Sumarfríið 2012

Dagur 1 – 28. júní

Þann 28. júní síðastliðinn sátum við fjölskyldan við Eldhúsborðið og lögðum á ráðin um hvert skyldi halda í fríinu. Þegar að við vorum komin að sómasamlegri niðurstöðu ákváðum við að leggja í hann eftir kl. fimm. Bongóblíða þegar við renndum úr innkeyrslunni á Kiunni. Fyrsta stopp var í Hraunsfirði þar sem að Kristján Freyr sendi eitt stykki flöskuskeyti af stað. Spurning hvar það skeyti endar. En næsta stopp var svo við Eldborg þar sem við vorum búin að ákveða að klöngrast þar uppá. Frábært veður eins og áður sagði og ferðin gekk mjög vel. Eftir að við komum niður aftur renndum við uppá Hofstöðum þar sem ég var búinn að panta gistingu hjá Nínu og Inga. Þar biðu okkar dýrindis hamborgarar fyrir glorsoltna fjallagarpa. Það var fínt að fresta því að gista í tjaldi í að minnsta kosti eina nótt.

Dagur 2 – 29. júní

Við vöknuðum á Hofstöðum og veðrið var algjört æði eins og daginn áður. Sól og blíða og 16-17 stiga hiti. Við vorum ekkert að flýta okkur neitt rosalega af stað og gáfum okkur tíma fyrir kaffibolla og spjall með ættingjunum. Fórum svo í Bauluna þar sem að maður fékk dýrindis kótilettur í hádegismat. Svo var lagt í hann og við stoppuðum við Ferjukot þar sem brúin var mynduð og svo var sullað og leikið sér í sandinum. Svo rúntuðum við inn Lundareykjardal og komum við í Krossalaug þar sem við fórum í fótabað. Keyrðum svo yfir Uxahryggi og þaðan yfir Haukadalsheiði. Á Haukadalsheiði keyrðum við yfir fyrstu vöðin af mörgum á Kíunni. Við komum niður við Gullfoss og stoppuðum aðeins þar í smá kaffibolla. Fórum svo á Flúðir til að tjalda. Þegar við vorum að borða kvöldmat á Flúðum gerði hellidembu svo að okkur leist ekkert á blikuna… En það stytti upp eftir 30 mínútur og aftur kom bongóblíða svo að við slógum upp tjaldi og höfðum það fínt á Flúðum.

Dagur 3 – 30. júní

Við vöknuðum á Flúðum í sól og blíðu og það var svo funheitt í tjaldinu að maður flaut næstum því útúr því. Við skröttumst í Samkaup til að fá kaffi og meððí. Þar hittum við Hönnu systir sem hafði líka verið á Flúðum í öðrum tilgangi en að sofa. Á Flúðum fórum við á alvöru sveitamarkað og fengum bestu jarðarber sem ég hef á ævi minni smakkað. Við þurftum að fara aftur til að fjárfesta í annari öskju þegar að við kláruðum hina á bílaplaninu. Eftir það var farið í dýragarðinn Slakka og kíkt á kvikindin þar. Svo var keyrt af stað og hádegismatur tekinn á Hellu á bökkum Rangár. Svo var keyrt af stað aftur og stoppað á Seljalandsfossi þar sem við hittum Steina, Heiðrúnu og fjölskyldu. Fórum í sund í Seljavallalaug. Kvöldmatur á Hótel Önnu undir Eyjafjöllum. Fórum svo á yndislegt tjaldsvæði sem heitir Hamragarðar þar sem við slógum upp tjaldbúðum. Kíktum á fossinn Gljúfrabúa sem er magnaður eins og Seljalandsfoss. Við óðum að sjálfsögðu alveg að fossinum inn undir klappirnar.


Dagur 4 – 1. júlí

Vöknum á Hamragörðum og þá er enn fínasta veður en stöku ský á lofti og búið að dropa aðeins um nóttina. Tókum skyndiákvörðun og skelltum okkur í dagsferð til Vestmannaeyja. Rúntuðum niður að Landeyjarhöfn og keyptum miða fram og tilbaka. Í Eyjum fórum við að spranga, sund þar sem að trampólínrennibrautin vakti mikla lukku. Svo var farið í bakaríið og snætt. Svo var farið og kíkt á gos mynjarnar og pompei norðursins. Fórum líka í Sædýrasafnið þar sem að Kristján og Rúna fengu að halda á lunda kvikindi. Fórum svo í land og fengum okkur að borða á Kaffi fjós þar sem að maður fékk svakalegan bernaisborgara. Eftir matinn var farið í Garðakot til Evu frænku.

Dagur 5 – 2. júlí

Vöknuðum í Garðakoti þar sem að Eva græjaði morgunmat eins og henni einni er lagið. Magga frænka og Steini buðu okkur með í hjólabátsferð niður að Dyrhólaey og vöktu strákarnir mikla lukku hjá hópi af Kínverjum sem tóku örugglega sjöþúsund myndir af þeim. Eftir hjólabátsferðina fórum við með Auðun Adam og skoðuðum Skógarfoss og Sólheimajökul. Fórum svo í fjósið á Vatnsskarðshólum þar sem að Kristján hjálpaði til við að mjólka. Strákarnir fóru svo í froðubað sem vakti mikla lukku.

Dagur 6 – 3. júlí

Vöknuðum aftur í Garðakoti í ágætis veðri. Kvöddum Evu og fjölskyldu með söknuði. Héldum áfram og kíktum aðeins á Reynisdranga áður en við stoppuðum við Fjaðrárgljúfur sem er alveg ótrúlega fallegt. Kíktum svo á Kirkjugólf sem er stuðlabergsklettar við Kirkjubæjarklaustur. Skoðuðum Dverghamra líka. Fengum okkur svo kaffi á Freysnesi við Skaftafell áður en við héldum áfram alla leið að Jökulsárlóni. Þar sáum við seli og ísjaka en gríðarlega flott þarna. Svo keyrðum við tilbaka og slógum upp tjaldi í Skaftafelli. Borðuðum flatkökur með hangikjöti í kvöldmatinn.

Dagur 7 – 4. júlí

20 stiga hiti og logn í Skaftafelli þegar við vöknuðum. Fengum okkar að borða og fórum svo í göngutúr upp að Svartafossi og Sjónarskífu. Röltum svo niður í Sel eftir það og kíktum á gamla bæinn. Eftir þessa 6 km göngu fengum við okkur svakalega góða kjötsúpu í Skaftafelli. Eftir súpuna löbbuðum við upp að Skaftafellsjökli og kíktum á hann. Keyrðum svo upp að Svínafellsjökli og kíktum á hann. Svo var haldið af stað aftur og áætlunin að fara yfir Sprengisand og til að komast þangað þurftum við að fara fjallabaksleið nyrðri. Stoppuðum í Eldgjá og röltum að Ófærufossi. Rosalega fallegt þarna. Eftir þann göngutúr vorum við búin að skilja ófáa kílómetrana að baki eftir daginn. Keyrðum svo upp í Landmannalaugar og tjölduðum á melnum þar. Frekar skrítið að þurfa að festa tjaldið niður með grjóti.

Dagur 8 – 5. júlí

Vöknuðum í Landmannalaugum í frábæru veðri. Fengum okkur morgunmat og skelltum okkur svo í laugina. Svo var ákveðið að halda af stað áleiðis yfir Sprengisand með kvíðahnút í maganum yfir ánni sem við þurftum að fara yfir í Nýjadal. Hugmyndin var að gista í Nýjadal og fara yfir Tungnaá um morgunin þegar hún yrði vatnsminni. Þegar við komum í Nýjadal um fjögurleytið var indælisveður þar. Við stoppuðum og spjölluðum við skálavörðinn sem sagði að við gætum vel farið yfir ána núna enda væri lítið í henni. Við létum slag standa og héldum áfram og Kían fór létt með þetta. Þarna ákváðum við að keyra Öskjuveg og keyra upp að Gjallanda sem er efsti fossin í Skjálfandafljóti. Mig hafði lengi langað til að skoða þann fagra foss og loks var tækifæri til þess. Á þessari leið voru mun erfiðari vöð að fara yfir heldur en í Nýjadal en Kían spændi ótrauð yfir þau öll. Svo renndum við okkur ofaní Bárðardalinn góða og í bústaðinn hennar Guðrúnar Jónu eldri.

Dagur 9 – 6. júlí

Rosalega gott að hvíla sig í kyrrðinni í Bárðardal. Nýttum þennan dag bara í chill í bústaðnum. Kristján og Gunnar Kjartan léku sér saman allan daginn og við smíðuðum báta, axir sverð og ég veit ekki hvað og hvað. Torfi sá aumur á mér og lét mig hafa lambakjöt sem var vel þegið eftir að hafa nagað samlökur nánast alla helvítis ferðina.

Dagur 10 – 7. júlí

Mikill hiti og sól þennan dag. Mikið af mývargi þannig að við Rúna og Kristján flúðum í Jarðböðin í Mývatni. Keyrðum Engidalinn yfir að Mývatni sem var mjög rykugt en gaman. Fórum svo í mat á Lundarbrekku um kvöldið þar sem við fengum kjötbollur og steikta fífla. Fórum svo aftur í bústaðinn góða.

Dagur 11 – 8. júlí

Fínasta veður í Bárðardalnum. Rúna og Kristján fóru í skógarferð með Jónasi og Sigrúnu en ég fór í smá ljósmyndaleiðangur. Fór upp að Hrafnabjargarfossum, Aldeyjarfossi, Goðafossi og Geitafossi. Myndaði þá alla í bak og fyrir og hafði gaman að.

Dagur 12 – 9. júlí

Vöknuðum í Bárðardalnum og fengum okkur morgunmat. Við Kristján fórum kring hamar á fjórhjólinu og var það mjög gaman. Eftir það héldum við áleiðis til Húsavíkur þar sem við áttum gistingu hjá ömmu og afa hennar Rúnu. Komum við hjá Ullarfossi til að kíkja á hann. Fórum svo í heimsóknir á Húsavík og vorum þar í góðu yfirlæti.

Dagur 13 – 10. júlí

Vöknuðum á Húsavík í frábæru veðri. Fórum í sund og svo var lambalæri hjá ömmu Gunnu. Kíktum til Torfa og Unnar í heitar kleinur og íííískalda mjólk. Fórum svo til Akureyrar og hittum Ninnalinginn… Fórum í Toys’rus, Eymundson, Greifann og Brynju.

Dagur 14 – 11. júlí

Vöknuðum á Akureyri í bongóblíðu eins og svo oft áður. Fórum niður í bæ, hittum Nonna, Láru og Kolbrúnu. Keyptum íþróttaföt á útsölumarkaði Intersport og fórum svo á Strikið að éta. Rúntuðum svo fyrir Tröllaskaga og komum við á Siglufirði. Ég hafði persónulega aldrei komið þangað en þar rákumst við á Nínu og fjölskyldu. Fórum svo í sund á Hofsósi, borðuðum á Sauðárkróki og renndum okkur svo innfyrir dyrnar heima tveim tímum eftir miðnættið. Frábært frí að baki í frábæru veðri.

Þangað til næst….

5 thoughts on “Sumarfríið 2012

  1. Þetta hljómar sem alveg dýrindis ferðalag hjá ykkur, verð nú að hrósa ykkur fyrir einstakan áhuga fyrir ferðamennsku og tjaldgistingum. Held svei mér þá að KFT geti ekki verið heppnari með foreldra…:)

  2. Gleymdi einu mjög mikilvægu ég kom einmitt við í Landmannalaugum um daginn og þið eigið hrós skilið að hafa haft geð á því að tjalda þarna og fara ofan í laugina. Ég stoppaði trúlega alveg í 30 mínútur og fannst það alveg nóg. Ég tala ekki lengur um Landmannalaugar heldur Hlandamannalaugar því þannig var lyktin þarna af sveittum ferðalöngum sem ekki voru búnir að ná að þrífa fötin sín svo dögum skiptir. Ég er alveg hissa yfir þessum áhuga á þessum stað hvað þá þessari laug!

    Finnst þér þetta ekki nauðsynleg athugasemd Tómas?

  3. Hahahahaha Ellen þú ert engri lík. Gastu ekki skutlað smá klór í pollinn??? Rúna var einmitt á nippinu yfir auglýsingum um sundmannakláða sem héngu þarna útum allt. Sem betur fer hittum við einn áttræðan sem var vel sjóaður í þessum bransa og sagði að ekki hafi borið á sundmannakláða síðastliðin þrjú ár… þannig að við skelltum okkur bara í hlandmannalaugina sem var by the way æði (Rúnu orð) en hún var ágæt.

    1. Ég heyri Rúnu segja “Æði”. En ég sá ekki þessar auglýsingar um sundmannakláða og ég hef aldrei heyrt um þetta. Ég er hins vegar að fríka út yfir þessu þar sem að ég setti hendina smá ofan í þennan hlandpoll. Ef ég hefði séð þessar auglýsingar þá hefði ég neitað að labba að þessari laug og trúlega ekki stigið út úr bílnum.

      Æði – bull og vitleysa í henni Rúnu!

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s