Jæja þá er komið að árlegri áramótayfirferð yfir árið sem nú er nýliðið.
Janúar:
Svo virðist sem að maður hafi verið sultuslakur í janúarmánuði. Samkvæmt lauslegri yfirferð yfir myndasíður og samfélagsmiðla frá þessum tíma þá virðist maður hafa mest verið að pirra sig á gengi Man Utd og David Moyes. Tók þó nokkrar myndir að venju. Fór í hvalaskoðun og sitthvað fleira. Hún Rúna mín var komin með nóg af retro lookinu á baðherberginu og lá draumkennd yfir teikningum af nýjum kamri.
Febrúar:
Í febrúar byrjaði Rúna mín að vinna eftir sitt fæðingarorlof og við tók fæðingarorlof hjá mér… Það var ansi ljúft að vera með litla engilinn minn heima. Kristján Freyr fór á fótboltamót í Keflavík og stóð sig með mikilli prýði. Við byrjuðum að taka baðherbergið í gegn og fluttum inná pabba á meðan það var í gangi enda bara eitt baðherbergi í húsinu. Náði einhverjum myndum inní flickr explore sem mér þykir alltaf jafn gaman.
Mars:
Áfram héldu framkvæmdir á baðherberginu á Grundargötu 68. Ellen Alexandra skrapp í ungbarnasund í Stykkishólmi og enn fleiri myndir litu dagsins ljós. Tímabilið fór formlega af stað hjá Grundarfirði með þátttöku í lengjubikarnum undir handleiðslu hins ómótstæðilega Begga Sveins. Veðrið lék við okkur eins og sést á nokkrum myndum hérna fyrir neðan en það blés all hressilega nokkrum sinnum.
Apríl
Vor í lofti og mynd farin að koma á baðherbergið. Myndaði brúðkaup og fermingarbörn. Moyes rekinn frá Man Utd flestum til mikillar gleði og Giggsarinn tók við fram á vorið. Hún Rúna mín var í kosningastússi en við hin vorum bara farin að hlakka til sumarsins sem var á næsta leiti.
Maí
Afmælismánuður Rúnu og Kristjáns. Vorið komið, strandveiðar, dagsbirta, æðislegur tími. Varð svo heppinn að fá að fljóta með séra Aðalsteini og Unnsteini út í Melrakkaey í eggjatöku. Það var æðislegt. Náði nokkrum frábærum fuglamyndum þar. Náði líka sagnameistaranum mikla honum Inga Hans í hrókasamræðum við Súlu nokkra í fjörunni. Man Utd náði sínum lélegasta árangri síðan elstu menn muna en þeir enduðu í 7 sæti.
Júní:
Þvílíkur mánuður… oooohhh maður lifandi. Fæðingarorlof og HM. Það bara gerist ekki betra. Þeir voru teljandi á fingrum annarar handar leikirnir sem ég missti af. Skruppum til Danmerkur í æðislega ferð ásamt Magga, Dagný og fjölskyldu. Vorum þar í góðu yfirlæti hjá Magga Sjonna, Arndísi, Ólöfu og Dúddu. Kristján Freyr fór á Blönduósmótið og skemmti sér konunglega. Frábær mánuður. Smá brúðkaupsmyndarí þegar ég myndaði brúðkaup Röggu og Marínós ásamt öðru sem á daga okkar dreif í mánuðinum.
Júlí:
Þetta var líka frábær mánuður. Fórum hringinn í kringum landið ásamt því að skreppa upp á hálendið og snuðra þar aðeins. Lesa má um þetta allt í júlíblogginu. Skrapp með Ninna á Eistnaflug í þessu ferðalagi. Æðislegt alveg hreint. Ellen varð 1 árs í ferðalaginu… Í Réttartorfu til að vera nákvæmur. Á góðri stund var þarna einhversstaðar líka. Mikið fjör og mikið gaman.
Ágúst:
Í ágúst var ég mikið að dunda mér við videoklippingar. Var með efni úr ferðalaginu og bjó til nokkur myndbönd. Allt að komast í fastar skorður. Fæðingarorlofið klárast. Skólinn að byrja og haustið nálgast. Eldgos byrjar á hálendinu. Skrapp upp á Kirkjufell með nokkrum meisturum. Ellen byrjaði í aðlögun í leikskólanum og gekk það svona líka glimrandi vel.
Gangan á Kirkjufell from Tomas Kristjansson on Vimeo.
September:
Þessi mánuður var frábær. Dagana 3. og 4. september fórum við Summi upp í Holuhraun og mynduðum eldgosið í bak og fyrir. Með því magnaðara sem ég hef upplifað. Geðveikt alveg hreint. Við gistum í Klapparhúsi í 2 nætur og keyrðum upp á hálendið á milli. Þetta var mikið ævintýri. Fór á rokkjötna með frábæru fólki. Myndaði yndislegt brúðkaup Ragnars og Guðrúnar. Lífið að komast í fastar skorður hjá Rúnu, Kristjáni og Ellen og regla komin á hlutina.
Eldgos í Holuhrauni from Tomas Kristjansson on Vimeo.
Eldgos í Holuhrauni Timelapse from Tomas Kristjansson on Vimeo.
Október:
Október var flottur mánuður. Allt í föstum skorðum. Ellen í leikskólanum, Kristján í skólanum og við Rúna í vinnunni. Smá norðurljósamyndarí ásamt fleiru. Kristján fór á Keflavíkurmótið og stóð sig vel þar eins og á öðrum knattspyrnumótum.
Nóvember:
Það er alltaf sama sagan þennan mánuðinn að hann byrjar alltaf á að ég verð árinu eldri. En það er víst bara gangur lífsins. Ég þurfti að hafa Rúnu í handbremsu allan þennan mánuð svo að hún myndi ekki henda jólaskrautinu upp fyrir afmælið mitt. Náði að hemja hana til rétt rúmlega 20. nóv. Nýtti tímann í smá myndatökur eins og gengur og gerist.
Norðurljósin from Tomas Kristjansson on Vimeo.
Desember:
Þá er það hinn nýliðni desember en það markverðasta sem gerðist í honum er að ég uppfærði myndavélina mína. Splæsti í Canon EOS 5D Mark III og þvílík græja maður lifandi. Náði að festa bílinn helvíti hressilega þannig að Klakkur björgunarsveit þurfti að kippa mér upp. Við í slökkviliðinu gáfum út dagatal eins og venjulega. Fór með 3 snillingum til Manchester þar sem við sáum Man Utd rúlla yfir Liverpool 3-0. Það var alveg frábær ferð. Rúna mín fór til Boston sömu helgi og ég var í Manchester og krakkarnir því hjá tengdó á meðan. Áttum yndisleg jól í miklu sukki og svínarí (matarlega séð). Við höfðum það eiginlega allt of gott.
Þá er það bara spurning hvað 2015 ber í skauti sér en það mun koma í ljós.
Gleðilegt nýtt ár allir saman.
Þangað til næst….
Gleðilegt nýtt ár – Alltaf jafn gaman að lesa yfirferðina þína 🙂