Denver Colorado




Tvær pútur

Originally uploaded by Tómas Freyr

Hvur fjandinn… ég steingleymdi að blogga í nóvember. Þetta er hneyksli.

Við fórum til Denver Colorado. Þar átti ég afmæli, fórum á Denver Nuggets vs Detroit Pistons í NBA. Fyrsti heimaleikur Denver. Mögnuð upplifun. Annars var þetta mjög svo skemmtileg ferð. Fengum frábært veður allan tímann.

Meðfylgjandi mynd er af Rúnu þar sem að hún er að reyna að vingast við stöllu sína í Denver Zoo.

Þangað til næst….

Börn Loka

Það er ekki oft sem að maður finnur barnslega eftirvæntingu magnastu upp innra með sér. En það er búið að vera í gangi hjá undirrituðum síðustu vikur eftir því sem að niðurtalningin í nýja Skálmaldardiskinn styttist.

Nú er gripurinn kominn út. Ég byrjaði á að versla hann á tonlist.is, pantaði svo pakkann sjálfan hjá Smekkleysu sem ég fæ væntanlega eftir helgi. Er búinn að renna disknum nokkrum sinnum í gegn og ég get ekki annað sagt en að ég sé alveg rosalega sáttur. Mikið ofboðslega er ég ánægður með þetta. Hvert meistarastykkið á fætur öðru og önnur epísk saga fæðist í huga manns þegar diskurinn hljómar.

Börn Loka

Ekki eru Skálmaldarliðar að valda manni vonbrigðum þessa dagana…

Skálmöld

Baldur

Þangað til næst….

Októberpistillinn

Já það er ýmislegt búið að gerast síðan síðasti pistill var hripaður hérna inn… Ég er búinn að fara í lazer aðgerð á augunum og er því ekki lengur háður linsum eða gleraugum. Þetta er þvílíkur munur að orð fá því ekki lýst. Mögnuð tækni. Maður fer í forskoðun á augunum. Daginn eftir var ég mættur í aðgerð. Fékk kæruleysistöflu og hálftíma síðar var ég lagstur á bekkinn… augað spennt upp með einhverju víravirki. Einhver ofursogskál sett á augað og svo kemur bara einhverskonar hljóð og brunalykt og svo er þetta bara búið. Minnsta mál í heimi. Smá verkir í augunum fyrsta klukkutímann. Ég lagði mig í 2 tíma og var úber góður þegar ég vaknaði. Endalaus hamingja.

Búinn að vera nokkuð duglegur að taka myndir sem er bara alveg hreint ágætt.
Aurora Borealis
Norðurljós við Kirkjufell

Lambahnúkur
Fallegt haustveður í Kolgrafafirði

Vilhelm Þorsteinsson EA 11
Svo eru stóru síldveiðibátarnir farnir að láta sjá sig hér á firðinum.

Eiríksjökull
Ég skrapp líka í haustmyndatöku upp í Borgarfjörð

Við Hraunfossa
Hraunfossar

Paradísarlaut
Paradísarlaut

Svo er það bara Denver Colorado um mánaðarmótin. Það verður væntanlega stuð.

Þangað til næst…

Norðurljósafans

Nú er september að verða liðinn og mikið búið að ganga á síðan í síðasta bloggi. Rútínan að taka öll völd og allt að fara í fastar skorður. Rúna búin að fara í lazer aðgerð á augum og það heppnaðist svo gríðarlega vel að ég pantaði mér eina slíka í einum grænum. Hlakka mikið til að vera ekki háður gleraugunum endalaust. Vonandi að allt gangi upp hvað það varðar. Svo hefur maður verið að skrattast með myndavélina hingað og þangað.

Kristján Freyr fór á Atlantis mótið í lok ágúst:

Medallion

Ben Stiller mætti í Grundarfjörðinn og gerði allt vitlaust. RÚV keypti nokkrar myndir af mér og þetta var heilmikið havarí.

Ben Stiller

Just landed

Við fórum í réttir í gömlu sveitinni minni:

Pull

I got it

Síðustu tvö skemmtiferðaskip sumarsins komu við í Grundarfirði:

Reflection

Svo eru búin að vera svo brjáluð norðurljós hérna að maður var gapandi af undrun og aðdáun um daginn þegar þessi mynd var tekin:

Kirkjufell Aurora Borealis

Annars er bara allt gott að frétta af okkur hérna í Grundarfirði. Kristjáni gengur vel í skólanum og allt í blóma þar. Við Rúna ætlum svo að skreppa með pabba til Denver í nóvember og kíkja á lífið í Ameríkunni. Spurning hvernig það á eftir að fara.

Ætli það verði ekki c.a. nokkrir mánuðir í næsta blogg þannig að ég bið ykkur vel að lifa á meðan.

Svo ein af Kirkjufellinu síðan í dag:

Kirkjufell

Þangað til næst….

Myndavélablæti

Á góðri stund í Grundarfirði var um daginn… þar var mikið stuð, frábært veður, fullt af fólki, knattspyrnuleikur og heilmikil dagskrá. Þetta fór allt með afbrigðum vel fram og spilaði veðrið þar stóran hluta inní.
Grundarfjörður lagði topplið Víðis að mér fjarverandi en leikurinn fór 4-1 okkur í vil.

Benni og Iðunn voru hjá okkur og var það rosalega gaman. Mikið brallað þessa helgina. Kristján Freyr sýndi mikil danstilþrif á stóra sviðinu ásamt því að taka þátt í skemmtiatriði rauða hverfisins. Það tókst bara mjög vel hjá þeim og gátu þau gengið stolt af sviðinu.

Eftir helgina tók svo raunveruleikinn við því að þá átti enn eftir að klára allan virðisaukann.. Það tókst svo á mánudeginum eftir verslunarmannahelgina þannig að ekki var mikið flakkið á manni á þeirri mestu ferðahelgi ársins.

En á meðan á öllu þessu stóð var hugurinn farinn á flug varðandi myndavélapælingar. Málið er að mig hefur lengi langað í full frame vél enda aldrei brúkað slíkan grip. Vélarnar sem ég hef átt hafa allar verið 1.6 crop og svo ásinn sem ég á núna sem er 1.3 crop.
Ég nýtti því tækifærið þegar að ásinn bilaði örlítið. Það var ekki alvarleg bilun, aðeins einn takki sem hefur dottið af í öllum hamaganginum í myndatöku í Flatey um daginn. Málið er að snillingarnir í Beco þurftu nokkra daga til að laga vélina. Þetta gerðist allt á sama tíma skatturinn ákvað að láta mig hafa fullt af pening svona uppúr þurru. Ég lét því slag standa og splæsti í eina Canon EOS 5d Mark II notaða sem ég fann á netinu. Seldi Carl Zeiss 25mm f/2.8 upp í vélina og á núna tvær myndavélar. Ég ætla að halda í Canon EOS 1d Mark III vélina mína enn um sinn enda er það alveg frábær vél og mikill jálkur. Ég verð þá bara að bíta í það súra að eiga tvær vélar 😉

Að sjálfsögðu þurfti ég þá líka að kaupa mér nýjan bakpoka undir allt draslið… það lá bara í augum uppi.

Lowepro Vertex 200AW varð fyrir valinu enda frábær poki sem rúmar allan fjandann… Tvær myndavélar, fleiri fleiri linsur og 14 samlokur ef út í það er farið. Nú þarf maður bara að drullast í ketilbjöllur til að geta loftað draslinu.

Þangað til næst….

Sumarfríið 2012

Dagur 1 – 28. júní

Þann 28. júní síðastliðinn sátum við fjölskyldan við Eldhúsborðið og lögðum á ráðin um hvert skyldi halda í fríinu. Þegar að við vorum komin að sómasamlegri niðurstöðu ákváðum við að leggja í hann eftir kl. fimm. Bongóblíða þegar við renndum úr innkeyrslunni á Kiunni. Fyrsta stopp var í Hraunsfirði þar sem að Kristján Freyr sendi eitt stykki flöskuskeyti af stað. Spurning hvar það skeyti endar. En næsta stopp var svo við Eldborg þar sem við vorum búin að ákveða að klöngrast þar uppá. Frábært veður eins og áður sagði og ferðin gekk mjög vel. Eftir að við komum niður aftur renndum við uppá Hofstöðum þar sem ég var búinn að panta gistingu hjá Nínu og Inga. Þar biðu okkar dýrindis hamborgarar fyrir glorsoltna fjallagarpa. Það var fínt að fresta því að gista í tjaldi í að minnsta kosti eina nótt.

Dagur 2 – 29. júní

Við vöknuðum á Hofstöðum og veðrið var algjört æði eins og daginn áður. Sól og blíða og 16-17 stiga hiti. Við vorum ekkert að flýta okkur neitt rosalega af stað og gáfum okkur tíma fyrir kaffibolla og spjall með ættingjunum. Fórum svo í Bauluna þar sem að maður fékk dýrindis kótilettur í hádegismat. Svo var lagt í hann og við stoppuðum við Ferjukot þar sem brúin var mynduð og svo var sullað og leikið sér í sandinum. Svo rúntuðum við inn Lundareykjardal og komum við í Krossalaug þar sem við fórum í fótabað. Keyrðum svo yfir Uxahryggi og þaðan yfir Haukadalsheiði. Á Haukadalsheiði keyrðum við yfir fyrstu vöðin af mörgum á Kíunni. Við komum niður við Gullfoss og stoppuðum aðeins þar í smá kaffibolla. Fórum svo á Flúðir til að tjalda. Þegar við vorum að borða kvöldmat á Flúðum gerði hellidembu svo að okkur leist ekkert á blikuna… En það stytti upp eftir 30 mínútur og aftur kom bongóblíða svo að við slógum upp tjaldi og höfðum það fínt á Flúðum.

Dagur 3 – 30. júní

Við vöknuðum á Flúðum í sól og blíðu og það var svo funheitt í tjaldinu að maður flaut næstum því útúr því. Við skröttumst í Samkaup til að fá kaffi og meððí. Þar hittum við Hönnu systir sem hafði líka verið á Flúðum í öðrum tilgangi en að sofa. Á Flúðum fórum við á alvöru sveitamarkað og fengum bestu jarðarber sem ég hef á ævi minni smakkað. Við þurftum að fara aftur til að fjárfesta í annari öskju þegar að við kláruðum hina á bílaplaninu. Eftir það var farið í dýragarðinn Slakka og kíkt á kvikindin þar. Svo var keyrt af stað og hádegismatur tekinn á Hellu á bökkum Rangár. Svo var keyrt af stað aftur og stoppað á Seljalandsfossi þar sem við hittum Steina, Heiðrúnu og fjölskyldu. Fórum í sund í Seljavallalaug. Kvöldmatur á Hótel Önnu undir Eyjafjöllum. Fórum svo á yndislegt tjaldsvæði sem heitir Hamragarðar þar sem við slógum upp tjaldbúðum. Kíktum á fossinn Gljúfrabúa sem er magnaður eins og Seljalandsfoss. Við óðum að sjálfsögðu alveg að fossinum inn undir klappirnar.


Dagur 4 – 1. júlí

Vöknum á Hamragörðum og þá er enn fínasta veður en stöku ský á lofti og búið að dropa aðeins um nóttina. Tókum skyndiákvörðun og skelltum okkur í dagsferð til Vestmannaeyja. Rúntuðum niður að Landeyjarhöfn og keyptum miða fram og tilbaka. Í Eyjum fórum við að spranga, sund þar sem að trampólínrennibrautin vakti mikla lukku. Svo var farið í bakaríið og snætt. Svo var farið og kíkt á gos mynjarnar og pompei norðursins. Fórum líka í Sædýrasafnið þar sem að Kristján og Rúna fengu að halda á lunda kvikindi. Fórum svo í land og fengum okkur að borða á Kaffi fjós þar sem að maður fékk svakalegan bernaisborgara. Eftir matinn var farið í Garðakot til Evu frænku.

Dagur 5 – 2. júlí

Vöknuðum í Garðakoti þar sem að Eva græjaði morgunmat eins og henni einni er lagið. Magga frænka og Steini buðu okkur með í hjólabátsferð niður að Dyrhólaey og vöktu strákarnir mikla lukku hjá hópi af Kínverjum sem tóku örugglega sjöþúsund myndir af þeim. Eftir hjólabátsferðina fórum við með Auðun Adam og skoðuðum Skógarfoss og Sólheimajökul. Fórum svo í fjósið á Vatnsskarðshólum þar sem að Kristján hjálpaði til við að mjólka. Strákarnir fóru svo í froðubað sem vakti mikla lukku.

Dagur 6 – 3. júlí

Vöknuðum aftur í Garðakoti í ágætis veðri. Kvöddum Evu og fjölskyldu með söknuði. Héldum áfram og kíktum aðeins á Reynisdranga áður en við stoppuðum við Fjaðrárgljúfur sem er alveg ótrúlega fallegt. Kíktum svo á Kirkjugólf sem er stuðlabergsklettar við Kirkjubæjarklaustur. Skoðuðum Dverghamra líka. Fengum okkur svo kaffi á Freysnesi við Skaftafell áður en við héldum áfram alla leið að Jökulsárlóni. Þar sáum við seli og ísjaka en gríðarlega flott þarna. Svo keyrðum við tilbaka og slógum upp tjaldi í Skaftafelli. Borðuðum flatkökur með hangikjöti í kvöldmatinn.

Dagur 7 – 4. júlí

20 stiga hiti og logn í Skaftafelli þegar við vöknuðum. Fengum okkar að borða og fórum svo í göngutúr upp að Svartafossi og Sjónarskífu. Röltum svo niður í Sel eftir það og kíktum á gamla bæinn. Eftir þessa 6 km göngu fengum við okkur svakalega góða kjötsúpu í Skaftafelli. Eftir súpuna löbbuðum við upp að Skaftafellsjökli og kíktum á hann. Keyrðum svo upp að Svínafellsjökli og kíktum á hann. Svo var haldið af stað aftur og áætlunin að fara yfir Sprengisand og til að komast þangað þurftum við að fara fjallabaksleið nyrðri. Stoppuðum í Eldgjá og röltum að Ófærufossi. Rosalega fallegt þarna. Eftir þann göngutúr vorum við búin að skilja ófáa kílómetrana að baki eftir daginn. Keyrðum svo upp í Landmannalaugar og tjölduðum á melnum þar. Frekar skrítið að þurfa að festa tjaldið niður með grjóti.

Dagur 8 – 5. júlí

Vöknuðum í Landmannalaugum í frábæru veðri. Fengum okkur morgunmat og skelltum okkur svo í laugina. Svo var ákveðið að halda af stað áleiðis yfir Sprengisand með kvíðahnút í maganum yfir ánni sem við þurftum að fara yfir í Nýjadal. Hugmyndin var að gista í Nýjadal og fara yfir Tungnaá um morgunin þegar hún yrði vatnsminni. Þegar við komum í Nýjadal um fjögurleytið var indælisveður þar. Við stoppuðum og spjölluðum við skálavörðinn sem sagði að við gætum vel farið yfir ána núna enda væri lítið í henni. Við létum slag standa og héldum áfram og Kían fór létt með þetta. Þarna ákváðum við að keyra Öskjuveg og keyra upp að Gjallanda sem er efsti fossin í Skjálfandafljóti. Mig hafði lengi langað til að skoða þann fagra foss og loks var tækifæri til þess. Á þessari leið voru mun erfiðari vöð að fara yfir heldur en í Nýjadal en Kían spændi ótrauð yfir þau öll. Svo renndum við okkur ofaní Bárðardalinn góða og í bústaðinn hennar Guðrúnar Jónu eldri.

Dagur 9 – 6. júlí

Rosalega gott að hvíla sig í kyrrðinni í Bárðardal. Nýttum þennan dag bara í chill í bústaðnum. Kristján og Gunnar Kjartan léku sér saman allan daginn og við smíðuðum báta, axir sverð og ég veit ekki hvað og hvað. Torfi sá aumur á mér og lét mig hafa lambakjöt sem var vel þegið eftir að hafa nagað samlökur nánast alla helvítis ferðina.

Dagur 10 – 7. júlí

Mikill hiti og sól þennan dag. Mikið af mývargi þannig að við Rúna og Kristján flúðum í Jarðböðin í Mývatni. Keyrðum Engidalinn yfir að Mývatni sem var mjög rykugt en gaman. Fórum svo í mat á Lundarbrekku um kvöldið þar sem við fengum kjötbollur og steikta fífla. Fórum svo aftur í bústaðinn góða.

Dagur 11 – 8. júlí

Fínasta veður í Bárðardalnum. Rúna og Kristján fóru í skógarferð með Jónasi og Sigrúnu en ég fór í smá ljósmyndaleiðangur. Fór upp að Hrafnabjargarfossum, Aldeyjarfossi, Goðafossi og Geitafossi. Myndaði þá alla í bak og fyrir og hafði gaman að.

Dagur 12 – 9. júlí

Vöknuðum í Bárðardalnum og fengum okkur morgunmat. Við Kristján fórum kring hamar á fjórhjólinu og var það mjög gaman. Eftir það héldum við áleiðis til Húsavíkur þar sem við áttum gistingu hjá ömmu og afa hennar Rúnu. Komum við hjá Ullarfossi til að kíkja á hann. Fórum svo í heimsóknir á Húsavík og vorum þar í góðu yfirlæti.

Dagur 13 – 10. júlí

Vöknuðum á Húsavík í frábæru veðri. Fórum í sund og svo var lambalæri hjá ömmu Gunnu. Kíktum til Torfa og Unnar í heitar kleinur og íííískalda mjólk. Fórum svo til Akureyrar og hittum Ninnalinginn… Fórum í Toys’rus, Eymundson, Greifann og Brynju.

Dagur 14 – 11. júlí

Vöknuðum á Akureyri í bongóblíðu eins og svo oft áður. Fórum niður í bæ, hittum Nonna, Láru og Kolbrúnu. Keyptum íþróttaföt á útsölumarkaði Intersport og fórum svo á Strikið að éta. Rúntuðum svo fyrir Tröllaskaga og komum við á Siglufirði. Ég hafði persónulega aldrei komið þangað en þar rákumst við á Nínu og fjölskyldu. Fórum svo í sund á Hofsósi, borðuðum á Sauðárkróki og renndum okkur svo innfyrir dyrnar heima tveim tímum eftir miðnættið. Frábært frí að baki í frábæru veðri.

Þangað til næst….

Blönduósmótið 2012




Proud goalscorer

Originally uploaded by Tómas Freyr

Við fórum á Blönduósmótið um síðustu helgi og það var æði. Þetta var fyrsta fótboltamótið sem að Kristján Freyr fer á og það gekk vonum framan. Við Jón Frímann tókum að okkur að þjálfa liðið hans og vorum við með 11 krakka í sjöunda flokk. Allir skemmtu sér frábærlega og úrslitin voru upp og ofan. Tvö töp og einn sigur fyrri daginn og einn sigur, eitt tap og eitt jafntefli síðari daginn. Maður fékk sting í hjartað af stolti þegar að Kristján Freyr skoraði fyrsta og eina markið sitt þessa helgi. Enda sést á myndinni hvernig einlæg gleðin skín úr andlitinu á honum. Hann tjáði okkur Rúnu að þetta hafi verið besti dagur lífsins sem toppaðist með því að fá eiginhandaráritun frá Friðrik Dór um kvöldið.

Frábær helgi og ekki spillti veðrið fyrir.

Þangað til næst…

Zeiss




Kirkjufell

Originally uploaded by Tómas Freyr

Keypti mér aðra Carl Zeiss linsu um daginn… Við eigum eftir að fara almennilegan hring saman en ég tók smá test með hana eitt kvöldið. Ég er enn pínu skeptískur á hana en hún er alveg gjörsamlega manual bæði með ljósop og fókus. Menn segja að skerpan komi þegar maður nái tökum á þessu en það verður að koma í ljós. Fékk líka Lee hring með sem er fáránlega gott þar sem að maður getur einnig notað filterasettið á þessa linsu líka.

Svo er maður að detta í sumarfríið og hugmyndin er að kynna sér land og þjóð aðeins betur og leggja í smá ferð á nýja bílnum. Jú maður keypti sér líka nýjan bíl í staðinn fyrir elskulega súbbann minn sem var búinn að þjóna okkur svo vel. Nú rúntar maður um á Kia Sorento diesel drifnum jeppafák og líkar það vel. Og að sjálfsögðu er ferðinni heitið upp einhverja malarslóða á hálendi Íslands. Mikið verður það nú gaman að koma að stöðum sem maður hefur aldrei komið áður. Fátt skemmtilegra en það.

En fyrst er það fyrsta fótboltamótið hans Kristjáns Freys á Blönduósi um helgina og svo yndisleg ferðalög með fjölskyldunni… Pínu korní en svona er þetta bara…

Þangað til næst…

Carl Zeiss

zeiss

Kominn með nýtt dót í töskuna. Varð bara að komast að því hvað allt þetta fuzz um Carl Zeiss er eiginlega. Menn halda ekki vatni yfir þessu. Er búinn að testa gripinn og jú, hún er nú helvíti góð. Mjög fallegt bokeh og á eftir að reynast mér vel sem brúðkaups og kirkjulinsa.

Testaði hana aðeins á nágrannanum í gærkvöldi.

Gosi Eyþórsson

Hérna er hann Gosi litli í góðum gír… hann var það í alvörunni þó að hann virki þunglyndur á myndinni. Ég held bara að hann eigi við eigendavandamál að stríða.

Þangað til næst….

Afmælisstand

Það er mikið um að vera í afmælisbissnessnum þessa dagana… Í gær átti Rúna afmæli og var af því tilefni haldið á Hótel Hellissand þar sem var hrikalega góð 5 rétta óvissuferð. Bjartmar Guðlaugs trúbbaði svo af mikilli snilld.

runa

Í dag er svo liðin 7 ár frá því að Kristján Freyr kom í heiminn. Jeminn hvað þetta líður hratt. Kappinn helsáttur með splunkunýja Messi skó og snjóbrettatölvuleik.

Afmæli

Í tilefni dagsins verður fótboltaleikur á Grundarfjarðarvelli… djóóók, það verður víst heljarinnar veisla hér heima eftir leikinn í dag.

Það verður því nóg um að vera hér á þessum bæ.

Þangað til næst….