Síðasta laugardag skrapp ég í smá ljósmyndaferð ásamt fríðu föruneyti. Ferðinni var heitið úr Stykkishólmi inn í Álftafjörð þar sem aðeins var stoppað.
Eftir Álftafjörðinn var kíkt á skipsflakið sem liggur í fjörunni á Skógarströndinni. Ég veit ekki hversu oft maður hefur keyrt fram hjá þessu flaki og alltaf langað til að kíkja en aldrei látið verða af því. En nú varð breyting á því að Summi lullaðist þarna niðureftir á Land Cruisernum og kom okkur í færi við ryðhauginn í fjörunni.
Svo fiktaði maður aðeins í macro myndatökum enda lítið gert af því.
Þegar við höfðum myndað flakið í gríð og erg og séð nokkrar gæsir og annað fuglalíf var haldið áfram. Næsta stopp var Breiðabólsstaður og við kíktum aðeins á kirkjuna þar.
Breiðabólsstaður
Kirkjan
Á Breiðabólsstað snæddum við svo nestið okkar í frábæru veðri.
Eftir nestisinntökuna var haldið áfram og næst var stoppað við Oddastaðavatn og svo við Syðri Rauðamel. Þar voru linsurnar mundaðar aftur í gríð og erg.
Næst var svo stoppað við Fjósatjörn í Kolbeinsstaðahreppi þar sem álftirnar voru í tilhugalífi og ástleitnar mjög. Þar iðaði allt af fuglalífi.
Eftir Fjósatjörn var haldið að Landbrotalaug sem er svona heitur drullupollur eins og Rúna elskar að baða sig í… skil ekki af hverju.
Summi grandskoðar landslagið
Eftir Landbrotalaugina var haldið áfram niðureftir afleggjarann og alla leið niður að Stóra Hrauni. Mjög fallegt þar um að litast og frábært útsýni út nesið.
Svo var farið og kíkt á Gerðuberg og Rauðamelskirkju þar sem sr Hreinn fermdi mig einhverntímann á síðustu öld.
Gerðuberg
Þetta var þræl skemmtilegt og frábært veður. Í restina sjáum við myndir af ferðafélögunum.
Svo eru fleiri myndir á fésinu og flickrinu
Þangað til næst…
ÓMG hvað ég elska álftamyndina!