Fyrir Jón

Einu sinni var lítill drengur sem hét Jón… Hann hélt með Man Utd og varð markakóngur á hinu skemmtilega fótboltamóti með fallega nafnið… Tommamótinu, þetta var 1986.

Á þessum tíma var Liverpool aðal liðið og sigraði hvern titilinn á fætur öðrum og Jón þessi ákvað að venda kvæði sínu í kross og byrja að halda með þeim. Þetta voru mistök því að í hönd fór glæstasti tími Man Utd frá upphafi og liðið smellti sér á toppinn. Við þetta varð títtræddur Jón bitur og lagði hatur á þetta fyrrum dáða félag sitt.

Svo liðu mörg ár og Jón veðjaði við vin sinn um fótbolta og hlaut verra af…

Þetta er hann Jón Man fan og þykir mér þetta ansi skemmtileg mynd, ein af mínum uppáhalds ef ég á að segja eins og er… Aldrei að vita nema maður stækki hana og setji í stofuna.

Þangað til næst….

1-4

Þetta er mitt comment í þessa “Liverpool rúst” umræðu sem virðist alltaf bera uppá góma hjá þeim sem maður hefur hitt á þessum síðustu og verstu…

Dauði og djöfull

Þangað til næst….

Hvaaa bara kominn mars?

Doing.

Ég, Rúna og Kristján Freyr skelltum okkur í höfuðborg Norðursins um liðna helgi. Vorum í góðu glúteinlausu yfirlæti hjá Ninna og Dagmar. Þetta var heví næs.

Við lögðum af stað á föstudeginum um fjögur leytið. Rúntuðum sem leið lá í Borgarnes – Bauluna – Blönduós – Akureyri í finu færi, smá hálku en annars bara bongó blíða ef þannig má að orði komast. Við vorum mætt c.a. hálf tíu á Akureyri en þá voru húsráðendur í Melasíðunni stungnir af. Reyndar voru þau svo góð að skilja eftir opið fyrir okkur svo að við þyrftum ekki bíða í bílnum á meðan þau voru í leikhúsi. Við skelltum okkur inn og horfðum á Idolið í rólegheitarstemmingu.

Á laugardeginum var stefnan sett rakleitt upp í Hlíðarfjall. Frábært veður og færi til skíðaiðkunar. Við Rúna fórum á undan því að við ætluðum að leigja skíði. Hefðum reyndar þurft að fara c.a. klst fyrr því að nánast öll leiguskíðin voru búin. Reyndar fékk Rúna síðustu nothæfu skíðin í kofanum og hún hélt ein á leið uppí fjall og skildi mig eftir. Ég fór bara að taka myndir í staðinn og leika við Ninna og Kristján Freyr. Dagmar reddaði sér skíðum niðri í bæ og útlitið ekkert of gott fyrir mig.
En svo ákváðum við að fá okkur kakóbolla í hádeginu og í einhverju bjartsýniskasti ákvað ég að kíkja aftur í leiguna og viti menn. Þar sátu þau og biðu eftir mér…. Gullfalleg Rossingnol skíði af flottustu sort. Afgreiðslumaðurinn spurði mig hvort að ég væri ekki örugglega Schumacher maður því að þessi skíði gengu undir nafninu FERRARI skíðin. Mér leist nú ekkert á blikuna en ákvað samt að skella mér á þetta.
Sæll og glaður byrja ég að rifja upp gamla skíðatakta í barnabrekkunni. Fór fljótlega í stólalyftuna og kúkaði næstum því á mig af lofthræðslu.
En þetta var frábær skíðadagur og svaka stuð. Undir lokin gat ég varla gengið af verkjum í lærunum sökum þreytu.
Svo þegar heim var komið fór elskan hún Dagmar að elda kjötsúpu fyrir liðið á meðan við hin skelltum okkur í Þelamörk í sund. Komum heim og þar beið þessi líka yndislega kjötsúpa með gríðarlega girnilegu feitu og djúsí lambakjöti eftir okkur… smjatt. Þetta var geðveikt. Kjötsúpan var líka í hádeginu daginn eftir og þar af leiðandi var þetta í fyrsta sinn síðan 1992 að maður fer á Akureyri án þess að koma við á Greifanum… Ég fer bara tvisvar næst.

Á sunnudeginum tókum við því bara rólega. Hittum Tudda Jónasar á Glerártorgi og við Kristján kíktum í Toys’R us í svaka stuði. Svo fórum við að dóla okkur heim um fimm leytið. Var með Dabba frænda í beinni sms útsendingu yfir úrslitaleik Man Utd og Tottenham. Pissaði næstum í brækurnar af stressi yfir vítaspyrnukeppninni. En það hafðist hjá United sem betur fer.

Við stoppuðum á Blönduósi og vorum svona að velta því fyrir okkur að fá okkur að borða en ákváðum frekar að prófa nýja Staðarskála…. Við hefðum betur sleppt því. Þegar við nálgumst Staðarskála þá sjáum við 4 stórar rútur á planinu. Ég hugsaði með mér “Fokk”. Þegar við komum inn sjáum við okkur til mikillar skelfingar að þar inni eru c.a. 8000 tíu ára gamlir sveittir fótboltastrákar og allir að bíða eftir hamborgara. Röðin í grillið var kílómeters löng án þess að ýkja neitt. Og ég sem var búinn að hugsa um sveittan beikonborgara alla leiðina frá Blönduósi en varð að láta mér nægja eina skitna pylsu.
Sót svartur af bræði arkaði ég aftur uppí bíl og hundskaðist heim á leið. Vorum mætt aftur heim kl 22 á sunnudagskvöldi enda aðeins verri færð á leiðinni heim.

En frábær helgi að baki.

Þangað til næst…..

Fín stemming

Man Utd á fljúgandi siglingu þessa dagana. Eru komnir með 5 stiga forskot á Liverpool í þessum töluðu orðum. Búnir að vinna 9 leiki í röð. Ekki fá á sig mark í 14 leikjum í röð… Þetta er bara rugl. Þetta hlýtur að fara að enda bráðum. Þetta gengur ekki svona endalaust. En á meðan þetta er svona þá ætla ég að njóta þess.

Nú eru farnar að heyrast raddir um að United vinni alla titla sem í boði eru. Svolítið langsótt ef ég á að segja eins og er því að það er gígantískt erfitt prógramm framundan. En ég reikna samt með einhverjum titlum í hús og vonast mest eftir enska premiership titlinum… Það er bara svo ég geti dansað fram og til baka á Hlíðarveginum framhjá húsinu hans Jóns Frímanns klæddur í nýju Berbatov treyjuna mína… aftur og aftur og aftur. En látum það bíða þangað til í vor.

Svo eru Inter á svaka siglingu á Ítalíu líka. Tóku Beckham og félaga í AC um liðna helgi og náðu ágætis forustu í Serie A. Það verður gríðarlega erfitt að horfa á viðureignir Man Utd og Inter í Champions league. Ég á eflaust eftir að hlægja og gráta og sniffa og snökta og brosa og dansa… þetta verða blendnar tilfinningar en ekkert sem ég hef ekki gert áður svosem, því að þessi sömu lið áttust einnig við árið 1999 sælla minninga þegar Utd sló Inter, Juve og Bayern á leið sinni að evrópumeistaratitlinum.

svo ein mynd hérna í lokin bara fyrir Jón Frímann…

Þangað til næst….

Nafnabreyting

Ég gat nú ekki annað en skellt uppúr þegar ég las ÞESSA FRÉTT á mbl.is í morgun. Mikill snillingur hann Smári og gott að hann hefur náð sínu fram, enda ekki þekktur undir öðru nafni… Og nú er ríkið búið að békenna þetta allt saman. Gott stöff

Þangað til næst….

Erfiðir tímar framundan…

Þá er ég ekki að tala um kreppuna eða neitt tengt henni heldur aðeins um mína persónulegu hagi. Málið er það að nú þegar maður er aðeins í einni vinnu þessa dagana og aðeins rýmra um mann þá skráði ég mig á 2 námskeið hjá Tölvu og Verkfræðiþjónustunni. Ég byrjaði á fyrra námskeiðinu í gærkvöldi og þetta verður ansi strembið. Þetta er hagnýtt bókhaldsnám og á ég að mæta tvisvar í viku á mánudögum og miðvikudögum í tíma að Grensásvegi 16 og vera þar frá kl 19:30 – 22:30. Svo þarf maður að keyra heim. Fyrsti tíminn var í gær og ég var kominn heim kl 1 í nótt. Ég er pínu þreyttur í dag og þetta á örugglega eftir að verða svolítið þreytandi þegar líður á. Þessu námskeiði lýkur einhverntímann í apríl.
Hitt námskeiðið sem ég fer á byrjar 18 febrúar og það er á sömu dögum kl 16:15 til 19:15 þannig að ég verð samfleytt frá fjögur til hálf ellefu á mánudögum og miðvikudögum. Þetta verður líka eitthvað út apríl. Geisp segi ég nú bara en þetta verður nú vonandi þess virði.

Þangað til næst….