Jáááá Hemmi minn

Eitthvað að gerast…

Freysi frændi er búinn að vera að flísaleggja hjá mér í gær og í dag og nú er þetta allt að verða komið. Getum byrjað að flytja af einhverri alvöru á mánudaginn. Jafnvel bara gist fyrstu nóttina þá 😀 JEEEEIIII

Við Rúna skruppum skottúr til Reykjavíkur á fimmtudaginn eftir vinnu. Ég var að koma henni á óvart með vafasömum árangri og bauð henni á Ladda sýninguna. Á leiðinni suður var alveg heví rigning og undir Hafnarfjalli datt rúðuþurrkunni bílstjóramegin í hug að hætta að virka. Við þurftum að aulast aftur inní Borgarnes og láta redda þessu. Þá höfðu snillingarnir sem skiptu um framrúðuna hjá mér í haust ekki hert nógu vel á þessu þannig að hún losnaði. Þurfti bara að herða hana aftur og málið dautt. Við komumst svo klakklaust í bæinn og sáum þessa líka rosalega skemmtilegu sýningu hjá honum Ladda. Mæli með þessu.

Gotta gó

Þangað til næst….

Afmæli

Litli bróðir minn, hann Gústav Alex Gústavsson athafnamaður með meiru er hvorki meira né minna en 20 ára í dag.

Ég man ennþá þegar mamma kom með þetta gerpi af fæðingardeildinni. Þá var ég 12 vetra og var mikið með hann, skipti á honum annað slagið og svoleiðis. Hann var nú alveg ógurlega sætur þegar hann var lítill.

Síðan tognaði smá úr honum…

og hérna er hann með pabba sínum á brókinni að sjálfsögðu

Hérna er hann svo í einkennisklæðnaðinum sínum… brókinni

og í dag er hann svona…

að leika við litla frænda sinn

Til hamingju með 20 ára afmælið litli minn, ekki eyða öllu í ríkinu.

þinn stóri bróðir sem er samt minni en þú.

Þangað til næst….

Nú er frost á frónni frýs í æðum blóð…

Já það er napurt úti, ég hef ekki séð svona mikinn snjó síðan veturinn 95 þegar ég var ungur að árum með hor í nös og bjó hjá pabba hérna í grundarfirði. Nú 13 árum seinna er ég…tjah ekki svo ungur að árum en ég bý hjá Tengdó… frekar sad. En húsið hlýtur að fara að verða klárt fljótlega. Yfir verkefnastjórinn í húsinu… Hann Maggi Jobba, fékk tak í bakið og er óvinnufær þessa stundina. Vonandi verður hann hress um helgina þannig að við getum tekið slurk í þessu og farið að sjá fyrir endann á þessu helvíti. Þetta er orðið þokkalega þreytandi.

En eins og sagði þá er alveg svakalegur snjór hérna, og skíðalyftan sem hefur sökum snjóleysis, ekki verið gangsett síðan 95, er biluð. Frábært. En nú þykir það ekkert tiltökumál að mæta eins og einum snjósleða á Grundargötunni eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þetta er jú þeirra tími og um að gera að nota snjóinn til að renna á sleðanum niður á bensínstöð til að taka bensín heldur en að vera að dröslast með þetta sull í brúsum til að fylla á í bílskúrnum.

Læt fylgja eitt svalasta fótboltavídjó ever. Materazzi er einn sá svalasti í bransanum.

Þangað til næst….

Here I go again…

Váááá

Ég hélt að ég hefði óvart ferðast tæp tuttugu ár aftur í tímann þegar ég var að fletta fréttablaðinu í dag. Sjiiiitt marr. Sá bara heilsíðu auglýsingu… WHITESNAKE í höllinni 10 júní og mynd af eldgömlum David Coverdale (ég vona allavena að þetta hafi verið David Coverdale) í forgrunni. Váááá ég vissi ekki einusinni að þessi hljómsveit væri ennþá starfandi. Ætli hann læri af reynslunni og haldi bara eina tónleika? Pétur Kristjáns er náttúrulega horfinn á vit forfeðra sinna þannig að ekki getur hann stokkið uppá svið og skeint þeim aftur. En nóg um það.

Það er sko búið að vera heví hasar á okkur þessa dagana. Húsið er komið vel á veg og nú er næsta skref að leggja hita í gólfið í forstofunni, steypa yfir það. Leggja ræsi í bílskúrnum og steypa yfir það, parketleggja, setja innihurðirnar upp, skipta út öllum tizino tenglunum, þrífa og svo loksins flytja. Þó að það eigi nú örugglega eftir að koma eitthvað meira uppá eins og tíðkast með svona bras.

Kallinn að meika það feitt hérna fyrir vestan. Er núna tvöfaldur Héraðsmeistari í innanhúsknattspyrnu fyrir árið 2007. Fór strax eftir áramót og keppti með meistaraflokk Grundarfjarðar inní Hólmi. Þar var liðið skipað nokkrum ungum sprækum strákum og hækkaði ég meðalaldurinn um ábyggilega 10 ár. Ég spreytti mig nú lítið en tók einhverjar 2 mínútur í leik. Svo í síðasta leiknum tók ég mér það bessaleyfi að stilla sjálfum mér uppí byrjunarliðinu og það vildi ekki betur til en að sá leikur fór 10-1. Meistaraflokkur Grundarfjarðar kláraði mótið með stæl. Vann alla leikina nema einn sem við töpuðum 1-0 á einhvern óskiljanlegan hátt.

Svo síðasta laugardag þá fór ég með Old Boys Grundarfjarðar þar sem við tókum þátt í Héraðsmóti “Öldunga”. Þar var kallinn nú aðeins mikilvægari hlekkur í liðinu og spilaði nánast allar mínúturnar. Setti 3 mörk og við unnum það mót líka. Fengum bikar og alles. Helvíti gaman bara.

Kristján Freyr er alveg að plumma sig hérna. Rosa gaman hjá honum þessa dagana, er rétt að jafna sig eftir jólageðveikina. Svo lofa ég að setja inn myndir og uppfæra síðuna hans um leið og við erum flutt. Tölvan mín er ennþá ofaní pappakassa í bílskúrnum hjá pabba og bíður uppsetningar. Ég hef ekkert hætt að taka myndir þó að þær séu ekki á netinu. Það er ógrynni af myndum sem bíður eftir því að láta birta sig á veraldarvefnum. Stay Tuned

Svona er lífið nú skemmtilegt hérna í snjónum á Grundarfirði. Bið að heilsa

Þangað til næst….

Áramótaspá 2008

Þetta ár verður all svakalegt…

Þetta verður árið sem að Jón Frímann tilkynnir öllum að hann sé óléttur og kemst í heimsfréttirnar fyrir vikið. Síðar kemst upp að þetta hafi verið gabb og Jón Frímann falsað meinta óléttu sína með því að hafa púða inná bumbunni.

Árið sem að Ninni Dittu hyggs gerast kvótakóngur í Eyjafirði og fjárfestir í forláta gúmmíbát í Toys r us en fattar ekki að það fylgir enginn kvóti með dallinum.

Rúna Jobba mun byrja að rækta nýja garðinn sinn sem er í kringum einbýlishúsið hennar með lúpínum og víði. Hún tekur illa í þær fyrirætlanir makans um að leggja gervigras yfir allt heila klabbið.

Dabbi Wium kemur til með að fá nýjan vinnubíl sem verður af gerðinni Ford Fiesta árg 86 og verður skreyttur með álímdum Kókópuffs pakka á toppnum. Þetta mun verða vegna niðurskurðar hjá fyrirækinu hans.

Begga Jobba og Sigurbjörn Jobba ætla sér stóra hluti á árinu og taka lán hjá Glitni til að flytja inn alvöru BIG FOOT jeppa sem Bjössi fann á ebay. Síðar kemur í ljós að Big Foot jeppinn sem kostaði 140 milljónir var af gerðinni Matchbox.

Soffi og Hrefna gefa út bókina “leiðin að betra klósetti” sem verður að metsölubók um allan heim en bók þessi fjallar um sameinaðar klósettferðir sem geta styrkt hjónabönd og eflt ástarlosta.

Rut og Haddi munu uppgvötva 6 nýjar leiðir til að gera gips spennandi í hjónaherberginu. Þetta kemur til með að valda því að Haddi verður samfleytt í gipsi út árið.

Sólrún mun gera nýja nágrannan sinn bandsjóðandi vitlausan með nýrri söfnunaráráttu. En árátta þessi felst í því að sanka að sér hinum ýmsu tegundum af fiskikörum sem Solla mun stilla upp í garðinum hjá sér. Steina Gönn verður nóg boðið þegar 1000 lítra kar frá Fiskvinnslustöðinni á Bíldudal verður sett í stæðið hans.

Heisi og Oddný taka þátt í raunveruleikaþættinum sterkasta par heims og lenda í öðru sæti á eftir tékknesku hommapari. Úrslitin ráðast á pungsvitamælingum en þar hafa tékknesku hommarnir smá forskot.

Dagmar mun kaupa landskika við hliðina á bænum Merki, þar sem hún ólst upp, og byggja þar bæ. Sá bær fær nafnið Skilti eða Veggspjald. Þar mun hún Damsína fara útí Hamstrarækt af miklum móð til að framleiða hamstrapelsa… Þetta fer svo í vaskinn vegna lélegrar eftirspurnar eftir að aðeins einn pels selst, en það verður hann Ninni sem mun stoltur spranga um í hamstrapels framvegis.

Grundarfjörður fær verðlaun frá Forsetanum sem prúðasti bær landsins. Þetta hlýtur hann fyrir einstaklega mikla gestrisni við alla eistneska ferðalanga.

Þetta verður árið 2008 í hnotskurn.

Gleðilegt nýtt ár allir saman.

Þangað til næst….

Nú árið er liðið í aldanna….

Já, Gamlársdagur í dag og enn eitt árið farið frá manni.

Þá er best að stikla á stóru hvað á daga manns hefur drifið þetta árið…

Janúar
Já þetta var svona gúrkutíðs mánuður, Keyptum okkur húsgögn í íbúðina… voðalega fínt.

Febrúar
Enn var maður sveittur í Blöndubakkanum og lífið hélt áfram sinn vanagang. Semsagt frekar lítið að gerast.

Mars
Fór á Incubus í höllinni… fínt. Var á fullu í spinning og fótbolta ásamt því að stunda djammið sem aldrei fyrr.

Apríl
Fékk Nintendo Wii tölvu í verðlaun í vinnunni. Vatnsberarnir keyptu nýtt búningasett. Ég keypti nýja Canon EOS D400 myndavél. Semsagt nóg að gerast í apríl. Man Utd vann Roma 7-1 og Inter urðu Ítalskir meistarar. Fórum í fína ferð uppá jökul.

Maí
Mánuðurinn byrjaði á því að Man Utd tryggðu sér Englandsmeistaratitilinn mér til mikillar gleði. Vatnsberarnir slógu út Höfrung frá Þingeyri og Snæfell eftir framlengda leiki.. Þvílík stemming í kringum það allt saman. Rúna varð 26 ára og Kristján varð 2 ára.

Júní
Þessi mánuður byrjar á því að Vatnsberarnir etja kappi við stórlið aftureldingar og steinliggja 10-1. Ég var í byrjunarliðinu í þessum leik sökum manneklu og skreið slefandi útaf á 68 mínútu. Við fjárfestum í nýjum bíl. Subaru Legacy árg 2005. Rúna fór að vinna í Grundarfirði þannig að hún varð helgarmamma á meðan við Kristján vorum 2 í bænum. Steggjuðum Soffa eftirminnilega. Og slasaði mig í fótbolta.

Júlí
Við fórum til Costa del Sol. Ég, Rúna, Kristján Freyr og Arndís Jenný. Ég seldi Mótorhjólið mitt með smá söknuði. Fórum á útihátíð í Lág. Grundarfjarðardagarnir með öllu tilheyrandi. Soffi og Hrefna gengu í það heilaga.

Ágúst
Það stærsta sem gerðist í þessum mánuði var að sjálfsögðu þegar við tókum þá ákvörðun að flytja til Grundarfjarðar. Rúna fékk vinnu við Fjölbrautarskólann sem fjármála og skrifstofustjóri þannig að íbúðin var sett á sölu og vinnunni sagt upp.
Ole Gunnar Solskjaer leggur skóna á hilluna.

September
Íbúðin á sölu og ég einn í Reykjavík. Þessi mánuður fer í stanslausar ferðir til Grundarfjarðar og til baka. Endalaust að sýna íbúðina lon og don.

Október
Íbúðin seld. Fórum til Búdapest með EJS. Svaka stuð. Tæmdum íbúðina síðustu helgina í október með tilheyrandi brölti og bramli. Flyt til Benna og Iðunnar og verð það í einn mánuð.

Nóvember
Síðasti mánuðurinn í EJS. Þessi mánuður byrjar nánast alltaf eins. Ég verð árinu eldri. Er kominn með 2 fastar vinnur í Grundarfirði og fjárfest í nýju einbýlishúsi.

Desember
Flyt vestur. Hef störf hjá Mareind og á Þjónustustofunni hjá pabba. Rosalega gott að vera kominn vestur og fá að hitta konuna mína og barnið mitt á hverjum degi. Forréttindi segi ég nú bara. Fáum einbýlishúsið okkar afhent 24 desember og þá er strax hafist handa við að græja það. Öllu hent út. Teppin rifin af gólfinu, hurðirnar teknar burt osfr. Málað, sparslað, rifið og ég veit ekki hvað og hvað.
Skrifa þennan pistil.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár öll sömul. Ég mun koma með hina árlegu áramótaspá Tomma strax á nýju ári.
Þangað til gangið hægt um gleðinnar dyr og passið ykkur á rokinu.

Þangað til næst….