Vorið á næsta leiti

Jæja það er búið að vera ákveðin deyfð yfir þessari blessuðu síðu upp á síðkastið. Síðasti pistill var einhver áramótayfirferðarpistill frá því í byrjun janúar og nú er bara allt í einu kominn 16. apríl eins og ekkert sé sjálfsagðara. Ekki það að það hafi ekki nóg verið í gangi hérna í Grundarfirðinum en við skulum hlaupa yfir það helsta…

Þann 10. janúar fórum við fjölskyldan í bústað upp í Skorradal til að ná jóla og áramótastressinu úr okkur. Það var æðislega kósý enda einstaklega fallegur staður.

Í janúar varð ég svo þess heiðurs aðnjótandi að fá nokkrar myndir birtar í Daily mail frá eldgosinu í Holuhrauni. Að sjálfsögðu kom frétt um það í Skessuhorninu

Í febrúar tókum við verklegt slökkviliðspróf og fengum löggildingu sem slökkviliðsmenn eftir það.

Tommi

Og einnig var farið á 50 þorrablót hjónaklúbbsins.

tommiogruna

Svo fórum við í söfnun á Lucas 2 hjartahnoðtæki. Frétt af vef Skessuhorns.

lucas

Öskudagurinn var tekinn með trukki…

Mr. Simmons

ellen

Í mars var mikið myndað og enda mikið í gangi… Norðurljós og rok.

Grundarfjarðarhöfn

Frozen harbour

runa

Rúna mín var náttúrulega að massa það í blakinu þessi elska.

Svo kom náttúrulega kolvitlaust veður annað slagið en það versta var 14. mars.
The storm

Óveður í Grundarfirði 14. mars 2015 from Tomas Kristjansson on Vimeo.

Svo kom þessi brjálaða norðurljósasprengja þann 17. mars síðastaliðinn.

Aurora Borealis from Tomas Kristjansson on Vimeo.

Alveg magnað helvíti.

Svo var náttúrulega blessaði sólmyrkvinn.

Við Rúna og Kristján Freyr skelltum okkur á Harlem Globetrotters. Mikið fjör þar.

globetr

globetr2

Um páskana skruppum við svo norður. Skíðuðum á Akureyri í 2 daga og vorum í góðu yfirlæti hjá Svenna og Þórhildi. Fórum svo á Húsavík í eina nótt og svo 3 nætur í Bárðardalinn. Yndislegt alveg hreint.

hlidarfj

hlidarfj2

godafoss

aldey

Svo lét ég verða af því að fjárfesta í dróna enda með tækjalosta á háu stigi. Splæsti í Dji Phantom 2 vision+ kvikindi. Magnað tæki alveg hreint.

drone

Fyrsta flugið from Tomas Kristjansson on Vimeo.

Flug yfir smábátahöfninni from Tomas Kristjansson on Vimeo.

Svo skruppum við til Reykjavíkur um daginn og kíktum meðal annars á litla frænda minn sem er æðislega fallegur.

gustavsson

Ætli maður láti þetta ekki duga í bili enda vafalaust langt í næsta blogg…

Þangað til næst…

2014

Jæja þá er komið að árlegri áramótayfirferð yfir árið sem nú er nýliðið.

Janúar:

Svo virðist sem að maður hafi verið sultuslakur í janúarmánuði. Samkvæmt lauslegri yfirferð yfir myndasíður og samfélagsmiðla frá þessum tíma þá virðist maður hafa mest verið að pirra sig á gengi Man Utd og David Moyes. Tók þó nokkrar myndir að venju. Fór í hvalaskoðun og sitthvað fleira. Hún Rúna mín var komin með nóg af retro lookinu á baðherberginu og lá draumkennd yfir teikningum af nýjum kamri.

Bjarnarhafnarfjall

The swimmer

Whale watching

Febrúar:

Í febrúar byrjaði Rúna mín að vinna eftir sitt fæðingarorlof og við tók fæðingarorlof hjá mér… Það var ansi ljúft að vera með litla engilinn minn heima. Kristján Freyr fór á fótboltamót í Keflavík og stóð sig með mikilli prýði. Við byrjuðum að taka baðherbergið í gegn og fluttum inná pabba á meðan það var í gangi enda bara eitt baðherbergi í húsinu. Náði einhverjum myndum inní flickr explore sem mér þykir alltaf jafn gaman.

1622196_10152310869553993_302741837_n

Center of attention

Searching

Kolgrafafjörður

The shot

Mars:

Áfram héldu framkvæmdir á baðherberginu á Grundargötu 68. Ellen Alexandra skrapp í ungbarnasund í Stykkishólmi og enn fleiri myndir litu dagsins ljós. Tímabilið fór formlega af stað hjá Grundarfirði með þátttöku í lengjubikarnum undir handleiðslu hins ómótstæðilega Begga Sveins. Veðrið lék við okkur eins og sést á nokkrum myndum hérna fyrir neðan en það blés all hressilega nokkrum sinnum.

1891071_10152338026398993_1623979323_n

1959295_10152339136453993_1479488342_n

Minion

Rough weather

Birds

Apríl

Vor í lofti og mynd farin að koma á baðherbergið. Myndaði brúðkaup og fermingarbörn. Moyes rekinn frá Man Utd flestum til mikillar gleði og Giggsarinn tók við fram á vorið. Hún Rúna mín var í kosningastússi en við hin vorum bara farin að hlakka til sumarsins sem var á næsta leiti.

10171761_10152416224123993_8491127939344343403_n

Gone fishing

Waiting

Pink

Maí

Afmælismánuður Rúnu og Kristjáns. Vorið komið, strandveiðar, dagsbirta, æðislegur tími. Varð svo heppinn að fá að fljóta með séra Aðalsteini og Unnsteini út í Melrakkaey í eggjatöku. Það var æðislegt. Náði nokkrum frábærum fuglamyndum þar. Náði líka sagnameistaranum mikla honum Inga Hans í hrókasamræðum við Súlu nokkra í fjörunni. Man Utd náði sínum lélegasta árangri síðan elstu menn muna en þeir enduðu í 7 sæti.

Sagnameistarinn og súlan

Lundi

The harbour

Júní:

Þvílíkur mánuður… oooohhh maður lifandi. Fæðingarorlof og HM. Það bara gerist ekki betra. Þeir voru teljandi á fingrum annarar handar leikirnir sem ég missti af. Skruppum til Danmerkur í æðislega ferð ásamt Magga, Dagný og fjölskyldu. Vorum þar í góðu yfirlæti hjá Magga Sjonna, Arndísi, Ólöfu og Dúddu. Kristján Freyr fór á Blönduósmótið og skemmti sér konunglega. Frábær mánuður. Smá brúðkaupsmyndarí þegar ég myndaði brúðkaup Röggu og Marínós ásamt öðru sem á daga okkar dreif í mánuðinum.

10421150_10152591773966392_88087441427818849_n

Legoland

Kristján Freyr

Newlyweds

10372081_10152549832373993_8003540770734855393_n

10477882_10152549830433993_7855303610521336962_n

Júlí:

Þetta var líka frábær mánuður. Fórum hringinn í kringum landið ásamt því að skreppa upp á hálendið og snuðra þar aðeins. Lesa má um þetta allt í júlíblogginu. Skrapp með Ninna á Eistnaflug í þessu ferðalagi. Æðislegt alveg hreint. Ellen varð 1 árs í ferðalaginu… Í Réttartorfu til að vera nákvæmur. Á góðri stund var þarna einhversstaðar líka. Mikið fjör og mikið gaman.

10306637_10152626109333993_7965772826671053409_n

10429860_10152612233478993_8145488807414131107_n

Final resting place

Father and son

Top of the world

Ágúst:

Í ágúst var ég mikið að dunda mér við videoklippingar. Var með efni úr ferðalaginu og bjó til nokkur myndbönd. Allt að komast í fastar skorður. Fæðingarorlofið klárast. Skólinn að byrja og haustið nálgast. Eldgos byrjar á hálendinu. Skrapp upp á Kirkjufell með nokkrum meisturum. Ellen byrjaði í aðlögun í leikskólanum og gekk það svona líka glimrandi vel.

Gangan á Kirkjufell from Tomas Kristjansson on Vimeo.

Embracing the sunset

Grundarfjörður

September:

Þessi mánuður var frábær. Dagana 3. og 4. september fórum við Summi upp í Holuhraun og mynduðum eldgosið í bak og fyrir. Með því magnaðara sem ég hef upplifað. Geðveikt alveg hreint. Við gistum í Klapparhúsi í 2 nætur og keyrðum upp á hálendið á milli. Þetta var mikið ævintýri. Fór á rokkjötna með frábæru fólki. Myndaði yndislegt brúðkaup Ragnars og Guðrúnar. Lífið að komast í fastar skorður hjá Rúnu, Kristjáni og Ellen og regla komin á hlutina.

Holuhraun panorama

Eldgos í Holuhrauni from Tomas Kristjansson on Vimeo.

Eldgos í Holuhrauni Timelapse from Tomas Kristjansson on Vimeo.

Summi

Hot lava

Ragnar Smári og Guðrún Hrönn

Október:

Október var flottur mánuður. Allt í föstum skorðum. Ellen í leikskólanum, Kristján í skólanum og við Rúna í vinnunni. Smá norðurljósamyndarí ásamt fleiru. Kristján fór á Keflavíkurmótið og stóð sig vel þar eins og á öðrum knattspyrnumótum.

Kirkjufell

10421577_10152869026428993_3871211289129194682_n

Nóvember:

Það er alltaf sama sagan þennan mánuðinn að hann byrjar alltaf á að ég verð árinu eldri. En það er víst bara gangur lífsins. Ég þurfti að hafa Rúnu í handbremsu allan þennan mánuð svo að hún myndi ekki henda jólaskrautinu upp fyrir afmælið mitt. Náði að hemja hana til rétt rúmlega 20. nóv. Nýtti tímann í smá myndatökur eins og gengur og gerist.

Calm harbour

Ellen

Kirkjufell

Norðurljósin from Tomas Kristjansson on Vimeo.

Grundarfjörður

Aurora explosion

Desember:

Þá er það hinn nýliðni desember en það markverðasta sem gerðist í honum er að ég uppfærði myndavélina mína. Splæsti í Canon EOS 5D Mark III og þvílík græja maður lifandi. Náði að festa bílinn helvíti hressilega þannig að Klakkur björgunarsveit þurfti að kippa mér upp. Við í slökkviliðinu gáfum út dagatal eins og venjulega. Fór með 3 snillingum til Manchester þar sem við sáum Man Utd rúlla yfir Liverpool 3-0. Það var alveg frábær ferð. Rúna mín fór til Boston sömu helgi og ég var í Manchester og krakkarnir því hjá tengdó á meðan. Áttum yndisleg jól í miklu sukki og svínarí (matarlega séð). Við höfðum það eiginlega allt of gott.

1723168_10152987210503993_5749433095001603847_n

10407497_10153006325303993_135563553022429620_n

10676276_10153000117968993_1309479128748306000_n

10858356_10152979302483993_6165224590917843972_n

10858425_10152980671158993_1217432543946629986_n

Aurora selfie

Þá er það bara spurning hvað 2015 ber í skauti sér en það mun koma í ljós.

Gleðilegt nýtt ár allir saman.

Þangað til næst….

Saddur

Jæja jólin eru búin að fara vel með mann. Hver steikin á fætur annari sem rennur niður kokið í bland við konfektmola og jólaöl. Ég er eiginlega búinn að gleyma því hvernig það er að vera svangur á þessum síðustu og verstu tímum. Maður fer saddur að sofa og vaknar saddur hvernig sem stendur á því. Ætli maður sé farinn að éta í svefni líka? Það er spurning.

Rétt fyrir jólin lét ég verða að því að fjárfesta í annari myndavél. Skipti Canon 5d mark II upp í notaða Canon 5d mark III vél og borgaði slatta á milli. Þetta er mikið skref enda mark III vélin vangefið flott… er enn að spuglera í fókuskerfinu á henni.

Aurora selfie

Hendi í eitt stk áramótaannál við fyrsta tækifæri.

Þangað til næst…

Topp tíu

Til gamans ætla ég að birta hérna topp tíu myndirnar mínar á flickrinu. Það eru myndirnar sem eru mest skoðaðar á flickr myndasíðunni minni. Þetta hefur ekkert með gæði myndanna heldur eingöngu hvaða myndir eru vinsælastar frá því að ég byrjaði með þessa síðu.

10. sæti:

Uggi
Í 10. sæti er þessi mynd af háhyrningsugga í forgrunni með Grundarfjörð í baksýn. Þessi mynd var tekin þann 15. febrúar 2011 þegar að hvalirnir komust í hámæli hérna í firðinum. Hún hefur verið skoðuð 587 sinnum.

9. sæti:

Grundarfjarðarkirkja
Í 9. sæti er þessi mynd af Grundarfjarðarkirkju sem var tekin þann 9. desember 2011. Falleg og friðsæl mynd sem hefur verið skoðuð 595 sinnum.

8. sæti:

Kirkjufell
Í 8. sæti er þessi Kirkjufellsmynd með háhyrning í forgrunni sem er tekin í sömu bátsferð og myndin í 10 sæti eða þann 15. febrúar 2011. Hún hefur verið skoðuð 622 sinnum.

7. sæti:

Hey there
Í 7. sæti er önnur háhyrningamynd úr sömu bátsferðinni 15. febrúar 2011. Þarna má sjá nokkur dýr spóka sig fyrir framan Grundarfjarðarbæ. Þessi mynd hefur verið skoðuð 711 sinnum.

6. sæti:

Goðafoss
Í 6. sæti er þessi fallega panoramamynd af Goðafossi sem ég persónulega er mjög montinn af. Þessi mynd var tekin 8. júlí 2012 á meðan við fjölskyldan vorum á ferðalagi. Þessi mynd hefur verið skoðuð 717 sinnum.

Og þá erum við komin í topp 5 af vinsælustu myndunum á flickrinu.

5. sæti:

Kirkjufell Aurora Borealis
Í 5. sæti er þessi fallega mynd af Kirkjufellinu böðuðu í norðurljósum. Þetta er jafnfram sú mynd sem er með flestu commentin og líka yngsta myndin sem er í topp 10 myndunum enda hefur hún skotist með ógnarhraða upp í toppslaginn og er góður möguleiki á að hún nái að klifra aðeins hærra. Þessi mynd var tekin 19. september í haust og hefur verið skoðuð 858 sinnum á flickrinu… líklega ennþá oftar á facebook en við teljum það að sjálfsögðu ekki með.

4. sæti:

They're back
Í 4. sæti er þessi háhyrningamynd sem var tekin í bátsferð með Láka þann 28. mars 2011. Það hafa væntanlega einhverjir verið duglegir að deila henni enda mikið af áhugamönnum um háhyrninga þarna úti. Þessi mynd hefur verið skoðuð 870 sinnum.

3. sæti:

Dagatal slökkviliðsins 2012
Í 3. sætinu er þessi funheita sjálfsmynd sem prýddi nóvembermánuð á dagatali Slökkviliðsins árið 2012. Þessi mynd var tekin þann 23. nóvember 2011 í árlegri myndatöku slökkviliðsmanna hér í Grundarfirði. Hún hefur af einhverjum ástæðum sem ég kann ekki að skýra út, verið skoðuð 1301 sinni sem tyllir henni í þriðja sætið yfir mest skoðuðu myndirnar mínar á flickrinu.

2. sæti:

At Kirkjufell
Í 2. sæti er enn ein háhyrningamyndin sem sýnir háhyrning í góðum fókus með Kirkjufell og Bolla SH í bakgrunni í minni fókus. Þessi mynd er tekin þann 15. febrúar 2011 eins og fyrri háhyrningamyndirnar og hún fór eins og eldur um sinu á fésbókinni á sínum tíma. Hún hefur verið skoðuð 1327 sinnum og hefur verið ansi lengi í öðru sætinu.

1. sæti:

Honda Fireblade CBR 929
Í topp sætinu er svo þessi mynd af gamla mótorhjólinu mínu. Þessi mynd var tekin á mína fyrstu myndavél sem var Canon EOS 400d og var tekin þegar ég var að selja hjólið. Hún var tekin þann 29. maí 2007 og svo tók ég hana og breytti henni aðeins og vann hana betur í desember 2008 og það virðist hafa fallið í kramið hjá einhverjum því að þessi mynd er lang efst í mest skoðuðu myndunum og hefur alls verið skoðuð 2291 sinni og það þarf mikið að gerast til að þessi mynd falli af toppnum. Eitthvað virðast áhugamenn um mótorhjól vera hrifnir af henni því að henni hefur verið dreift víða sem skýrir að hluta þessar vinsældir.

Þessi topp tíu listi er í boði pepsi max og always ultra dömubindi sem eru stoltir styrktaraðilar.

Þangað til næst….

Myndavélablæti

Á góðri stund í Grundarfirði var um daginn… þar var mikið stuð, frábært veður, fullt af fólki, knattspyrnuleikur og heilmikil dagskrá. Þetta fór allt með afbrigðum vel fram og spilaði veðrið þar stóran hluta inní.
Grundarfjörður lagði topplið Víðis að mér fjarverandi en leikurinn fór 4-1 okkur í vil.

Benni og Iðunn voru hjá okkur og var það rosalega gaman. Mikið brallað þessa helgina. Kristján Freyr sýndi mikil danstilþrif á stóra sviðinu ásamt því að taka þátt í skemmtiatriði rauða hverfisins. Það tókst bara mjög vel hjá þeim og gátu þau gengið stolt af sviðinu.

Eftir helgina tók svo raunveruleikinn við því að þá átti enn eftir að klára allan virðisaukann.. Það tókst svo á mánudeginum eftir verslunarmannahelgina þannig að ekki var mikið flakkið á manni á þeirri mestu ferðahelgi ársins.

En á meðan á öllu þessu stóð var hugurinn farinn á flug varðandi myndavélapælingar. Málið er að mig hefur lengi langað í full frame vél enda aldrei brúkað slíkan grip. Vélarnar sem ég hef átt hafa allar verið 1.6 crop og svo ásinn sem ég á núna sem er 1.3 crop.
Ég nýtti því tækifærið þegar að ásinn bilaði örlítið. Það var ekki alvarleg bilun, aðeins einn takki sem hefur dottið af í öllum hamaganginum í myndatöku í Flatey um daginn. Málið er að snillingarnir í Beco þurftu nokkra daga til að laga vélina. Þetta gerðist allt á sama tíma skatturinn ákvað að láta mig hafa fullt af pening svona uppúr þurru. Ég lét því slag standa og splæsti í eina Canon EOS 5d Mark II notaða sem ég fann á netinu. Seldi Carl Zeiss 25mm f/2.8 upp í vélina og á núna tvær myndavélar. Ég ætla að halda í Canon EOS 1d Mark III vélina mína enn um sinn enda er það alveg frábær vél og mikill jálkur. Ég verð þá bara að bíta í það súra að eiga tvær vélar 😉

Að sjálfsögðu þurfti ég þá líka að kaupa mér nýjan bakpoka undir allt draslið… það lá bara í augum uppi.

Lowepro Vertex 200AW varð fyrir valinu enda frábær poki sem rúmar allan fjandann… Tvær myndavélar, fleiri fleiri linsur og 14 samlokur ef út í það er farið. Nú þarf maður bara að drullast í ketilbjöllur til að geta loftað draslinu.

Þangað til næst….