Ég er líklega einn mesti sauður sem sögur fara af þegar sá gállinn er á mér.
Um helgina brugðum við undir okkur betri fætinum, spúsan og ég, og héldum suður á bóginn. Réttara sagt til höfuðborgar Íslands, Reykjavíkur. Við tókum Kristján með og þegar hann er með þá tökum við ipad með líka, aðallega svo hann geti dundað sér í angry birds á leiðinni. Nóg um það. Ástæða ferðarinnar var fyrst og fremst árshátíð VÍS sem var á laugardagskvöldinu. Við gistum á Grand Hótel þessa helgi.
Við tékkum okkur inn á föstudeginum og förum svo að horfa á UMFG kvk keppa í blaki á móti Aftureldingu. Tap þar en ágætis sprettir inn á milli.
En þetta er ekki blak pistill ef einhver skyldi vera að pæla í því.
Við gistum þarna um nóttina á Grand Hótel, ég, Rúna og Kristján Freyr. Þegar ég vakna um morguninn hálf sloj þá gríp ég ipadinn góða og kíki aðeins á netið… Fer svo að fikta eitthvað í stillingunum og ákveð þarna að setja passcode á ipadinn… Þetta var löngu ákveðið að við Kristján Freyr myndum setja passcode á ipadinn og var það meira að segja komið svo langt að búið var að velja fjögurra stafa númer sem við báðir ættum auðvelt með að muna. Ég semsagt er þarna að fikta í einhverjum stillingum og eins og flestir vita þá er þetta apple, ipad, ipod og iphone dótarí frekar svona imbahelt júnit. Á ekki að vera hægt að klúðra þessu beisíklí.
Ég semsagt set þessa fyrirfram ákveðnu tölu inn og svo á maður að setja hana aftur inn til öryggis svo að ekki sé hægt að ruglast á þessu. Þetta virkaði allt mjög fínt og ég legg ipadinn frá mér í bili. Svo líður og bíður og við förum niður í morgunmat. Þegar minn maður (Kristján Freyr) er búinn að borða vill hann fara í ipadinn góða. Ég hélt það nú og ríf paddann upp rogginn á svip, opna kvikindið og stimpla inn þessa fyrirfram ákveðnu tölu að ég hélt… Roggni svipurinn breyttist fljótlega í vandræðalegan roðn svip þegar ég uppgvötva mér til skelfingar að fyrirfram ákveðna númerarunan virkaði ekki. Ég reyni þarna þrisvar eða fjórum sinnum í röð en ramba ekki á rétta runu. Þegar þarna er komið við sögu biður ipaddinn mig vinsamlegast um að bíða í eina mínútu þangað til að ég reyni aftur að stimpla inn töluna. Í þessa einu mínútu sit ég þungt hugsi og hugsa hvaða andskotans tölu ég sett inn þarna um morguninn því að það var augljóslega ekki þessi fyrirfram ákveðna tala. Þegar mínútan er liðin reyni ég einusinni enn og stimpla inn tölu sem mér fannst líkleg en árangurinn var ekki eftir því. Nú biður ipaddinn mig vinsamlegast um að bíða í 6 mínútur. Svo í 15 mínútur og svo í 60 mínútur.
Þegar þarna var komið við sögu var ég orðinn frekar pirraður á þessari heimsku minni. Ég meina hver setur inn tölu, tvisvar og veit ekki hvaða tölu hann setti inn… tvisvar. Frekar grillað. Þegar ég var búinn að bíða þrisvar í 60 mínútur og alltaf setja inn vitlausa tölu þá segir ipaddinn hingað og ekki lengra… þú ert augljóslega þjófur eða nautheimskur og átt að tengja mig við tölvuna þína til að laga þetta. Kristján Freyr var ekki sáttur við pabba sinn með þessar málalyktir. Enginn ipad það sem eftir lifði helgar.
Þegar heim var komið var þetta tengt við tölvuna þar sem að maður þurfti að eyða dágóðum tíma í að setja ipaddinn upp aftur. En það gekk upp að lokum og allt orðið eins og það á að vera.
Það sem má læra af þessari reynslu er að ekki gera neitt róttækt eldsnemma á morgnana. Fá sér kaffi og með því og kíkja svo á málið.
Þangað til næst…