Jólakveðja

Kæru vinir og ættingjar nær og fjær. Síðastliðið ár hefur verið ansi viðburðarríkt fyrir fjölskylduna á Grundargötu 68. Það sem er okkur efst í huga er klárlega þakklæti. Við erum afar þakklát fyrir alla þá velvild og hlýju sem þið hafið sýnt okkur á árinu.

Þakklæti til allra sem hafa boðið nýja fjölskyldumeðliminn velkominn í samfélagið. Það er gríðarlega mikill munur á að eignast barn hér í Grundarfirði eins og að eignast barn í Reykjavík. Þegar að við bjuggum í höfuðborginni mátti rétt eiga von á nánustu ættingjum og vinum inn um dyrnar en þegar að hún Ellen Alexandra kom heim þá var annað uppá teningnum. Okkur þótti óskaplega vænt um að fá allar þessar heimsóknir í sumar.

Allir fjölskyldumeðlimir hafa verið heilsuhraustir á árinu sem er að líða. Kristján Freyr er ofboðslega góður stóri bróðir og hefur staðið sig með mikilli prýði á skólanum. Við erum ofboðslega  stolt af honum.

Við minnumst þeirra sem hafa fallið frá á árinu með söknuði.

Með þessum orðum sendum við ykkur öllum þakklætis- og jólakveðjur.

Megi árið 2014 verða okkur og ykkur gæfuríkt ár.

Celebration

Happy

Ellen og Rúna

Rúna

Hr Nóvember 2014

Kær kveðja
Tommi, Rúna, Kristján Freyr og Ellen Alexandra

Síldveiðar og skipatraffík

Er enn að fikta í þessu timelapse dóti… mjög svo skemmtilegt apparat eins og áður hefur komið fram.

Hér má sjá myndband sem tekið er á nokkrum dögum. Þarna má sjá báta að veiðum á milli skerja í Helgafellssveit. Svo er þarna bútur þegar að Heimaey VE-1 leggur frá Grundarfjarðarhöfn og Álsey VE-2 kemur og tekur eftirlitsmann. Skemmtilegt að sjá þetta á nokkrum sekúndum sem að tekur 10-15 mínútur. Á ákveðnum tímapunkti í þeim hluta þegar að Heimaey er að leggja frá bryggju þá kom svaka vindhvita sem að varð til þess að myndavélin fauk til. Ég rétt náði að grípa hana og halda áfram með myndbandið en glöggir geta séð þetta í myndbrotinu.

Þangað til næst….

Timelapse tilraunir

Fór loksins að skoða þetta timelapse dót. Er búinn að sjá mjög mikið af ótrúlega fallegum videoum í timelapse og mann hefur alltaf langað til að prufa þetta. Lét loks verða af því í gær og fór og tók rúmlega 1200 myndir og sem dugði í rúmlega mínútu myndband. Mjög svo gaman að þessu.

Maður þarf aðeins að laga smá hristing en ég er væntanlega með lausnina á því vandamáli sem verður vonandi ekki til staðar í næsta videoi.

Spurning hvort að maður láti verða af fleiri svona með tíð og tíma. Þetta er ansi gaman.

Þangað til næst….

Brjóstaþoka




The newborn

Originally uploaded by Tómas Freyr

Eins og flestir sem eitthvað fylgjast með mínum högum vita þá eignuðumst við Rúna litla stelpu í sumar… sem er náttúrulega ekki frásögum færandi nema að litlum börnum fylgir sú krafa að það þarf að gefa þeim mjólk að drekka. Jú mjólk sem framleidd er í móður barnsins svona eins og gengur og gerist. Nú meðfylgjandi fylgir sú kvöð að þjást af brjóstaþoku svokallaðri.
Fyrst lagði ég ekki mikinn trúnað í þessar brjóstaþokusögur og taldi þetta bara lélega afsökun yfir að vera gleyminn og jafnvel að hún Rúna mín væri farin að kalka. En síðustu vikur og mánuði hef ég orðið vitni að ýmsum skondnum atvikum sem tengja má beint við þessa svokölluðu brjóstaþoku. Og svo í morgun þá tók nú út fyrir allt saman…

Í morgun vaknaði hún Rúna mín eins og venjulega en skildi ekkert í því að hún var með þessar svaka hellur fyrir eyrunum. Hún prófar að halda fyrir nefið og blása af öllum lífs og sálarkröftum til að losna við þetta helvíti en ekkert gengur. Einhver önnur gömul húsráð tekur hún til taks eins og að tyggja tyggjó í gríð og erg og berja með flötum lófa á hallandi höfuð en ekkert gengur. Þá prófar hún að þreyfa yfir eyrað og viti menn… haldiði bara ekki að hún hafi rekist á forláta eyrnartappa sem hún sjálf hafði komið fyrir kvöldinu áður til að geta sofið fyrir rokinu. Svona er þessi elska gáfuð í brjóstaþokunni… eða að minnsta kosti kennir hún brjóstaþokunni um þetta.

Þangað til næst….

Hvar var sumarið?

Nú er september að líða hjá og lífið dottið í fastar skorður. Kristján Freyr byrjaður í skólanum og Ellen Alexandra tútnar út á öllum rjómanum sem að mamma hennar dælir í hana.

Ellen Alexandra

Sumarið var svosem ágætt þó að það hefðu mátt vera fleiri sólardagar. Grundarfjörður náði að halda sæti sínu í þriðju deildinni eins og stefnt hafði verið á og má það teljast viðunandi árangur. Því miður lauk pepsi ævintýrinu í Ólafsvík með falli Víkings en undanfarnar vikur var ég fullur bjartsýni um að þeir myndu halda sæti sínu enda voru þeir að sýna prýðilega spilamennsku. Ég er sannfærður um að þeir verði í toppbaráttunni í fyrstudeildinni á næsta ári og aldrei að vita nema að við fáum annað pepsi ævintýri 2015.

Celebrating the goal

Annars höfum við Aðalsteinn farið í nokkra hjólarúnta ásamt því að síðustu daga hef ég verið duglegur að fara í ljósmyndaferðir um Snæfellsnesið.

Hjólaferð hringinn í kringum Hraunsfjörð from Tomas Kristjansson on Vimeo.

Hér má sjá skemmtilegt video úr gopro vélinni þegar við hjóluðum í kringum Hraunsfjörð. Það var ansi gaman og skemmtileg og falleg leið til að hjóla.

Að endingu læt ég fylgja með nokkrar sólseturs og haustlitamyndir sem ég hef tekið síðustu daga.

Setbergsá

The beach

Saxhólsbjarg

Snæfellsjökull

Snæfellsjökull glacier

Þangað til næst…