Linsunörd?

Síðasta laugardag skrapp ég í smá ljósmyndaferð ásamt fríðu föruneyti. Ferðinni var heitið úr Stykkishólmi inn í Álftafjörð þar sem aðeins var stoppað.

Álftafjörður
Álftafjörður

Eftir Álftafjörðinn var kíkt á skipsflakið sem liggur í fjörunni á Skógarströndinni. Ég veit ekki hversu oft maður hefur keyrt fram hjá þessu flaki og alltaf langað til að kíkja en aldrei látið verða af því. En nú varð breyting á því að Summi lullaðist þarna niðureftir á Land Cruisernum og kom okkur í færi við ryðhauginn í fjörunni.

Skógarströnd
Svarthvítt

Resting
Flakið

Svo fiktaði maður aðeins í macro myndatökum enda lítið gert af því.

Þari
Þari

Þegar við höfðum myndað flakið í gríð og erg og séð nokkrar gæsir og annað fuglalíf var haldið áfram. Næsta stopp var Breiðabólsstaður og við kíktum aðeins á kirkjuna þar.

Breiðabólsstaður
Breiðabólsstaður

Kirkjan
Kirkjan

Á Breiðabólsstað snæddum við svo nestið okkar í frábæru veðri.

Eftir nestisinntökuna var haldið áfram og næst var stoppað við Oddastaðavatn og svo við Syðri Rauðamel. Þar voru linsurnar mundaðar aftur í gríð og erg.

Hafursfell
Útsýnið

Hinn íslenski mosi
Mosi

Næst var svo stoppað við Fjósatjörn í Kolbeinsstaðahreppi þar sem álftirnar voru í tilhugalífi og ástleitnar mjög. Þar iðaði allt af fuglalífi.

Ástin
Bónorð?

Eftir Fjósatjörn var haldið að Landbrotalaug sem er svona heitur drullupollur eins og Rúna elskar að baða sig í… skil ekki af hverju.

Warm
Heitt vatn við Landbrotalaug

Kolbeinsstaðahreppur
Við Landbrotalaug

Summi
Summi grandskoðar landslagið

Eftir Landbrotalaugina var haldið áfram niðureftir afleggjarann og alla leið niður að Stóra Hrauni. Mjög fallegt þar um að litast og frábært útsýni út nesið.

Svo var farið og kíkt á Gerðuberg og Rauðamelskirkju þar sem sr Hreinn fermdi mig einhverntímann á síðustu öld.

Gerðuberg
Gerðuberg á móti sólinni

Gerðuberg
Gerðuberg

Þetta var þræl skemmtilegt og frábært veður. Í restina sjáum við myndir af ferðafélögunum.

Canon EOS 1d Mark III
Steini

Reflection
Summi

Svo eru fleiri myndir á fésinu og flickrinu

Þangað til næst…

Páskafrí 2012

Eftir gríðarlega mikla vinnutörn var loksins komið að langþráðu páskafríi. Stefnan var sett norður og planið að leggja eigi síðar af stað en kl 12 á hádegi sunnudaginn 1. apríl. Það dróst að sjálfsögðu og við dröttuðumst yfir rúlluhliðið þegar klukkan var rúmlega fimm. En þetta hófst allt að lokum og mikil gleði og tilhlökkun þegar við ruddumst yfir þröskuldinn hjá Ninna og Dagmar í Stapasíðunni. Á mánudeginum var stefnan sett upp í Hlíðarfjall í blíðskaparveðri. Heiðskírt og frost og ákjósanlegar aðstæður til skíða og brettaiðkunar. Svona var þetta líka á þriðjudeginum í fjallinu og yndislegt að renna sér.

Á kvöldin gerðum við ýmislegt til dundurs. Fórum á Greifann, bíó að sjá Svartur á leik, fórum einnig í leikhús og sáum Gulleyjuna. Mikil skemmtum og Kristján var himinlifandi með Björn Jörund og félaga.

Á miðvikudeginum var bara slappað af í sundi og búðarrápi og almennu chilli.

Á fimmtudeginu var farið á skauta þar sem allir stóðu sig með prýði nema undirritaður sem gafst upp eftir 20 mínútur vegna verkja í ökkla. Aumingjaskapur.

Á fimmtudagskvöldinu var okkur boðið í dýrindis hreindýrasteik hjá Þórhildi og Sveini. Það var hreinn unaður að láta þessa höfðingja stjana við sig. Eftir að hafa kýlt út vömbina hjá þeim var haldið í Bárðardalinn í afslöppun. Komum rétt eftir miðnættið í Klapparhús og fórum í háttinn þegar við vorum búin að koma okkur fyrir. Á föstudaginn langa var fínasta veður og fórum við í göngutúr og elduðum okkur svo kjúlla. Á laugardeginum var farið upp að Kálfborgarárvatni og dorgað í gegnum ís með Tóta og Systu. Ég hafði aldrei reynt það áður og var þetta fínasta skemmtun fyrir utan að aflinn lét eitthvað standa á sér. Heildar afli dagsins var akkúrat 0 fiskar. En fínustu torfærur og skemmtun. Eftir dorgið renndi ég mér svo á fjórhjólinu út í Aldey í smá myndaleiðangur. Svo fórum við Kristján í fjórhjólaferð honum til mikillar skemmtunar.

Á páskasunnudag þegar að Kristján var búinn að finna páskaeggið sitt fórum við í páskalamb á Húsavík til ömmu Gunnu og afa Adda. Vorum þar í nokkra tíma áður en við héldum heim á leið endurnærð á líkama og sál.

Þangað til næst….

Nikon

Ég braut odd af oflæti mínu og er nú kominn með Nikon tæki á mitt heimili… þetta er hluti af myndavéla og útivistardótinu mínu og græjan er þessi:
Nikon

Já ég er búinn að fjárfesta í forláta kíki… hlutur sem í minningunni var sjálfsagður hlutur á hverju heimili… kannski var það af því að maður ólst svo mikið upp í sveit, ég veit það ekki en sjálfur hef ég aldrei átt almennilegan kíki áður. Og þessi er sko ekkert slor skal ég segja ykkur. Nú verður kíkt um allar trissur.

Þó svo að ég hafi keypt Nikon kíki þýðir það ekki að ég sé búinn að gefa Canon uppá bátinn… Málið er bara að þegar ég fór að skoða Canon sjónauka þá hefði ég líklega þurft að selja bílinn til að hafa efni á því… Þessi var á aðeins viðráðanlegra verði.

Þangað til næst….

ipad disabled

Ég er líklega einn mesti sauður sem sögur fara af þegar sá gállinn er á mér.

Um helgina brugðum við undir okkur betri fætinum, spúsan og ég, og héldum suður á bóginn. Réttara sagt til höfuðborgar Íslands, Reykjavíkur. Við tókum Kristján með og þegar hann er með þá tökum við ipad með líka, aðallega svo hann geti dundað sér í angry birds á leiðinni. Nóg um það. Ástæða ferðarinnar var fyrst og fremst árshátíð VÍS sem var á laugardagskvöldinu. Við gistum á Grand Hótel þessa helgi.
Við tékkum okkur inn á föstudeginum og förum svo að horfa á UMFG kvk keppa í blaki á móti Aftureldingu. Tap þar en ágætis sprettir inn á milli.
En þetta er ekki blak pistill ef einhver skyldi vera að pæla í því.

Við gistum þarna um nóttina á Grand Hótel, ég, Rúna og Kristján Freyr. Þegar ég vakna um morguninn hálf sloj þá gríp ég ipadinn góða og kíki aðeins á netið… Fer svo að fikta eitthvað í stillingunum og ákveð þarna að setja passcode á ipadinn… Þetta var löngu ákveðið að við Kristján Freyr myndum setja passcode á ipadinn og var það meira að segja komið svo langt að búið var að velja fjögurra stafa númer sem við báðir ættum auðvelt með að muna. Ég semsagt er þarna að fikta í einhverjum stillingum og eins og flestir vita þá er þetta apple, ipad, ipod og iphone dótarí frekar svona imbahelt júnit. Á ekki að vera hægt að klúðra þessu beisíklí.
Ég semsagt set þessa fyrirfram ákveðnu tölu inn og svo á maður að setja hana aftur inn til öryggis svo að ekki sé hægt að ruglast á þessu. Þetta virkaði allt mjög fínt og ég legg ipadinn frá mér í bili. Svo líður og bíður og við förum niður í morgunmat. Þegar minn maður (Kristján Freyr) er búinn að borða vill hann fara í ipadinn góða. Ég hélt það nú og ríf paddann upp rogginn á svip, opna kvikindið og stimpla inn þessa fyrirfram ákveðnu tölu að ég hélt… Roggni svipurinn breyttist fljótlega í vandræðalegan roðn svip þegar ég uppgvötva mér til skelfingar að fyrirfram ákveðna númerarunan virkaði ekki. Ég reyni þarna þrisvar eða fjórum sinnum í röð en ramba ekki á rétta runu. Þegar þarna er komið við sögu biður ipaddinn mig vinsamlegast um að bíða í eina mínútu þangað til að ég reyni aftur að stimpla inn töluna. Í þessa einu mínútu sit ég þungt hugsi og hugsa hvaða andskotans tölu ég sett inn þarna um morguninn því að það var augljóslega ekki þessi fyrirfram ákveðna tala. Þegar mínútan er liðin reyni ég einusinni enn og stimpla inn tölu sem mér fannst líkleg en árangurinn var ekki eftir því. Nú biður ipaddinn mig vinsamlegast um að bíða í 6 mínútur. Svo í 15 mínútur og svo í 60 mínútur.

Þegar þarna var komið við sögu var ég orðinn frekar pirraður á þessari heimsku minni. Ég meina hver setur inn tölu, tvisvar og veit ekki hvaða tölu hann setti inn… tvisvar. Frekar grillað. Þegar ég var búinn að bíða þrisvar í 60 mínútur og alltaf setja inn vitlausa tölu þá segir ipaddinn hingað og ekki lengra… þú ert augljóslega þjófur eða nautheimskur og átt að tengja mig við tölvuna þína til að laga þetta. Kristján Freyr var ekki sáttur við pabba sinn með þessar málalyktir. Enginn ipad það sem eftir lifði helgar.

Þegar heim var komið var þetta tengt við tölvuna þar sem að maður þurfti að eyða dágóðum tíma í að setja ipaddinn upp aftur. En það gekk upp að lokum og allt orðið eins og það á að vera.

Það sem má læra af þessari reynslu er að ekki gera neitt róttækt eldsnemma á morgnana. Fá sér kaffi og með því og kíkja svo á málið.

Þangað til næst…

Behcet’s disease

Kristján á sjúkrahúsi
Kristján á Barnaspítala Hringsins

Við Rúna og Kristján fórum suður í gær til fundar við læknateymið hans Kristjáns. Við fórum með þá von í brjósti um að fá einhverjar niðurstöður úr veikindunum hans og úr öllum þessum ótal prufum sem hann gekk í gegnum.

Það kom nákvæmlega ekkert út úr þessum prufum og búið að útiloka allar “eðlilegar” skýringar á þessum furðulegu veikindum. Læknarnir eru að hallast að því að þetta sé svokallaður Behcet’s disease sem er ólæknandi og mjög sjaldgæfur sjúkdómur og getur komið svona fram. Hægt er að lesa allt um þennan sjúkdóm hérna á mayoClinic.com.

Þar kemur fram eftir því sem ég kem næst að þetta sé algengast hjá fólki á aldrinum 20-40 ára, og sé algengara í miðausturlöndunum. þetta getur komið fram sem sýking í munni, augum, húð, liðum ofl. Þetta er einhverskonar ofviðbrögð hjá ónæmiskerfinu og er alveg óútreiknanlegt.

spítalavist

Mjög sjaldgæft er að börn á hans aldri fái þetta. Læknirinn vissi um einn annan einstakling á Íslandi sem þjáist af þessum og það hefur gengið mjög vel hjá honum að halda þessu niðri með sterum þegar hann fær svona köst.

Við eigum bara að bíða og sjá og halda áfram að lifa eðlilegu lífi. Þegar og ef hann fær svona kast aftur verður hann settur á stera og séð hvort að þeir geri eitthvað gagn. Þannig að lífið hefur bara sinn vanagang hjá okkur þessa dagana. Það er verið að trappa hann niður á þessum sterakúr sem hann byrjaði á þegar hann var á spítalanum. Drengurinn er búinn að þyngjast um 4 kg á 2 vikum og er sísvangur, aukaverkanir segja læknarnir. Hann getur líka verið með eindæmum geðillur og viðskotaillur… líka aukaverkanir.

Við tökum á þessu af æðruleysi og gerum eins og læknarnir segja… þ.e. bíðum og sjáum til.

Þangað til næst….

Háhyrningarnir í Kolgrafafirði




Orca

Originally uploaded by Tómas Freyr

Fékk ábendingu um að það væri einhver hasar á Kolgrafafirði í gær. Bátar fyrir innan brú og svoleiðis gút sjitt. Ég stökk úr vinnunni, brunaði heim og sótti vélina, brunaði svo í næsta fjörð til að kíkja á herlegheitin.

Þegar ég kom var þyrla Landhelgisgæslunnar að fljúga yfir, 4 bátar fyrir innan brú, rosalega mikið fuglalíf og svo 3 háhyrningar sem voru að næra sig í mestu makindum, Einhverjir ernir voru að flögra þarna um, súlur að stinga sér og allt í gangi.

Mikið líf og fjör

Þangað til næst….

Árið sem leið.

Janúar:

Í Janúar fyrir ári var lífið eins og það á að vera í janúar…. rólegheit og skammdegi. Háhyrningarnir mættu í fjörðinn og tóku mikið pláss á minniskortinu í myndavélinni minni.
Wolfpack

Skálmöld skipaði stóran sess í mínu lífi samkvæmt blogginu og það ekki af ástæðulausu… ég er enn að fýla þann disk í drasl og flestar hringingarnar úr símanum mínum sem og sms skilaboðatónar hljóma af Skálmöld.

Háhyrningamyndirnar komust á mbl.is og visir.is sem var ánægjulegt.

Febrúar:

112 dagurinn var haldinn hátíðlegur þann 11. febrúar. Gústi bróðir er hr. 112 og kom skemmtileg grein um það í Skessuhorninu góða.
112

Háhyringarnir héldu áfram að synda makindalega um fjörðinn og flickr síðan mín setti persónulegt met í heimsóknum þegar allir fóru að deila háhyrningamyndunum mínum á fésinu… yfirleitt er ég að fá 50 -400 heimsóknir á dag en einn daginn fóru heimsóknirnar upp í 7000 og eitthvað. Vinsælasta myndin var þessi hér:
At Kirkjufell

Einn daginn í febrúar komu þeir svo nálægt landi að manni var hætt að lítast á blikuna…
Jackson five?

Aftur datt maður á visir.is… ekki leiðinlegt það.

Svo var Þorrablótið haldið með pompi og pragt og þar kom maður fram og skemmti áhorfendum af mikilli snilld. Það var alveg hrikalega gaman að vera í þorrablótsnefnd, miklir snillingar sem komu fram þarna.
Þorrablótsnefndin

Mars:

Það var mikið stuð í mars. Nokkrir ernir úr Kolgrafarfirðinum leyfðu mér að mynda sig… enda myndarlegir fuglar ef þannig er litið á það.
Konungur fuglanna

Háhyrningar voru enn að spóka sig í mestu makindum, enda virtist vera nóg að éta fyrir kvikindin.
They're back

Góðir gestir kíktu í heimsókn í mars.
afmæli

Við í slökkviliðinu tókum að okkur vafasöm verkefni svo ekki sé meira sagt.
fire

Jú og varamannaskýlin okkar í fótboltanum hreinlega sprungu í loft upp í einu óveðrinu…
storm's consequences

Apríl:

Fór í eitt stk ljósmyndaferð um Snæfellsnesið í þokusudda. Það kom mjög flott út að mér fannst enda þarf ekki alltaf að vera bongó blíða til að taka töff myndir.
Svörtuloft

Kolbeinn og Kölski

Einnig fórum við Rúna norður í skíða og gönguferð ef svo má að orði komast. Kristján Freyr fór í brettaskóla á Akureyri og skemmti sér vel, var orðinn ansi lúnkinn á brettinu eftir daginn.
bretti

Svo var farið með snjótroðara upp á Kaldbak og rennt sér og risasnjóþotu niður… það var geðveikt.
kaldbakur

Síðan var ferðinni heitið í Bárðardalinn þar sem við gengum úr okkur allt vit. Fórum með góðu fólki í göngu á Svarfaðardal líka. Nokkrir kílómetrarnir að baki eftir þessa ferð.
Að nálgast

Maí:

Strandveiðarnar byrjuðu í maí, fyrsti leikur Grundarfjarðar í þriðju deildinni var í maí, ýmislegt sem gerðist í maí.
Celebration at 1-0

Sigur var í fyrsta leik öllum að óvörum. Þetta setti standardinn fyrir sumarið hjá Grundarfirði.
Grundarfjörður FC

Kristján Freyr varð 6 ára og Rúna 30 ára í þessum mánuði…
kft

gjj

Sumarið kom og allt í blóma. Svartur svanur mætti á svæðið og spókaði sig um í Grundarfirði eins og ekkert væri sjálfsagðara.
We're off

Júní:

Yfirleitt byrjar þessi mánuður með einhverjum hasar á sjómannadaginn og það var eins þetta árið…
112

Splash

Tók netta miðnæturgolfmyndatöku með Benedikt og kom það nokkuð vel út.
7 iron

Hápunkturinn var þegar að Kristján Freyr hitti Baldur Ragnars Skálmaldarliða.
kftbr

Fótboltinn hélt áfram og áfram gekk okkur ansi vel. Unnum stórsigur á Afríku ásamt því að gera jafntefli við Kára.
Rare goal

Júlí:

Í júlí fórum við fjölskyldan til Tyrklands í langþráð sumarfrí… það var æðislegt.
tyrkland

dive

tyrk

Þegar við komum loksins heim tók við stífur undirbúningur fyrir Góða stund. Þá var legið á pallinum og sólað sig þá daga sem það var hægt… þeir voru þónokkrir. Var plataður einusinni enn til að taka þátt í skemmtiatriði rauða hverfisins. Þessu var riggað upp nokkrum klukkutímum fyrir showið og við komum sáum og sigruðum… Flottasta skemmtiatriðið 2011.
Thats me

Rauða hverfið

Ágúst:

Ég byrjaði þennan mánuð á að taka túr um Ísland aleinn… það hittist þannig á að þegar Rúna var búin með sitt sumarfrí gat ég loksins drullast til að taka mér smá frí. Þetta hafði lengi blundað í mér að taka svona ljósmyndaferð bara einn og það var bara nokkuð gefandi skal ég segja ykkur. Tók hringinn í kringum landið á 5 dögum og kom við á þessum helstu stöðum.
Landmannalaugar

Behind the waterfall

Reynisfjara

Reynisfjall

Glacier lagoon

Dettifoss

Eyddi svo nánast restini af þessum mánuði í að vinna myndirnar sem ég tók. Það tók sinn tíma enda tók ég 1197 ramma í þessari ferð. Endaði svo mánuðinn á að taka 2 leiki við Magna frá Grenivík í úrslitakeppninni en það fór 2-1 fyrir Magna í 2 leikjum. Þetta stóð tæpt en besti árangur Grundarfjarðarliðsins ever.
Posession

September:

Lífið var að komast í fasta skorður í september… Við Kristján Freyr fórum í feðgaferð til Akureyrar… Ég skellti mér á tónleika með Skálmöld í Hofi og voru það einir mögnuðustu tónleikar sem ég hef farið á… Svaðalegir.
skalmold

Svo var tekist á við svakalegt púslverkefni sem dróst fram yfir mánaðarmótin.
pusl

Október:

Október byrjaði á að við systkynin skruppum í helgarferð til Svíþjóðar… þar var nokkrum kollum rennt niður og verslað aðeins í H&M… Rosalega skemmtileg ferð.
sverige

sverig

Eftir Svíþjóðarferðina náði ég mér í sænsku veikina, var meira og minna með kvef allan október. Svo þegar því var loksins að linna þá skutluðumst við í bústað í Biskupstungunum í afslöppun, Það var rosalega nice, heitur pottur, grill og almennt chill.
Strokkur

sudurland

Nóvember:

Um mánaðarmótin okt/nóv var ég orðinn fárveikur, þegar við komum úr bústaðnum og ég mætti til vinnu á mánudeginum var ég hálf tussulegur, fór heim á hádegi, lagðist upp í rúm og var í ruglinu, mældist með 39 stiga hita. Á miðvikudeginum skrepp ég til læknis og þá var ég greindur með lungnabólgu og settur á lyf, lyfin voru ekki að virka sem skildi og því var ég sendur upp á Akranes á föstudeginum þar sem lungun voru mynduð og lungnabólgan orðin ansi svæsin. En þetta reddaðist þó að lokuð þó að nánast allur mánuðurinn hafi farið í eitthvað svona rugl. Formið fór fyrir neðan allar hellur og íþróttaiðkun var ekki á dagskránni þennan mánuð.
afmaeli

Desember:

Desember var bara nokkuð nettur, jólaundirbúningur, byrjaði aftur í bjöllum eftir lungnabólguna, var allur að braggast. Jólin komu svo með sitt hafurtask og árið endaði á góðu nótunum. Vildi bara að nýja árið hefði byrjað á góðu nótunum en það var ekki raunin. Fall er fararheill og vonandi fer þetta batnandi úr þessu.
snjohus

Þá er þessari litlu yfirferð lokið.

Þangað til næst….

2012




The jump

Originally uploaded by Tómas Freyr

Gleðilegt nýtt ár… Það er aldeilis búið að vera mikið um snjó hér í firðinum þessa dagana. Nú er maður staddur á Barnaspítala Hringsins þessa dagana. Kristján Freyr er enn einusinni kominn með þessa bölvuðu sýkingu í munninn. Þetta er í þriðja skiptið sem það gerist. Þegar þetta gerðist í annað sinn fórum við með hann til barnalæknis sem vildi fá hann aftur ef þetta gerðist aftur þar sem að þetta var í rénun þegar hann sá hann. Nú þegar þetta byrjaði höfðum við samband við Þorstein lækni sem hafði samband við þennan barnalækni sem við vorum hjá. Sá vildi að við myndum fara með hann á bráðamóttöku barna til að fara í blóðprufur og slíkt. Við keyrum suður án þess að taka neitt með okkur þar sem að við ætluðum að koma heim aftur um kvöldið. En það reyndist ekki raunin. Nú erum við að detta inn í nótt númer tvö hérna á spítalanum og það er enn spurning hvenær við megum fara heim. Kristján er frekar lítill núna og vill mest fara heim. Reyndar er starfsfólkið hérna alveg yndislegt og ekkert yfir því að kvarta. En maður skilur drenginn alveg því að heima er best. Hann er með PS2 tölvu hérna og dvd myndir svo að hann hefur eitthvað við að vera.
Hanna systir var svo góð að koma með auka föt sem að Arndís tók til fyrir okkur. Tannbursta og svoleiðis munað svo að maður getur leyft sér að tannbursta sig og svona.

Nú er bara verið að bíða eftir að fleiri læknar og sérfræðingar kíki á þetta og reyni að komast að því hvað er að hrjá drenginn. Því fyrr sem það gerist því betra. Maður vonar bara að þetta sé eitthvað sem eldist af honum.

Maður fær einhvernveginn öðruvísi lífssýn á að dvelja hérna á Barnaspítalanum án þess að vera að fara eitthvað nánar út í það. Maður þakkar bara fyrir það sem maður hefur og hvað maður hefur verið heppinn.

Vonandi fáum við að fara heim sem fyrst og byrja þetta blessaða ár á betri nótum.

Þangað til næst….