Þar sem sumarið 2013 var nýtt til barneigna en ekki ferðalaga var ákveðið að halda í ferðalag um Ísland þetta sumarið. Lagt var af stað þann 7. júlí síðastliðinn fyrir hádegi og haldið suður á bóginn.

Mánudagur 7. júlí.
Við lögðum af stað í ferðalagið mikla fyrir hádegi og fyrsta stopp var að sjálfsögðu í bakaríinu í Borgarnesi. Svo var stoppað í Reykjavík og komið við í Ellingsen og Smáralind. Hittum Ellen og Svein og héldum svo ferðinni áfram á Suðurlandið. Tókum stutt nestisstopp í grænum lundi einhversstaðar á Suðuarlandsundirlendinu og viðruðum Ellen. Svo var komið í Garðakot um kl. 21:00 þar sem að Eva frænka og fjölskylda tók á móti okkur með uppábúið rúm. Alltaf jafn yndislegt að koma þangað.
Þriðjudagur 8. júlí.
Vöknuðum í Garðakoti og fengum dýrindis lummur. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn var einstaklega sáttur með það. Fórum á rúntinn með Auðun Adam og skoðuðum flugvélaflakið á Sólheimasandi, Fórum upp á Reynisfjall og fórum svo í Þakgil. Mynduðum og lékum okkur, borðuðum nesti í guðsgrænni náttúrunni. Svo biðu okkar dýrindis fiskibollur þegar við komum aftur í Garðakot.

Flugvélaflakið á Sólheimasandi

Reynisdrangar séð af Reynisfjalli

Múlakvísl

Miðvikudagur 9. júlí.
Við vöknuðum í Garðakoti og kvöddum fólkið eftir frábæra daga. Komum við á Vatnskarðshólum og knúsuðum Möggu frænku líka. Tókum birgðastopp á Kirkjubæjarklaustri. Nestisstopp á Dverghömrum. Veður var ágætt þegar við rúntuðum áleiðis austur á bóginn. Við tókum stopp við Kvíárjökul, Fjallsárlón og Jökulsárlón þar sem að við fórum í siglingu um lónið. Stoppuðum á Höfn þar sem að við hittum Ninna, Dagmar og Nóa þar sem við fórum í sund og fengum okkur svo að borða. Keyrðum svo á móti fallegu sólsetri lengra austur um Öxi og svo niður á Hérað. Vorum komin á Egilsstaði um miðnættið og við tók 3 daga rokkveisla.

Kvíárjökull

Fjallsárlón

Sigling á Jökulsárlóni

Kristján Freyr

Hlið aldarinnar
Fimmtudagur 10. júlí.
Vöknuðum á Egilsstöðum, fórum á róló og svo fórum við Ninni á Norðfjörð á Eistnaflug þar sem við rokkuðum flösuna úr hárinu (skallanum) með Sign, At The Gates og fleirum. Hitt liðið var í almennu chilli á Egilsstöðum.

Róló á Egilsstöðum

Í 20 stiga hita á Neskaupsstað
Föstudagur 11. júlí.
Vaknað á Egilsstöðum og farið á Eistnaflug. Skálmöld, Sólstafir og Dimma stóðu uppúr það kvöld. Mega gaman þó að það hafi rignt enda allir tónleikarnir inni.

Laugardagur 12. júlí.
Vaknað á Egilsstöðum og farið á síðasta Eistnaflugsdaginn. Ham, Maus, Havok og Jónas Sig stóðu fyrir sínu þetta síðasta Eistnaflugskvöld. Undirritaður var orðinn frekar lúinn undir það síðasta enda langt síðan maður hefur tekið svona á því. En Eistnaflugshátíðin var samt frábær í alla staði og vel þess virði að bregða sér austur.


Þessi hátíð var frábær
Sunnudagur 13. júlí.
Vöknuðum á Egilsstöðum og tókum túristann á þetta. Rúntuðum á Skriðuklaustur og skoðuðum í gestastofu Landsvirkjunar. Fórum upp að Kárahnjúkavirkjum, kíktum í hin hrikalegu Hafrahvammsgljúfur og svo fóru Rúna og Kristján í bað á Laugavöllum. Rigndi þó nokkuð þann daginn. Svo var farið niður í Jökuldal þar sem að Solla og Stefán buðu okkur í steik með öllu tilheyrandi. Yndislegt að sækja þá höfðingja heim.

Mikið fjör
Mánudagur 14. júlí.
Kvöddum Ninna, Dagmar og Nóa og keyrðum til Vopnafjarðar þar sem að Svanborg og Ellert biðu með vöfflur og kaffi. Frábært að stoppa þar og allir í glimrandi góðum gír. Héldum svo áfram yfir Vopnafjarðarheiðina og í átt að Norðurlandinu. Fórum svo Engidalinn og enduðum ofan í Bárðardal þar sem að Anna, Jobbi, afi Addi, amma Gunna, Sigrún og Lauga biðu eftir okkur með steikt læri á borðum. Planið var að taka nokkra daga í Klapparhúsi.

Rúna pósar á Hellisheiðinni

Prinsessan var kát í Klapparhúsi
Þriðjudagur 15. júlí.
Slökuðum á í Klapparhúsi framan af degi. Fórum á fjórhjólið og í pottinn. Tókum myndarúnt að Hrafnabjargarfossi. Seinnipartinn var svo rúntað að Réttartorfu til gistingar. Göngugarpar hituðu upp fyrir göngu morgundagsins með því að ganga frá Stóru Tungu áleiðis að Hrafnabjargarvaði. Í Réttartorfu var svo steikt lambafillet ofan í mannskapinn en daginn eftir hugðust kjarkmiklir göngugarpar ganga frá Réttartorfu að Stóru flesju. Mikið vatn var í Sandá sem er við Réttartorfu og því var ekki lagt með Kiuna yfir ána og því var hún skilin eftir norðanmegin við ána. Öllum troðið í Pajeroinn hennar Sigrúnar og liðið ferjað á einum bíl yfir.

Sandá
Miðvikudagur 16. júlí
Ellen Alexandra Tómasdóttir varð 1 árs og var því fagnað með staðgóðum hafragraut í Réttartorfu. Göngugarparnir (Rúna, Kristján Freyr, Anna, Lauga og Sigrún) héldu af stað í sinn langa göngutúr. Jobbi fór og renndi fyrir fisk í Krossá en afmælisbarnið og undirritaður rúntuðu til baka í Klapparhús. Seinnipartinn var svo farið á rúntinn og göngugarparnir sóttir á Stóru Flesju við Suðurá eftir 6-7 klst göngu. Þar var tekið á móti þeim með kaffiveislu. Um kvöldið fór ég svo í smá ljósmyndarúnt að Aldeyjar og Ingvarafossum. Gist í Klapparhúsi.


Aldeyjarfoss

Suðurá
Fimmtudagur 17. júlí.
Við vöknuðum í Klapparhúsi og snæddum hádegisverð. Svo var haldið í svaðilför á Kíunni. Rúntaður Engidalur að Mývatni, Þaðan eftir þjóðvegi 1 austur og beygt út af honum áleiðis að Herðubreið. Þar fór Kian í tvöfaldan undirvagnsþvott í Graflandsá og Lindá en hafði það af. Stoppað í Herðubreiðarlindum í göngutúr og nesti. Rúntað upp í Öskju og komið þangað um kvöldmatarleytið. Tilgangur þeirrar ferðar var sökum mikillar löngunar hluta hópsins til að baða sig í öllum helstu drullupollum landsins og nú var það Víti sem átti að njóta nærveru þeirra. 2,4 km ganga frá bílastæði að Víti og Öskjuvatni. Við létum okkur hafa það að ganga þessa leið í blautum og þungum snjó og reyndi það verulega á alla í hópnum. Svo var komið að Víti bara til þess eins að sjá að ekki var hægt að baða sig í pollinum sökum gríðarlegs snjóskafls sem var ofan á göngustígnum. Semsagt ófært og niðurlútir baðsjúklingar héldu í hina erfiðu göngu að bílastæðinu aftur. Komið til baka í bílinn kl 20:30 og allir svangir og þreyttir. Stoppað örstutt í Dreka og haldið heim á leið. Sólsetrið á fjöllum er yndislegt og við komum í Klapparhús kl 01:00 eftir miðnætti örþreytt en sátt og sæl. Svo nokkrum dögum síðar hrundi hálf hlíðin í Öskjuvatni og myndaði svaðalega flóðbylgju. Ég hefði ekki viljað vera þarna þegar að það gerðist.

Gengið að Öskju og Víti

Í Herðubreiðalindum
Föstudagur 18. júlí.
Vöknuðum í Klapparhúsi og pökkuðum niður. Frábært veður og 18 stiga hiti. Ætluðum í sund á Laugum en urðum frá að hverfa vegna hálku… reyndar var hálkan í klefunum og því fór sem fór. Fórum í staðinn á Stóru Tjarnir og hittum Jón Eggert og Fanney Dóru. Einnig voru Tinna, Kalli og Líney þar í ferðalagi þannig að úr varð allsherjar skemmtun. Borðuðum frábæran mat og áttum góða stund. Fórum svo til gistingar á Lundarbrekku þó svo að húsráðendur hafi ekki verið heima.

18 stig í Bárðardalnum

Líney, Ellen og Kristján á Stóru Tjörnum
Laugardagur 19. júlí.
Vöknuðum á Lundarbrekku og pökkuðum niður. Héldum áleiðis til Akureyrar þar sem að við hittum Þórhildi og litla sveininn hennar… Stóri Sveinn var vant við látinn. Þórhildur græjaði hádegismat fyrir liðið og svo fórum við með þeim Þórhildi, Brynhildi, Laugu, Þorgerði, Láru og Óla á miðaldahátíð að Gásum. Mikil rigning þann daginn. Fórum á kaffihús með þeim eftir miðaldahátíðina. Svo var farið á Greifann og lagt í hann heim á leið. Komum í Grundarfjörðinn eftir miðnætti eftir 12 daga frábært ferðalag.

Kristján Freyr í miðaldahátíð

Grundarfjörður
Þangað til næst….