Jæja þá er kominn tími til að renna aðeins yfir árið 2013 á þessum ágætu tímamótum.
Janúar:
Í janúar 2013 var ég á fullu í EMT-I námi. Ég var á Akranesi og í Reykjavík. Skrapp svo heim inná milli og knúsaði liðið.
Febrúar:
Febrúar byrjaði á frábæru þorrablóti hjónaklúbbsins. Svo strax í kjölfarið annar síldardauði í Kolgrafafirði. Mikið havarí. Kláraði námið á Skaganum og svo starfsnámið í Reykjavík á hjartagáttinni, bráðamóttökunni og neyðarbílnum. Varð löggiltur EMT-I maður þann mánuðinn. Fór á magnaða útgáfutónleika Skálmaldar í Háskólabíó þar sem að þessir meistarar fögnuðu útkomu plötunnar Börn Loka.
Mars:
Mars nýtti ég til myndatökurúnta… Norðurljós, hvalir, fuglar you name it. Það var allt í gangi hér á Snæfellsnesinu. Kristján Freyr tók þátt í frjálsíþróttamóti og blakmóti og stóð sig með mikilli prýði. Við Rúna keyptum okkur Cube reiðhjól og voru teknir nokkrir hjólarúntar. Mislangir að sjálfsögðu.
Rúna og Kristján horfast í augu við sel
Hérna var lið frá BBC að taka upp hvalaþátt. Og lið að merkja hvali.
Apríl:
Það var vorbragur á firðinum. Við fórum á nokkra tónleika hérna í nágrenninu. Sólstafi og Dimmu á Kaffi 59 og Ásgeir Trausta í Frystiklefanum á Rifi. Meistaraflokkurinn hélt frábært kótilettukvöld. Mjög gaman.
Maí:
Amma mín hún Margrét í Dalsmynni féll frá í þessum mánuði níræð að aldri. Mjög merkileg kona. Ég stóð í ströngu í fermingar og stúdentamyndatökum. Meistaraflokkur Grundarfjarðar stóð í ströngu í 3. deildinni. Kristján Freyr tók þátt í fyrsta knattspyrnumótinu þetta sumarið þegar að VÍS mót Þróttar fór fram í Laugardalnum. Sumarið var á næsta leiti eða svo hélt maður að minnsta kosti.
Minn maður hress á 1. maí skemmtun.
Júní:
Sjómannadagurinn mætti í öllu sínu veldi með sínu havaríi. Kristján Freyr stakk af norður í land með ömmu sinni og við hjónin vorum eftir og nýttum tímann í að gera klárt fyrir komandi erfingja. Keypti mér gopro vél sem er ansi brúklegt verkfæri. Fórum á Blönduósmótið með Kristján Freyr sem að stóð sig eins og hetja. Skoraði fullt af mörkum og hafði afskaplega gaman að þessu.
Jón Frímann í átökum á sjómannadaginn.
Óléttumynd af fallegu ástinni minni.
Kristján Freyr fagnar einu og mörkum sínum innilega.
Við Pile fórum í smá myndarúnt saman.
Meistari Summi bauð okkur í bátsferð að skoða Þórsnes II sem strandaði við Stykkishólm.
Stemmingin var oft fín á Grundarfjarðarvellinum.
Svo er júní og júlí með hrikalega falleg sólsetur við Grundarfjörð.
Júlí:
Fljótlega í byrjun júlí var stefnan sett til Reykjavíkur til að bíða eftir nýja erfingjanum. Hann mætti svo í heiminn þann 16. júlí þegar að Ellen Alexandra fæddist kl. 18:24. Fæðingin gekk bærilega en stúlkan var samt tekin með sogklukku en bæði móður og dóttur heilsaðist vel eftir átökin. Það var nú fátt annað sem komst að þennan mánuðinn en að snúast í kringum þessa skvísu. Grundarfjarðardagarnir voru víst þarna einhverntímann undir restina.
Það var mikið fjör á góðri stund.
Ágúst:
Við byrjuðum ágúst á að skíra dóttur okkar og hlaut hún nafnið Ellen Alexandra í höfuðið á Ellen Ellertsdóttur vinkonu okkar og Gústa Alex bróður mínum. Kristján Freyr fór á frjálsíþróttamót í Borgarnesi og stóð sig vel. Lífið hélt áfram að snúast um nýjasta fjölskyldumeðliminn sem fékk ansi hreint mikla athygli.
Alex grafalvarlegur með frænku sína og nöfnu.
Grundarfjörður slátraði ÍH 9-1 á Grundarfjarðarvelli
September:
Við byrjuðum þennan mánuð á Intersportmótinu í fótbolta þar sem að Kristján Freyr stóð sig vel eins og endranær. Setti 4 mörk á þessu móti og kom markatölunni sinni í 11 mörk í sumar á þrem mótum. Mjög montinn af honum. Sökum úrhellisrigningar á mótinu þá tók ég engar myndir. Lífið var að komast í fastar skorður. Fór nokkra ljósmyndatúra.
Þessi mynd komst inn í flickr explore og sprengdi skalann á flickrinu mínu. Lang mest skoðaða myndin.
Önnur mynd sem komst í flickr explore.
Grundarfjörður bjargaði sér frá falli í 3.deildinni
Ein af mörgum hjólaferðum sumarsins.
Október:
Október mætti og allt var í fínum gír. Ég fór að fikta svolítið með timelapse á myndavélinni. Síldin mætti með tilheyrandi látum, dýralífi og skipakomum.
Haustveður við Grundarfjarðarhöfn.
Norðurljós í Hraunsfirði með Sumarliða.
Timelapse frá Kolgrafafirði
Nóvember:
Þessi mánuður hófst eins og flestir aðrir nóvembermánuðir ævi minnar að ég varð einu árinu eldri. Annars var þetta bara meiri síld, hasar í Kolgrafafirði, rollubjörgun og ég veit ekki hvað og hvað. Við fjölskyldan, mínus kornabarnið, fórum á magnaða tónleika með Skálmöld og Sinfó. Hrikalega flottir tónleikar og eiginlega með þeim betri sem ég hef farið á um ævina.
Summi dýfði sér aðeins í höfninni.
Björgunarsveitin í óhefðbundinni smalamennsku.
Kristján Freyr töffari á tónleikum með Friðrik Dór.
Timelapse frá síldarbátunum.
Síldarsmölun eins furðulegt og það hljómar.
Desember:
Jólaundirbúningur, átveisla, dagatalaútgáfa og ég veit ekki hvað og hvað. Mikið húllumhæ í desember eins og endranær. Við byrjuðum á að fara á frábæra tónleika með Baggalút í Háskólabíó svona rétt til að koma okkur í jólagírinn. Slökkviliðið okkar gaf út dagatal eins og fyrri ár og voru viðtökur frábærar eins og alltaf. Nú situr maður og skrifar þessi orð enn saddur eftir átið um jólin og ætli það sé ekki bara ágætt að enda þetta á nokkrum desember myndum sem að súmmera þetta ágætlega upp.
Hvorki fleiri né færri en fjórar þyrlur voru hérna á dögunum.
Þangað til næst….
Hljómar sem einstaklega ánægjulegt ár:)