Family




Family

Originally uploaded by Tómas Freyr

Rúna og Kristján Freyr á frábærum degi í Flatey… Þetta var byrjunin á ferðalaginu okkar þar sem við eyddum einum degi í yndislegu veðri í Flatey. Kristján fjárfesti meira að segja í svona Kríupriki sem hann skartar á þessari mynd og það átti eftir að koma að góðum notum.

Nýtt dót :D

Skattmann var svo elskulegur að pumpa upp innkomuna þessi mánaðarmót (þar sem að maður er svo skuldugur) að ég gat græjað smá nýtt dót í myndavélatöskuna.

Canon 100-400mm f/4.5-5.6L IS USM
Canon EF 100-400mm f/4.5-5.6L IS USM

Og svo þessi elska líka…

Canon EF 100mm f/2.8 USM Macro
Canon EF 100mm f/2.8 USM Macro

Þetta er good shit.

Nú er bara að finna tíma til að brúka þetta dótarí…

Þangað til næst….

HM

Nú er HM byrjað og tilhlökkunin sem var í gangi fyrir þessu móti var álíka mikil og vonbrigðin yfir þessum skítaleikjum eftir að mótið er byrjað. Nú er fyrsta umferðin að klárast í dag og þvílíkt safn af hrútleiðinlegum fótboltaleikjum hef ég sjaldan orðið vitni að. Allir að passa sig voðalega, spila varfærnislega og kenna svo nýja boltanum um allt. Það er eins gott að þessir rasshausar fari að girða sig í brók og spila alvöru fótbolta hið fyrsta. Treysti á að Spánverjarnir sýni einhverjar rósir í dag… ef ekki þá eru það bara þjóðverjar og Argentínumenn sem að rúlla þessu upp. Einu liðin sem hafa sýnt skemmtilegan bolta. Djöfuls prump.

Ef allir væru jafn hressir og þessi

Yfir og út.

Gönguferð á Helgrindur




Enjoying the view

Originally uploaded by Tómas Freyr

Annan í hvítasunnu þá var ákveðið að skella sér í smá göngutúr. Ég, mamma, Kappi og Gaui Ella. Ákveðið var að skella sér á hæðsta punkt Helgrindanna sem er Böðvarskúla og er 988 m á hæð (skv Ara Trausta). Við lögðum af stað kl 9 um morguninn í gríðarlega góðu og fallegu veðri. Leið okkar lá uppí Egilsskarð og vorum við þar c.a. kl 13. Þaðan var lagt á kúluna er kennd er við Böðvar og náðum við þeim áfanga kl 15 eða eftir 6 tíma göngu. Útsýnið þarna uppi er stórfenglegt. Enda var alveg heiðskýrt en smá mistur í fjarska. Þetta var gjörsamlega magnað. Þá tók við 4 tíma niðurgangur (ekki samt hefðbundinn niðurgangur heldur vorum við að ganga niður). Við vorum mætt á stéttina heima kl 19 og alveg gjörsamlega búin á því eftir 10 tíma göngu.

Á myndinni eru mamma og Kappi að skoða útsýnið af Rauðukúlu rétt eftir að búið var að snæða hádegismat. Þarna eru þau að horfa yfir síðasta leiðarspölinn yfir á Böðvarskúlu.

Meira próf eða Meirapróf???

Það er búið að vera frekar mikið að gera í apríl… málið er að ég þurfti að skella mér í meiraprófið og er því í Reykjavík um hverja helgi frá föstudagsmorgni og út mánudag. Sef svo fjórar nætur hjá minni heittelskuðu og fer svo aftur til Reykjavíkur. Frekar þreytandi. Sem betur fer eru Benni og Iðunn með eindæmum þolinmótt fólk þannig að þetta sleppur.

Nú getur maður krossað “að keyra vörubíl” af bucket listanum mínum. Check. Það er töff að keyra vörubíl. Sérstaklega þegar maður skutlast yfir kantsteina með afturdekkin eins og enginn sé morgundagurinn 😉 En þetta kemur allt saman, veit ekki hvernig ég verð þegar ég fer að keyra trailer… sjiiitt. Svo tek ég líka leigubílapróf þannig að maður verður klár á allt nema rútuna

Þangað til næst….

Páskar og svo vorið.

Djöfull er þetta fljótt að líða… kannski af því að maður er frekar bissí þessa dagana. Páskarnir á næsta leiti og svo vorið uppúr því. Maður er á fullu að koma fótboltanum á koppinn hérna í Grundarfirði. Við ætlum að halda úti Meistaraflokki í sumar og það gengur bara bærilega og þetta lítur mjög vel út. Við Jón Frímann erum búnir að ráða þjálfara til að stjórna batteríinu og það er enginn annar en hann T-Bone… reyndar gegn því skilyrði að við Jón Frímann fáum áskrift að byrjunarliðssæti en það á eftir að reyna á það.

Ég held að ég hafi aldrei á ævinni verið í eins góðu formi og ég er núna. Ekki það að ég sé í einhverju gríðarlegu topp formi en ég er c.a. í 100 sinnum betra formi en ég var í fyrra. Við vorum að spila leik á sunnudaginn og maður tók bara 60-70 mín án þess að blása úr nös. Það hefur ekki gerst í mínu tilfelli síðan…. tjah, bara aldrei. Enda hefur T-Bone verið duglegur að reka okkur strákana út að hlaupa og stunda æfingar. Svo hefst harkan fyrir alvöru nú í apríl þegar mr. T ætlar að reka mann áfram með svipunni.

Við stefnum norður í páskafríinu. Reiknum með að vera eitthvað á Akureyri, Húsavík og jafnvel Bárðardal. Þar er ætlunin að reyna að mynda eitthvað enda hefur maður varla komist út með nýju myndavélina mína síðan ég keypti hana. Ég seldi nefninlega 40d vélina mína og keypti Canon EOS 1d Mark III og eina 17-40 L linsu með. Þetta var ekki ódýrt en þess virði. Þó að Rúna láti mig borða hrísgrjón út árið.

Þetta verður sweet.

Þangað til næst….

Að elska

Tómas Freyr og Kristján Freyr sitja tveir við kvöldmatarborðið í gærkvöldi og gæða sér á rjómaís. Og hér kemur hluti úr kvöldverðarumræðunum það kvöld.

Kristján Freyr: Pabbi… hvað er að elska?

Tómas Freyr: Það er svona þegar manni þykir rosalega rosalega vænt um einhvern, þá elskar maður hann… Alveg eins og mér þykir rosalega rosalega vænt um þig, þá elska ég þig.

Kristján Freyr: Já ok… (hugsar sig um í smá stund) Pabbi, mér þykir rosalega vænt um þennan ís

Tómas Freyr: (andvarp)

Þangað til næst….