Jæja þá er best að rúlla aðeins yfir nýliðið ár og sjá hvað á daga manns hefur drifið.
Janúar:
Þetta ár byrjaði á frekar súrum nótum. Strax á gamlárskvöld þegar að við vorum að sprengja burt 2011 var Kristján Freyr orðinn eitthvað skrítinn. Þegar við komum heim var hann kominn með 39 stiga hita og daginn eftir var farið að örla fyrir sýkingu í munninum á honum. Við förum með hann suður og þar tók við vikudvöl á barnaspítala Hringsins á meðan óteljandi læknar tóku óteljandi prufur og eftir margar rannsóknir kom nákvæmlega ekkert í ljós nema að þeir héldu að þetta væri einhver ólæknandi sjúkdómur. Nú er liðið ár síðan þetta var og ekkert örlað á svona munnsýkingu aftur sem betur fer og maður vonar bara það besta.
Annars voru háhyrningarnir hérna og einstaklega mikið fuglalíf í Kolgrafafirði eins og áður.
Febrúar:
Í febrúar var lífið að komast í fastar skorður. Kristján var á einhverjum sterakúr sem gerði hann ansi þéttvaxinn eins og gengur og gerist. Grútarblautir fuglar settu svip sinn á mánuðinn og ég fór mikinn í almennum sauðshætti þegar að ég náði á einhvern óskiljanlegan hátt að læsa ipadinum mínum með því að skipta um lykilorð og muna svo ekki hvaða lykilorð ég setti upp. (hægt að lesa nánar um það á febrúarbloggi síðasta árs)
Ég tók líka smá myndarölt í Kolgrafafirði…
Mars:
Mars byrjaði á að erninum óheppna Sigurerni var sleppt við Berg. Hann var frelsinu feginn og maður þurfti að hafa hröð handtök til að ná mynd af kvikindinu þegar að skaust í átt til frelsis. Náði þessari mynd í hamaganginum.
Einnig fjárfesti ég í fyrsta Nikon dótinu mínu þegar á keypti mér forláta Nikon kíki sem hefur reynst vel. Einnig varð heljarinnar hvalóféti strandaglópur hérna á Snæfellsnesi.
Kristján Freyr stóð sig með prýði á árshátíð grunnskólans.
Apríl:
Við byrjuðum apríl á að skella okkur í páskafrí norður í land. Vorum hjá Ninna og Dagmar á meðan við stunduðum skíðin og snjóbretti í gríð og erg. Fórum svo í afslöppun í Bárðardalinn.
Einnig var haldið með miklum meisturum í ljósmyndaferð hérna á nesinu. Það var mjög gaman og þyrfti að endurtaka þá ferð hið fyrsta.
Maí:
Í maí var mikið um að vera. Bæði Rúna og Kristján urðu árinu eldri og mikið var um fermingar og útskriftarmyndatökur. Vorið var komið, sumarið lá í loftinu og lífið var yndislegt. Fótboltinn byrjaði af krafti og allt í gangi. Ég splæsti í mína fyrstu Carl Zeiss linsu og er enn helsáttur með hana. Frábær linsa í alla staði.
Júní:
Í júní var einnig mjög mikið um að vera. Sjómannadagurinn með sínu havaríi. Fjárfest í nýjum bíl og sagt skilið við Subaruinn eftir 5 ára farsælt samband. Nýji bíllinn var Kia Sorento jeppi. Kristján tók þátt í sínu fyrsta fótboltamóti þegar að hann fór á Blönduósmótið. Hann stóð sig vel eins og allir hinir krakkarnir.
Júlí:
Í endaðann júní lögðum við af stað í árlegt sumarfrí. Við skröttuðumst um Suðurlandið og alla leið austur að Jökulsárlóni. Fórum svo yfir Sprengisand á Kíunni og enduðum í Bárðardalnum. Veðurblíðan var með eindæmum góð og frábært frí í alla staði.
Svo komu Grundarfjarðardagarnir með pompi og pragt. Kristján var í skemmtiatriði Rauða hverfisins og mikið fjör var hérna í firðinum.
Ágúst:
Í ágúst keypti ég mér nýja myndavél… Fjölgaði EOS vélum heimilisins um helming. Canon EOS 5d mark II var það og nota ég báðar vélarnar álíka mikið. Við sjálf vorum í rólegheitunum í ágúst. Kristján fór á Atlantismótið og skemmti sér vel.
Svo er hérna mynd úr fimmunni.
September:
Ben Stiller var mikið á ferðinni hérna. Norðurljósin létu sjá sig. Við fórum á ættarmót og svo í réttir. Skólinn byrjaður og lífið að komast í fastar skorður eftir sumarið.
Einnig skrapp ég í haustlitaferð upp í Borgarfjörð aleinn með myndavélarnar mínar. Það var gaman og gefandi.
Október:
Síldarskipin voru farin að láta á sér kræla hér í Grundarfirði. Við hjónin skelltum okkur bæði í lazer aðgerð á augunum og sögðum bless við gleraugu og linsur. Við tókum okkur til og steyptum bílaplanið eftir langþráða bið.
Nóvember:
Í byrjun nóvember fórum við Rúna og pabbi til Denver Colorado. Þar nutum við lífsins í viku og höfðum það gott. Einnig fagnaði ég afmælinu í Denver með steik á Cheesecake Factory. þá byrjaði ég í Neyðarflutningsnámi hjá Sjúkraflutningaskólanum. Er því búinn að vera mikið í burtu því að hálfa vikuna þarf ég að vera á Akranesi og stunda námið.
Við Kristján Freyr skelltum okkur einnig í hvalaskoðun með Láka. Það var einstaklega gaman.
Desember:
Desember hefur liðið með sínu jólafári og vitleysu. Við vorum svo forsjál að klára nánast allar jólagjafir í USA og vorum því tiltölulega stresslaus hvað það varðar. Svo var líka brjálað að gera á milli þess að ég var að þeytast á milli vinnu og skóla. Sé ekki fram á að því ljúki fyrr en í febrúar á nýja árinu. Það verður ljúft. Við í slökkviliðinu gáfum út árlegt dagatal okkar og var það með óhefðbundnari sniði nú en áður. Þ.e. minna um nekt og meira af fíflalátum. Það er í lagi að breyta aðeins til er það ekki.
Ég sigraði í ljósmyndakeppni Grundarfjarðar með líklega skrítnustu ljósmyndafyrirsætu sem sögur fara af… Þessi mynd virtist falla vel í kramið á dómnefndinni.
Nú er ég nokkurnveginn búinn að stikla á stóru yfir árið. Megi 2013 vera viðburðarríkt og skemmtilegt ár.
Þangað til næst….
Gaman að þessu. Gleðilegt ár !!
Kveðja, Bjarki