Dagatal slökkviliðsins 2012

Nú fer að líða að útgáfu dagatals Slökkviliðs Grundarfjarðar… Allur ágóði af dagatalinu rennur í tækjakaup fyrir slökkviliðið og er stefnan að kaupa eiturefnagalla fyrir liðið.

Við hvetjum alla til að kaupa þetta frábæra dagatal og styrkja með því gott málefni… Verðið verður það sama og í fyrra eða aðeins 2500 kr.

Þangað til næst….

Veikindi

Veikur

Nóvemberbyrjun var frekar erfið fyrir mig… Málið var að eftir að við komum heim frá Svíaríki þá var maður með einhvern djöfulsins kvefskít allan október mánuð. Ég spáði nú svosem lítið í það en var samt drullu slappur. Svo var maður farinn að hressast af kvefinu og við förum í bústaðinn í Biskupstungunum og kallinn var alveg stál sleginn. Svo á mánudeginum mætir maður í vinnuna en er svona hálf aumingjalegur. Fer heim aðeins fyrr og þegar þangað var komið þá byrjar manni bara að vera ískalt, skelf eins og hrísla og sé mér þann kost vænstan að skríða ofan í heitt baðkarið. Þegar það var búið þá fór maður bara undir teppi og fyrir framan sjónvarpið. Mældi mig og viti menn, kominn með 39,4 stiga hita. GREAT.

Ligg í einhverju hitamóki í 2 daga eða þangað til á afmælisdaginn minn, miðvikudaginn 2 nóv. Þá er farið að surga ansi furðulega þegar ég anda og ég þori ekki annað en að fara til læknis. Saltkjöt og baunir túkall, greindur með lungnabólgu í vinstra lunga. Settur á lyf og rekinn heim. Svo á föstudeginum er ég ennþá þræl slæmur og finnst lyfin ekkert vera að virka. Fer aftur til læknis. Júbb, lungnabólgan búin að aukast og ég var sendur upp á Akranes í myndatöku. Þar var það staðfest að stór hluti af vinstra lunganu var sýkt og hluti af hægra lunganu. Súrefnismettunin stóð í 86% sem er frekar slæmt fyrir þá sem ekki vita. Ég fékk sýklalyf í æð og fékk að væla mig heim samdægurs með nýjan lyfjaskammt. Helgin leið í móki en þessi lyf voru samt að virka. Var á 2 gerðum af sýklalyfjum nota bene. Var orðinn nokkuð brattur á þriðjudeginum eftir og farinn að metta 99% eins og eðlilegt getur talist. Sýkingin á undanhaldi og allt í gúddí. Nú 15 dögum síðar er ég enn á sýklalyfjum og enn með smá hósta en samt miklu brattari. Farinn að vinna og reyni að láta hið daglega líf ganga sinn vanagang. Reyndar má ég ekki fara í bjöllur eða fótbolta fyrr en eftir c.a. 4 vikur. Sem er frekar skítt.

Ég verð nú bara að segja að ég hef aldrei á ævinni verið svona rosalega mikið veikur. Þetta er alveg splunkunýtt í reynslubankann.

Þangað til næst….

Ferðalag um Suðurland




Happy

Originally uploaded by Tómas Freyr

Við Rúna og Kristján Freyr skelltum okkur í smá haustferðalag um liðna helgi. Við vorum í Bústað í Biskupstungum frá miðvikudeginum 26 okt. til sunnudagsins 30 okt. Það var mega næs. Á fimmtudeginum kíktum við á Gullfoss og Geysi ásam því að rúlla að Brúarhlöð og Hjálparfossi… Á föstudeginum var skutlast lengra suður og enduðum við rúntinn í Reynisfjöru því að Kristján vildi endilega fara og klifra í steinunum sem að strákurinn gerir í myndbandinu með Bon Iver – Holocene.

Þetta fannst honum alveg magnað. Næstum því jafn magnað og að fara á bakvið Seljalandsfoss.

Laugardagurinn var tekinn í chill á svæðinu og sunnudagurinn fór í að borða á humar á Stokkseyri og halda svo heim.

Mjög mikið fjör.

Þangað til næst….

Svíþjóð




Bicycle race

Originally uploaded by Tómas Freyr

Það var fjölskylduferð til Svíþjóðar núna í október… Ég og Rúna, Ninni og Dagmar, Gústi og Diljá og svo loksins dólgurinn í fjölskyldunni hún Hanna. Við fórum út 6. okt. og komum heim 10. okt. Þetta var rosalega gaman. Fyrir utan að sumir versluðu yfir sig þá borðuðum við á Michelin stað sem heitir F12 og það var rosalega skemmtileg upplifun, ég hef t.d. aldrei snætt á svona fínum stað áður. Þá getur maður amk strokað það af bucket listanum.

Við gistum á hosteli sem var á gamle stan rétt hjá konungshöllinni. Ótrúlega fallegt að vera þarna á Gamle Stan. Þröngar götur og maður hálfpartinn hverfur aftur til fortíðar að vera að spóka sig þarna um.

Ég mæli með Stokkhólmi þó svo að verðlagið sé bara svipað og á Íslandi. Flott borg. Við skruppum líka á Vasa safnið og það var geðveikt. Maður rölti þarna hring eftir hring í kringum risastórt tréskip sönglandi pirates þema lagið… mögnuð stemming.
Svo skoðuðum við líka konungshöllina. Það var flott og allt það en ekki alveg jafn kúl og þegar maður skoðar Windsor kastalann í bretaríki. En samt flott engu að síður.

Í alla staði var þetta bara hin fínasta ferð. Ég sigraði ljótudansakeppnina með yfirburðum þarna eitt kvöldið. Það nær líklega enginn að toppa það. Hægt er að finna þau tilþrif á fésbókinni einhversstaðar.

Þangað til næst….

Umhverfis Ísland á 5 dögum.




At Jökulsárlón

Originally uploaded by Tómas Freyr

Með viðkomu á ótal gríðarlega fallegum stöðum…. Við búum í svakalega fallegu landi og megum vera stolt af.

Það hittist þannig á í sumar að Rúna var í sumarfríi þegar það var brjálað að gera hjá mér. Svo þegar ég fór í frí þá fór Rúna að vinna. Það var því lítið annað í stöðunni en að skutla sér bara einn í ferðalag. Ég var búinn að blunda með þessa hugmynd í maganum í þónokkurn tíma. Tilhugsunin um að vera aleinn í ferðalagi vopnaður myndavél var nokkuð spennandi en jafnframt nokkuð fráhrindandi líka. Ég hafði t.d. aldrei farið aleinn í nokkura daga ferðalag áður. Alltaf haft fjölskyldu eða vini með. En þetta var öðruvísi… þetta var ljósmyndaferð fyrst og fremst. Ef ég hefði haft ferðafélaga með mér þá hugsa ég að þeir hefðu verið búnir að gefast upp á mér fyrir löngu. Líklega ekki mikil þolinmæði við að bíða á meðan ég eyði c.a. 20 mínútum bara í það að spá og spuglera, stilla upp, skrúfa filtera á, skipti um linsu o.s.fr. og það fyrir eina mynd… ég tók by the way 1197 myndir í þessari ferð.

En ég lét verða af þessu. Fór á suðurland, Landmannalaugar, var tvær nætur hjá Evu frænku á meðan ég skoðaði og myndaði Suðurlandið.
Fór svo austur… Fjaðrárgljúfur, Jökulsárlón, gisti nálægt lóninu á Hrolllaugsstöðum minnir mig að staðurinn heitir.

Ákvað um morguninn þegar ég vaknaði að taka bara hringinn í staðinn fyrir að fara sömu leið til baka. Skellti mér upp að Kárahnjúkum… renndi mér svo einhverja fjallaleið niður í Jökuldal, tók Dettifoss beggja megin við hann, Goðafoss og fór svo á Akureyri og gisti þar hjá Ninna og Dagmar.

Daginn eftir var heimferðardagur með viðkomu við Hvítserk og á Illugastöðum á Vatnsnesi. Svo var rennt heim, sest við tölvuna og myndirnar unnar í rólegheitunum næstu daga á eftir.

Ég er heilt yfir mjög sáttur með þessa ferð mína og gæti alveg hugsað mér að fara aftur í svona, en væri samt til í að hafa fjölskylduna með… eða aðra ljósmyndara í sömu pælingum.

Þangað til næst….

Mynd 2




Landmannalaugar

Originally uploaded by Tómas Freyr

Næsti stoppistaður var Landmannalaugar. Þarna var ég búinn að keyra allan daginn og ég var kominn í Landmannalaugar um kvöldmatarleytið. Fékk mér smá nesti og labbaði svo um. Var þarna í gríðarlega fallegu veðri og á meðan sólin var að setjast. Landmannalaugar eru klárlega einn af fegurstu stöðum landsins. Þvílíkur staður…