Topp tíu

Til gamans ætla ég að birta hérna topp tíu myndirnar mínar á flickrinu. Það eru myndirnar sem eru mest skoðaðar á flickr myndasíðunni minni. Þetta hefur ekkert með gæði myndanna heldur eingöngu hvaða myndir eru vinsælastar frá því að ég byrjaði með þessa síðu.

10. sæti:

Uggi
Í 10. sæti er þessi mynd af háhyrningsugga í forgrunni með Grundarfjörð í baksýn. Þessi mynd var tekin þann 15. febrúar 2011 þegar að hvalirnir komust í hámæli hérna í firðinum. Hún hefur verið skoðuð 587 sinnum.

9. sæti:

Grundarfjarðarkirkja
Í 9. sæti er þessi mynd af Grundarfjarðarkirkju sem var tekin þann 9. desember 2011. Falleg og friðsæl mynd sem hefur verið skoðuð 595 sinnum.

8. sæti:

Kirkjufell
Í 8. sæti er þessi Kirkjufellsmynd með háhyrning í forgrunni sem er tekin í sömu bátsferð og myndin í 10 sæti eða þann 15. febrúar 2011. Hún hefur verið skoðuð 622 sinnum.

7. sæti:

Hey there
Í 7. sæti er önnur háhyrningamynd úr sömu bátsferðinni 15. febrúar 2011. Þarna má sjá nokkur dýr spóka sig fyrir framan Grundarfjarðarbæ. Þessi mynd hefur verið skoðuð 711 sinnum.

6. sæti:

Goðafoss
Í 6. sæti er þessi fallega panoramamynd af Goðafossi sem ég persónulega er mjög montinn af. Þessi mynd var tekin 8. júlí 2012 á meðan við fjölskyldan vorum á ferðalagi. Þessi mynd hefur verið skoðuð 717 sinnum.

Og þá erum við komin í topp 5 af vinsælustu myndunum á flickrinu.

5. sæti:

Kirkjufell Aurora Borealis
Í 5. sæti er þessi fallega mynd af Kirkjufellinu böðuðu í norðurljósum. Þetta er jafnfram sú mynd sem er með flestu commentin og líka yngsta myndin sem er í topp 10 myndunum enda hefur hún skotist með ógnarhraða upp í toppslaginn og er góður möguleiki á að hún nái að klifra aðeins hærra. Þessi mynd var tekin 19. september í haust og hefur verið skoðuð 858 sinnum á flickrinu… líklega ennþá oftar á facebook en við teljum það að sjálfsögðu ekki með.

4. sæti:

They're back
Í 4. sæti er þessi háhyrningamynd sem var tekin í bátsferð með Láka þann 28. mars 2011. Það hafa væntanlega einhverjir verið duglegir að deila henni enda mikið af áhugamönnum um háhyrninga þarna úti. Þessi mynd hefur verið skoðuð 870 sinnum.

3. sæti:

Dagatal slökkviliðsins 2012
Í 3. sætinu er þessi funheita sjálfsmynd sem prýddi nóvembermánuð á dagatali Slökkviliðsins árið 2012. Þessi mynd var tekin þann 23. nóvember 2011 í árlegri myndatöku slökkviliðsmanna hér í Grundarfirði. Hún hefur af einhverjum ástæðum sem ég kann ekki að skýra út, verið skoðuð 1301 sinni sem tyllir henni í þriðja sætið yfir mest skoðuðu myndirnar mínar á flickrinu.

2. sæti:

At Kirkjufell
Í 2. sæti er enn ein háhyrningamyndin sem sýnir háhyrning í góðum fókus með Kirkjufell og Bolla SH í bakgrunni í minni fókus. Þessi mynd er tekin þann 15. febrúar 2011 eins og fyrri háhyrningamyndirnar og hún fór eins og eldur um sinu á fésbókinni á sínum tíma. Hún hefur verið skoðuð 1327 sinnum og hefur verið ansi lengi í öðru sætinu.

1. sæti:

Honda Fireblade CBR 929
Í topp sætinu er svo þessi mynd af gamla mótorhjólinu mínu. Þessi mynd var tekin á mína fyrstu myndavél sem var Canon EOS 400d og var tekin þegar ég var að selja hjólið. Hún var tekin þann 29. maí 2007 og svo tók ég hana og breytti henni aðeins og vann hana betur í desember 2008 og það virðist hafa fallið í kramið hjá einhverjum því að þessi mynd er lang efst í mest skoðuðu myndunum og hefur alls verið skoðuð 2291 sinni og það þarf mikið að gerast til að þessi mynd falli af toppnum. Eitthvað virðast áhugamenn um mótorhjól vera hrifnir af henni því að henni hefur verið dreift víða sem skýrir að hluta þessar vinsældir.

Þessi topp tíu listi er í boði pepsi max og always ultra dömubindi sem eru stoltir styrktaraðilar.

Þangað til næst….

Myndavélablæti

Á góðri stund í Grundarfirði var um daginn… þar var mikið stuð, frábært veður, fullt af fólki, knattspyrnuleikur og heilmikil dagskrá. Þetta fór allt með afbrigðum vel fram og spilaði veðrið þar stóran hluta inní.
Grundarfjörður lagði topplið Víðis að mér fjarverandi en leikurinn fór 4-1 okkur í vil.

Benni og Iðunn voru hjá okkur og var það rosalega gaman. Mikið brallað þessa helgina. Kristján Freyr sýndi mikil danstilþrif á stóra sviðinu ásamt því að taka þátt í skemmtiatriði rauða hverfisins. Það tókst bara mjög vel hjá þeim og gátu þau gengið stolt af sviðinu.

Eftir helgina tók svo raunveruleikinn við því að þá átti enn eftir að klára allan virðisaukann.. Það tókst svo á mánudeginum eftir verslunarmannahelgina þannig að ekki var mikið flakkið á manni á þeirri mestu ferðahelgi ársins.

En á meðan á öllu þessu stóð var hugurinn farinn á flug varðandi myndavélapælingar. Málið er að mig hefur lengi langað í full frame vél enda aldrei brúkað slíkan grip. Vélarnar sem ég hef átt hafa allar verið 1.6 crop og svo ásinn sem ég á núna sem er 1.3 crop.
Ég nýtti því tækifærið þegar að ásinn bilaði örlítið. Það var ekki alvarleg bilun, aðeins einn takki sem hefur dottið af í öllum hamaganginum í myndatöku í Flatey um daginn. Málið er að snillingarnir í Beco þurftu nokkra daga til að laga vélina. Þetta gerðist allt á sama tíma skatturinn ákvað að láta mig hafa fullt af pening svona uppúr þurru. Ég lét því slag standa og splæsti í eina Canon EOS 5d Mark II notaða sem ég fann á netinu. Seldi Carl Zeiss 25mm f/2.8 upp í vélina og á núna tvær myndavélar. Ég ætla að halda í Canon EOS 1d Mark III vélina mína enn um sinn enda er það alveg frábær vél og mikill jálkur. Ég verð þá bara að bíta í það súra að eiga tvær vélar 😉

Að sjálfsögðu þurfti ég þá líka að kaupa mér nýjan bakpoka undir allt draslið… það lá bara í augum uppi.

Lowepro Vertex 200AW varð fyrir valinu enda frábær poki sem rúmar allan fjandann… Tvær myndavélar, fleiri fleiri linsur og 14 samlokur ef út í það er farið. Nú þarf maður bara að drullast í ketilbjöllur til að geta loftað draslinu.

Þangað til næst….