemmtilega helgi!!!
Jeaja sma kvedja herna. Er hrikalega anaegd med ad herbergid mitt er klart. T?d getid gert rad fyrir tvi ad eg flytji inn i ma?. Astarkvedjur
Uss ég hefði bara hringt í Sigrúnu frænku og beðið hana að hafa eitthvað gott tilbúið þegar þú kæmir niður heiðina!