Er kominn desember???

Ja hérna hér hvað tíminn líður… Og maður nennir ekkert að skrifa neitt á þessa guðsvoluðu síðu lengur. Er tími bloggsins liðinn? Er þetta ekkert hipp og kúl lengur? Tjah, maður spyr sig.

Annars gerðist svolítið fyndið um daginn…

Tengdamamma mín hún Anna Jobba er alveg voðalega hrifin af allskyns jólaskrauti sem gengur fyrir rafhlöðum. Og ekki skemmir fyrir ef að það eru alveg ferleg læti í því líka. Hún hefur sankað að sér yfir árin, einhverjum óskaplegum fjölda af allskyns syngjandi jólasveinum, jólatrjám, hringekjum og ég veit ekki hvað og hvað. Og ég held að henni líði best þegar hún er með kveikt á þessu öllu í einu og hvert skrapatólið gólandi ofan í hvert annað… Fyrir hinn venjulega mann (undirritaðan meðan annars) þá er þetta alveg óþolandi hávaði. Það er sérstaklega eitt jólatréið sem fer alveg í mínar fínustu. Það er reyndar komið til ára sinna þannig að röddin í því minnir á andsetinn hund með gigt þegar það byrjar að góla jólalögin. Þetta tiltekna jólatré er svo vel búið að það er með einhversskonar skynjara þannig að það kviknar á því þegar einhver hreyfing er í herberginu. Þessi fídus hefur kallað fram fleiri blót og hrakyrði en hjá sjálfum Kolbeini Kaftein.

Svo vorum við í heimsókn hjá tengdó um helgina, ég, Rúna og Kristján Freyr. Og það þarf svo sem ekkert að taka það fram að amman var í jólaskreytingahugleiðingum og var að rífa hvern kassann á fætur öðrum niður af háaloftinu. Uppúr einum kassanum koma svo svona tvö syngjandi, óþolandi jólatré. Amman uppveðrast öll af þessum gríðarlega skemmtilega fundi að hún stekkur til og byrjar að róta í öllum skúffum og skápum eftir rafhlöðum. Því miður fyrir mig þá fann hún rafhlöður í græjurnar og byrjar að sýna Kristjáni þetta gríðarlega skemmtilega, syngjandi jólatré. Kristján verður svaka hrifinn af þessu og heimtar að fá það lánað heim til sín. Ég var nú fljótur að segja að það væri ekki hægt en amma var líka snögg að segja að það væri EKKERT MÁL. DJÖFULL. Nú voru góð ráð dýr, ég varð að gjöra svo vel að fara með þetta bévítans syngjandi jólatré heim og hlusta á það allt kvöldið góla jingle bells og fleiri óþolandi slagara með úrbræddri rödd.

Svo loksins þagnar tréð og Kristján fer uppí rúm að sofa. Hann vill hafa jólatréð uppí hillu inní sínu herbergi sem var að sjálfsögðu leyft.

Kristján sofnar og undirritaður sest úrvinda í sófann. Aaaaaahh kyrrð, verrý næs.
En kyrrðin mín var rofin af gríðarlegu öskri innan úr herberginu hans Kristjáns. Þetta var c.a. 3 klst eftir að hann fór að sofa sæll og glaður. Ég stekk til og hleyp inní herbergi til hans. Kveiki veggljósið hjá honum og sé hvernig hann situr í rúminu, berjandi höndunum frá sér eins og hann sé að slást við einhvern. Ég stekk til hans og byrja að róa hann niður. Hann náði að segja mér í gegnum grátinn að jólatréð væri brjálað (hans orð) og að ég ætti að fjarlægja það úr herberginu hið snarasta. Hann hafði semsagt fengið martröð út af helvítis jólatrénu…. Það hálf hlakkaði í mér þegar ég hélt á þessu helvíti út úr herberginu….

Eftir þetta hefur drengurinn sömu skoðun á syngjandi jólatrjám eins og karl faðir hans. Múhahahahaha.

Réttlætið vinnur og engin syngjandi jólatré á Grundargötu 68 þessi jólin.

Þangað til næst….

5 thoughts on “Er kominn desember???

  1. pahahaha… snilld.
    Nei tími bloggsins er sko ekki liðinn!!! Ég vil fá bara fleiri svona hressandi skemmtileg blogg 🙂 algjör snilld.
    jólaljós eru kósý, ég segi pass við öðru jólaskrauti.

    Við sjáumst bara sveitt í spinning á fimmtudaginn.. eða hvað? 🙂

  2. hahahahahahaha Ekki hætta að blogga. Ég pissaði á mig við lesturinn því ég sá senuna fyrir mér, bæði tengdó og soninn. hahahahah ekki gleyma skítaglottinu á þér yfir því að hafa unnið fyrir rest.

  3. ‘I guðsbænum ekki hætta! Sé þetta fyrir mér, annars er kvikindið ættað frá st. Johns svo ef þeim mæðgum skyldi detta í hug að skreppa þangað í framtíðinni segir þú nei ! Annars held ég að það sé til dönsk útgáfa af þessu kvik- yndi líka!

  4. hahaha 😀 mamma mín getur verið ágæt 🙂 er alveg farinn að hlakka til að koma heim, en eftir þessa sögu er ég ekki alveg svo viss að koma heim í eitthvað agalega leiðinlegt jólatré 🙂

  5. Hahahaha, þetta er algjör snilld, fyrir utan það auðvitað að Krissi greyið hefur verið skíthræddur! En það er alla vega hægt að hlæja að þessu eftir á!

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s