27

Ninnmundur er 27 ára í dag. Hann fær að sjálfsögðu kveðju.

Talan 27 er nokkuð merkileg. Þeir eru ófáir rokkararnir sem hafa geispað golunni á þessum aldri. Kurt Cobain, Jimi Hendrix, Janis Joplin, Jim Morrison, Brian Jones og svo einhverjir fleiri óþekktari póstar. Flestir af hinum undarlegustu orsökum eins og að drukkna í eigin ælu, skjóta af sér hausinn svo eitthvað sé nefnt.

Ninni minn, þú lætur gítarinn eiga sig og ferð varlega þangað til að þú verður 28… Svo geturðu byrjað að rokka úr þér garnirnar eftir ár.

Þetta er bara af því að mér þykir vænt um þig kúturinn minn.

Þangað til næst….

Er kominn desember???

Ja hérna hér hvað tíminn líður… Og maður nennir ekkert að skrifa neitt á þessa guðsvoluðu síðu lengur. Er tími bloggsins liðinn? Er þetta ekkert hipp og kúl lengur? Tjah, maður spyr sig.

Annars gerðist svolítið fyndið um daginn…

Tengdamamma mín hún Anna Jobba er alveg voðalega hrifin af allskyns jólaskrauti sem gengur fyrir rafhlöðum. Og ekki skemmir fyrir ef að það eru alveg ferleg læti í því líka. Hún hefur sankað að sér yfir árin, einhverjum óskaplegum fjölda af allskyns syngjandi jólasveinum, jólatrjám, hringekjum og ég veit ekki hvað og hvað. Og ég held að henni líði best þegar hún er með kveikt á þessu öllu í einu og hvert skrapatólið gólandi ofan í hvert annað… Fyrir hinn venjulega mann (undirritaðan meðan annars) þá er þetta alveg óþolandi hávaði. Það er sérstaklega eitt jólatréið sem fer alveg í mínar fínustu. Það er reyndar komið til ára sinna þannig að röddin í því minnir á andsetinn hund með gigt þegar það byrjar að góla jólalögin. Þetta tiltekna jólatré er svo vel búið að það er með einhversskonar skynjara þannig að það kviknar á því þegar einhver hreyfing er í herberginu. Þessi fídus hefur kallað fram fleiri blót og hrakyrði en hjá sjálfum Kolbeini Kaftein.

Svo vorum við í heimsókn hjá tengdó um helgina, ég, Rúna og Kristján Freyr. Og það þarf svo sem ekkert að taka það fram að amman var í jólaskreytingahugleiðingum og var að rífa hvern kassann á fætur öðrum niður af háaloftinu. Uppúr einum kassanum koma svo svona tvö syngjandi, óþolandi jólatré. Amman uppveðrast öll af þessum gríðarlega skemmtilega fundi að hún stekkur til og byrjar að róta í öllum skúffum og skápum eftir rafhlöðum. Því miður fyrir mig þá fann hún rafhlöður í græjurnar og byrjar að sýna Kristjáni þetta gríðarlega skemmtilega, syngjandi jólatré. Kristján verður svaka hrifinn af þessu og heimtar að fá það lánað heim til sín. Ég var nú fljótur að segja að það væri ekki hægt en amma var líka snögg að segja að það væri EKKERT MÁL. DJÖFULL. Nú voru góð ráð dýr, ég varð að gjöra svo vel að fara með þetta bévítans syngjandi jólatré heim og hlusta á það allt kvöldið góla jingle bells og fleiri óþolandi slagara með úrbræddri rödd.

Svo loksins þagnar tréð og Kristján fer uppí rúm að sofa. Hann vill hafa jólatréð uppí hillu inní sínu herbergi sem var að sjálfsögðu leyft.

Kristján sofnar og undirritaður sest úrvinda í sófann. Aaaaaahh kyrrð, verrý næs.
En kyrrðin mín var rofin af gríðarlegu öskri innan úr herberginu hans Kristjáns. Þetta var c.a. 3 klst eftir að hann fór að sofa sæll og glaður. Ég stekk til og hleyp inní herbergi til hans. Kveiki veggljósið hjá honum og sé hvernig hann situr í rúminu, berjandi höndunum frá sér eins og hann sé að slást við einhvern. Ég stekk til hans og byrja að róa hann niður. Hann náði að segja mér í gegnum grátinn að jólatréð væri brjálað (hans orð) og að ég ætti að fjarlægja það úr herberginu hið snarasta. Hann hafði semsagt fengið martröð út af helvítis jólatrénu…. Það hálf hlakkaði í mér þegar ég hélt á þessu helvíti út úr herberginu….

Eftir þetta hefur drengurinn sömu skoðun á syngjandi jólatrjám eins og karl faðir hans. Múhahahahaha.

Réttlætið vinnur og engin syngjandi jólatré á Grundargötu 68 þessi jólin.

Þangað til næst….

Veggspjaldagerð

Ég fór með Draugabönunum í smá myndatöku um helgina. Eitthvað af afrakstrinum er inná flickrinu mínu.

Svo negldum við Gústi niður 2 plaköt til að auglýsa böll með sveitinni.

Spurningin er…. Myndi þetta veggspjald ekki draga þig syngjandi sveitta(n) á dansiball með Draugabönunum???

Svar óskast.

Þangað til næst….

Jesús Guð dýrðlingur

Við Rúna skelltum okkur á leiksýningu inní Hólmi í kvöld. Þeir eru með uppfærslu á Jesus Christ Superstar og vá… ég átti bara ekki til eitt aukatekið orð þetta var svo flott. Maður var með netta gæsahúð mest allan tímann. Mæli með þessu ef þú ert ekki búinn að sjá þetta. Það er vel þess virði.

Þangað til næst…

Garfað í myndum

Ég er búinn að vera að garfa og fikta í myndum síðan í sumar… Um að gera að henda einhverju af þeim hérna inn þar sem að andleysið yfir þessu bloggi er mann gjörsamlega lifandi að éta.

Sjálfur er ég nokkuð sáttur við þessar…. svo eru fleiri inná flickrinu mínu ef einhver hefur áhuga 😉

Þangað til næst….

Ísland í dag

Ég er búinn að gera 5 tilraunir til að byrja þetta blogg en alltaf skrifað eina línu en strokað hana jafn harðan út… þangað til núna. Maður liggur heima í einhverju bölvuðu andleysi og volæði. Var búinn að vera eitthvað tæpur í maganum alla síðustu viku en ekkert alvarlegt samt. Fór í bæinn með Rúnu síðasta föstudag og sá Quantom of Solace (sjitt hvað hún er góð). Var alveg fín helgi. Svo komum við heim á laugardeginum. Chilluðum á sunnudeginum og þá gerðist eitthvað innra með mér sem ég get ekki útskýrt. Jú ég fékk þessa líka svakalegu skitu. Gat ekki sofið aðfaranótt mánudagsins því að ég rumskaði á klukkutíma fresti til að fara inná klósett og pissa með rassgatinu. Hringdi strax morguninn eftir í Papco og lét þá senda mér eitt bretti af skeinara asap. Svo á mánudagsmorgninum þá byrjaði þetta helvíti að gusast út um trantinn á mér líka. Enda var ég frekar fölur og fár þegar ég hringdi í báða vinnuveitendur mína og tjáði þeim að ég myndi ekki láta sjá mig þennan daginn. Þó að ég hefði mætt þá er ekkert víst að þeir hefðu séð mig hvort eð var enda með fölari dögum.
Þetta sló ekki af fyrr en á þriðjudagskvöldið og óska ég engum þess að velkjast um heimilið með þessa djöfulsins skíta og ælupest. Ég er ennþá alveg hel aumur í endaþarminum enda kominn niður í hálft papco bretti í skeiningum.
Á miðvikudeginum var ég farinn að geta étið aðeins og nokkurnveginn hættur að pissa með rassgatinu sem betur fer.

En nóg um rassgöt og skítelsi í bili. Ég veit bara ekkert hvað maður á að segja á þessum síðustu og verstu. Kreppan er að versna og versna og líklega er þetta bara rétt toppurinn á ísjakanum. Sjitt hvað ég er fegin að hafa flutt út á land í fyrra. Væri einhvernveginn ekki til í að búa í henni Reykjavíkinni akkúrat núna. En nóg í bili enda hef ég ekkert að segja.

Þangað til næst….

Hvað næst???

Fyrst fer Ísland á hausinn eins og það leggur sig.
Peningarnir mínir frystir inní Landsbankanum.
Kreppa allstaðar.
Allir hættir að kaupa…

Og nú er David Beckham að fara til AC Fokking Milan…. HVAÐ NÆST segi ég nú bara.
Að hetjan mín og minn uppáhaldsleikmaður í öllum heiminum þurfi endilega að fara til helvítis AC Milan. DJÖFULL, hva, var ekki pláss í Liverpool eða???

Fáviti.

Þangað til næst…