Fjölgun

Nú er hún Rúna mín gengin rúmlega 38 vikur. Á morgun förum við til Reykjavíkur og komum ekki heim fyrr en fjölgað hefur í stóðinu. Það er orðið ansi langt síðan maður stóð í þessu enda Kristján Freyr orðinn rúmlega 8 ára gamall. Það eru því spennandi tímar framundan hjá okkur. Allt orðið klárt fyrir fjölgunina að ég tel.

The wait
Þessi er að fara að léttast

Happy
Þessi meistari ætlar að verða stóri bróðir

Svo vorum við Kristján Freyr aðeins að fikta með gopro myndavélina okkar… Þetta er tilraunamyndband.

Hjólaferð að Kirkjufellsfossi from Tomas Kristjansson on Vimeo.

Annars verðið bara að stay tuned eftir fréttum.

Læt fylgja nokkrar sólarlagsmyndir sem ég tók á dögunum og er frekar rogginn með.

Kirkjufell mountain

The harbour

Kirkjufell and Kirkjufellsfoss

Þangað til næst….

Strand og fleiri fréttir

Eins og alþjóð veit þá strandaði Þórsness II í gær rétt við Stykkishólm. Summi bauð mér í bátsferð að kíkja á þetta. Þetta var frekar asnalegur staður til að leggja bátnum sínum.

Rescue

Stranded

Þórsnes II

En allt fór nú vel að lokum og báturinn náðist á flot aftur á flóðinu.

Ég skrapp líka smá rúnt um Snæfellsnesið eitt fagurt sumarkvöld í júní. Fór með Pile sem er einn leikmaður meistaraflokksins og hefur mikinn áhuga á Íslandi. Það var gaman.

Djúpalónssandur

Svörtuloft

Svo var Blönduósmótið líka um daginn. Þar var Kristján Freyr í eldlínunni. Hann var mjög sáttur með sinn hlut. Skoraði 6 mörk í 7 leikjum, 4 sigrar og 3 töp. En rosa gaman.

Goooooooaaal

Celebration

Næst á dagskránni er bara að bíða eftir erfingjanum. Við fjölskyldan förum suður 11. júlí þar sem að við eigum að dúsa þangað til að nýja barnið fæðist. Rúna mín stendur sig eins og hetja þó að hún sé nú orðin svolítið þreytt þessi elska. Þetta er allt að gerast og mjög líklega verður næsti pistill hér ekki skrifaður fyrr en barnið er komið í heiminn.

Cold feet

The wait

Ætla að láta þetta duga í bili.

Þangað til næst….

Hvert fór tíminn?

Ég var rétt í þessu að átta mig á því að ég hef ekki sett inn færslu hérna síðan í mars… og nú er júní. Frekar dapurt. Það sem helst á daga manns hefur drifið er að bæði Kristján og Rúna áttu afmæli í maí. Rúna þann 19 og Kristján þann 20. Svaka partýstand á okkur þann mánuðinn. Svo er bara búið að vera fokking kuldi og skíta veður. Ekkert sumar virðist vera væntanlegt. Strákarnir í boltanum búnir að spila 2 leiki. Unnu Huginn í fyrsta leik og töpuðu svo fyrir Fjarðabyggð í þeim næsta. Þeir eru að fara í keppnisferðalag um helgina. Þá á að spila við Magna frá Grenivík og Leikni Fáskrúðsfirði um sömu helgi. Helvítis álag á kallana. Læt fylgja nokkrar myndir með pistlinum sem hafa á daga mína drifið. Náttúrulega nóg búið að vera að gerast hérna.

Toppskarfur
Búið að vera brjálað fuglalíf í Kolgrafafirði.

Súla Morus bassanus
Súlur í massavís.

Súlur að stinga sér
Með tilheyrandi súlukasti.

Gaman í vinnunni
Þessi elska varð árinu eldri.

Kristján Freyr
Og þessi kappi líka.

The end is near
Það endaði ekki vel hjá þessari ágætu súlu.

Þórsnes II
Þór kom með Þórsnes II í togi.

Elísabet
Það fór dágóður tími í stúdenta og fermingarmyndatökur.

Sólsetrið
Svo þegar vindurinn hægir aðeins á sér er oft ansi fallegt hérna heima við.

Fallið
Boltinn byrjaður á fullu.

Shooter
Gústi bróðir kíkir stundum við.

The Viking
Svo voru kolvitlausir víkingar hérna um sjómannadagshelgina.

Attitude
Toggi með attitude.

Svo kom allt í einu júní og sumarið byrjar hálf treglega. Að minnsta kosti lætur góða veðrið bíða eftir sér.

Þangað til næst….

Norðurljós

Sunnudaginn 17. mars varð einhver sú fegursta norðurljósasprengja sem ég hef náð að festa á minniskubb. Þvílík sýning. Við Sumarliði skelltum okkur rúnt og fórum fyrir jökul. Sýningin var mest frá kl. 22:00 og til miðnættis en þá dró verulega úr virkninni.

Klakkur

Kolgrafafjörður
Þessar tvær myndir voru teknar á meðan sýningin var sem mest. Báðar úr Kolgrafafirði.

Næst var ferðinni heitið að Kirkjufellsbrúnni. Þar stoppuðum við í smá stund og tókum nokkra ramma. Mikið af túristum þarna og á tímabili töldum við einhverja 10 aðra ljósmyndara þarna.

Kirkjufellsfoss

Brúin
Myndir frá Kirkjufelli.

Eftir það héldum við lengra út á nesið. Við stoppuðum aðeins fyrir neðan Mýrar og mynduðum fjallið aftur, komum svo við hjá Skerðingsstöðum og tókum nokkrar myndir þar. Fórum yfir Fróðárheiði og komum við á Búðum. Þar voru ljósin aðeins farin að dofna en samt var svaka sýning í gangi.

Búðakirkja
Búðakirkja

Eftir Búðir héldum við áfram og stoppuðum við Lóndranga og á Svalþúfunni.

Lóndrangar
Þúfubjarg.

Eftir Lóndrangana var sýningin nánast búin og við rúntuðum heim á leið.

Þetta var rosa gaman og maður var ekki kominn upp í rúm fyrr en um hálf fjögur um nóttina. Maður var hálf myglaður morguninn eftir. En þetta var samt þess virði.

Einnig voru hér á dögunum tökulið frá BBC sem var að taka upp efni fyrir einhvern hvalaþátt. Þeir voru með þessa svakalegu græju sem gat svifið yfir hvölunum og myndað… frekar magnað dæmi. Verð að eignast svona.

The drone

Gadget

Þangað til næst…

Skálmöld

Þann 9. febrúar síðastliðinn fór ég á eina mögnuðustu tónleika sem ég hef farið á. Skálmöld var með útgáfutónleika sína í Háskólabíó þar sem að þeir fluttu plötuna Börn Loka í heild sinni… tóku smá hlé og spiluðu svo nokkur lög af Baldri. Við Kristján Freyr, Gústi Alex og Dabbi frændi skelltum okkur og sátum í sjöttu röð í góðum gír. Þeir voru magnaðir á sviði. Það skein svo í gegn hvað þeir höfðu gaman af þessu og það smitaðist út í salinn. Magnað band að flytja magnaða plötu og mögnuð útkoma. Gæsahúð fyrir allan peninginn.

Ég smellti af nokkrum römmum þarna. Leyfi myndunum að tala sínu máli.

Þráinn

Böbbi

Baldur

Hel

Baldur

Þangað til næst…

Síldarstemming

Það er mikið umhverfisslys í uppsiglingu í Kolgrafafirði. Fleiri þúsund tonn hafa “drukknað” í firðinum sökum súrefnisskorts. En mikil stemming hefur myndast þar sem ákveðið fyrirtæki í Sandgerði bíðst til að kaupa síldina og nota í refafóður. Fullt af félagasamtökum og skólabörnum hafa slegið til og mokað síld upp í kör í fjáröflunarskini. Ég var eitthvað á svæðinu og fangaði stemminguna síðustu daga.

Fresh herring
Þetta er tekið á hádeginu daginn eftir að þetta gerðist. Það var sunnan rok og síldina rak upp í fjöru við brúna.

Síldardauðinn
Bjarni og Guðrún að meta aðstæður.

Silfur hafsins
Svo á sunnudeginum kíktum við Rúna niður í fjöru við Eiði og þar voru fleiri þúsund tonn af dauðri síld. Þvílíkt magn.

Upp að hnjám
Gamli á kafi í síld.

Herring
Þetta er ótrúleg sjón.

Herring beach
Rúna skoðar sig um þarna.

Busy kids
Hérna eru svo grunnskólakrakkarnir mættir og láta til sín taka.

Taking a break
Allir á kafi í síld.

Hard work
Allir láta til sín taka.

Meistaraflokkur Grundarfjarðar
Þórey og Ragnar Smári tóku á því.

Breiðablik
Krakkar úr Breiðablik

Grunnskóli Stykkishólms
Grunnskóli Stykkishólms

Víkingur Ól
Víkingur Ólafsvík.

Útskriftarnemar FSN tína síld
Og svo útskriftarhópurinn í FSN.

Endalus traffík niður í fjöru að ná í peninga. En því miður þá dugar þetta ekki því að fleiri þúsund tonn eiga eftir að rotna þarna með tilvonandi ólykt og grútarmengum.

Þangað til næst….

Árið sem leið…

Jæja þá er best að rúlla aðeins yfir nýliðið ár og sjá hvað á daga manns hefur drifið.

Janúar:

Þetta ár byrjaði á frekar súrum nótum. Strax á gamlárskvöld þegar að við vorum að sprengja burt 2011 var Kristján Freyr orðinn eitthvað skrítinn. Þegar við komum heim var hann kominn með 39 stiga hita og daginn eftir var farið að örla fyrir sýkingu í munninum á honum. Við förum með hann suður og þar tók við vikudvöl á barnaspítala Hringsins á meðan óteljandi læknar tóku óteljandi prufur og eftir margar rannsóknir kom nákvæmlega ekkert í ljós nema að þeir héldu að þetta væri einhver ólæknandi sjúkdómur. Nú er liðið ár síðan þetta var og ekkert örlað á svona munnsýkingu aftur sem betur fer og maður vonar bara það besta.

KFT

Annars voru háhyrningarnir hérna og einstaklega mikið fuglalíf í Kolgrafafirði eins og áður.

Diving

Febrúar:

Í febrúar var lífið að komast í fastar skorður. Kristján var á einhverjum sterakúr sem gerði hann ansi þéttvaxinn eins og gengur og gerist. Grútarblautir fuglar settu svip sinn á mánuðinn og ég fór mikinn í almennum sauðshætti þegar að ég náði á einhvern óskiljanlegan hátt að læsa ipadinum mínum með því að skipta um lykilorð og muna svo ekki hvaða lykilorð ég setti upp. (hægt að lesa nánar um það á febrúarbloggi síðasta árs)

Gústi, Gústi, Gústi og Kristján Freyr

Ég tók líka smá myndarölt í Kolgrafafirði…

Kolgrafafjörður

Mars:

Mars byrjaði á að erninum óheppna Sigurerni var sleppt við Berg. Hann var frelsinu feginn og maður þurfti að hafa hröð handtök til að ná mynd af kvikindinu þegar að skaust í átt til frelsis. Náði þessari mynd í hamaganginum.

Take off

Einnig fjárfesti ég í fyrsta Nikon dótinu mínu þegar á keypti mér forláta Nikon kíki sem hefur reynst vel. Einnig varð heljarinnar hvalóféti strandaglópur hérna á Snæfellsnesi.

Family

Kristján Freyr stóð sig með prýði á árshátíð grunnskólans.

Thinking

Apríl:

Við byrjuðum apríl á að skella okkur í páskafrí norður í land. Vorum hjá Ninna og Dagmar á meðan við stunduðum skíðin og snjóbretti í gríð og erg. Fórum svo í afslöppun í Bárðardalinn.

bretti

gleraugu

Kristján Freyr

Einnig var haldið með miklum meisturum í ljósmyndaferð hérna á nesinu. Það var mjög gaman og þyrfti að endurtaka þá ferð hið fyrsta.

Reflection

Kolbeinsstaðahreppur

Maí:

Í maí var mikið um að vera. Bæði Rúna og Kristján urðu árinu eldri og mikið var um fermingar og útskriftarmyndatökur. Vorið var komið, sumarið lá í loftinu og lífið var yndislegt. Fótboltinn byrjaði af krafti og allt í gangi. Ég splæsti í mína fyrstu Carl Zeiss linsu og er enn helsáttur með hana. Frábær linsa í alla staði.

Arndís Jenný

Harpa Lilja

Sonurinn

Júní:

Í júní var einnig mjög mikið um að vera. Sjómannadagurinn með sínu havaríi. Fjárfest í nýjum bíl og sagt skilið við Subaruinn eftir 5 ára farsælt samband. Nýji bíllinn var Kia Sorento jeppi. Kristján tók þátt í sínu fyrsta fótboltamóti þegar að hann fór á Blönduósmótið. Hann stóð sig vel eins og allir hinir krakkarnir.

Hífa

Proud goalscorer

Júlí:

Í endaðann júní lögðum við af stað í árlegt sumarfrí. Við skröttuðumst um Suðurlandið og alla leið austur að Jökulsárlóni. Fórum svo yfir Sprengisand á Kíunni og enduðum í Bárðardalnum. Veðurblíðan var með eindæmum góð og frábært frí í alla staði.

seljavellir

giljagaur

ibv

Jökulsárlón

Svo komu Grundarfjarðardagarnir með pompi og pragt. Kristján var í skemmtiatriði Rauða hverfisins og mikið fjör var hérna í firðinum.

Balloons

rautt

Ágúst:

Í ágúst keypti ég mér nýja myndavél… Fjölgaði EOS vélum heimilisins um helming. Canon EOS 5d mark II var það og nota ég báðar vélarnar álíka mikið. Við sjálf vorum í rólegheitunum í ágúst. Kristján fór á Atlantismótið og skemmti sér vel.

Medallion

Svo er hérna mynd úr fimmunni.

The harbour

September:

Ben Stiller var mikið á ferðinni hérna. Norðurljósin létu sjá sig. Við fórum á ættarmót og svo í réttir. Skólinn byrjaður og lífið að komast í fastar skorður eftir sumarið.

Ben Stiller

I got it

Kirkjufell Aurora Borealis

Einnig skrapp ég í haustlitaferð upp í Borgarfjörð aleinn með myndavélarnar mínar. Það var gaman og gefandi.

Paradísarlaut

Við Hraunfossa

Október:

Síldarskipin voru farin að láta á sér kræla hér í Grundarfirði. Við hjónin skelltum okkur bæði í lazer aðgerð á augunum og sögðum bless við gleraugu og linsur. Við tókum okkur til og steyptum bílaplanið eftir langþráða bið.

lazer

Aurora Borealis

Reflection

Vilhelm Þorsteinsson EA 11

Nóvember:

Í byrjun nóvember fórum við Rúna og pabbi til Denver Colorado. Þar nutum við lífsins í viku og höfðum það gott. Einnig fagnaði ég afmælinu í Denver með steik á Cheesecake Factory. þá byrjaði ég í Neyðarflutningsnámi hjá Sjúkraflutningaskólanum. Er því búinn að vera mikið í burtu því að hálfa vikuna þarf ég að vera á Akranesi og stunda námið.

emt

Tvær pútur

nba

Við Kristján Freyr skelltum okkur einnig í hvalaskoðun með Láka. Það var einstaklega gaman.

Grundarfjörður

Desember:

Desember hefur liðið með sínu jólafári og vitleysu. Við vorum svo forsjál að klára nánast allar jólagjafir í USA og vorum því tiltölulega stresslaus hvað það varðar. Svo var líka brjálað að gera á milli þess að ég var að þeytast á milli vinnu og skóla. Sé ekki fram á að því ljúki fyrr en í febrúar á nýja árinu. Það verður ljúft. Við í slökkviliðinu gáfum út árlegt dagatal okkar og var það með óhefðbundnari sniði nú en áður. Þ.e. minna um nekt og meira af fíflalátum. Það er í lagi að breyta aðeins til er það ekki.

Mr November

Ég sigraði í ljósmyndakeppni Grundarfjarðar með líklega skrítnustu ljósmyndafyrirsætu sem sögur fara af… Þessi mynd virtist falla vel í kramið á dómnefndinni.

Eyþór

Nú er ég nokkurnveginn búinn að stikla á stóru yfir árið. Megi 2013 vera viðburðarríkt og skemmtilegt ár.

jolin

Þangað til næst….

Topp tíu

Til gamans ætla ég að birta hérna topp tíu myndirnar mínar á flickrinu. Það eru myndirnar sem eru mest skoðaðar á flickr myndasíðunni minni. Þetta hefur ekkert með gæði myndanna heldur eingöngu hvaða myndir eru vinsælastar frá því að ég byrjaði með þessa síðu.

10. sæti:

Uggi
Í 10. sæti er þessi mynd af háhyrningsugga í forgrunni með Grundarfjörð í baksýn. Þessi mynd var tekin þann 15. febrúar 2011 þegar að hvalirnir komust í hámæli hérna í firðinum. Hún hefur verið skoðuð 587 sinnum.

9. sæti:

Grundarfjarðarkirkja
Í 9. sæti er þessi mynd af Grundarfjarðarkirkju sem var tekin þann 9. desember 2011. Falleg og friðsæl mynd sem hefur verið skoðuð 595 sinnum.

8. sæti:

Kirkjufell
Í 8. sæti er þessi Kirkjufellsmynd með háhyrning í forgrunni sem er tekin í sömu bátsferð og myndin í 10 sæti eða þann 15. febrúar 2011. Hún hefur verið skoðuð 622 sinnum.

7. sæti:

Hey there
Í 7. sæti er önnur háhyrningamynd úr sömu bátsferðinni 15. febrúar 2011. Þarna má sjá nokkur dýr spóka sig fyrir framan Grundarfjarðarbæ. Þessi mynd hefur verið skoðuð 711 sinnum.

6. sæti:

Goðafoss
Í 6. sæti er þessi fallega panoramamynd af Goðafossi sem ég persónulega er mjög montinn af. Þessi mynd var tekin 8. júlí 2012 á meðan við fjölskyldan vorum á ferðalagi. Þessi mynd hefur verið skoðuð 717 sinnum.

Og þá erum við komin í topp 5 af vinsælustu myndunum á flickrinu.

5. sæti:

Kirkjufell Aurora Borealis
Í 5. sæti er þessi fallega mynd af Kirkjufellinu böðuðu í norðurljósum. Þetta er jafnfram sú mynd sem er með flestu commentin og líka yngsta myndin sem er í topp 10 myndunum enda hefur hún skotist með ógnarhraða upp í toppslaginn og er góður möguleiki á að hún nái að klifra aðeins hærra. Þessi mynd var tekin 19. september í haust og hefur verið skoðuð 858 sinnum á flickrinu… líklega ennþá oftar á facebook en við teljum það að sjálfsögðu ekki með.

4. sæti:

They're back
Í 4. sæti er þessi háhyrningamynd sem var tekin í bátsferð með Láka þann 28. mars 2011. Það hafa væntanlega einhverjir verið duglegir að deila henni enda mikið af áhugamönnum um háhyrninga þarna úti. Þessi mynd hefur verið skoðuð 870 sinnum.

3. sæti:

Dagatal slökkviliðsins 2012
Í 3. sætinu er þessi funheita sjálfsmynd sem prýddi nóvembermánuð á dagatali Slökkviliðsins árið 2012. Þessi mynd var tekin þann 23. nóvember 2011 í árlegri myndatöku slökkviliðsmanna hér í Grundarfirði. Hún hefur af einhverjum ástæðum sem ég kann ekki að skýra út, verið skoðuð 1301 sinni sem tyllir henni í þriðja sætið yfir mest skoðuðu myndirnar mínar á flickrinu.

2. sæti:

At Kirkjufell
Í 2. sæti er enn ein háhyrningamyndin sem sýnir háhyrning í góðum fókus með Kirkjufell og Bolla SH í bakgrunni í minni fókus. Þessi mynd er tekin þann 15. febrúar 2011 eins og fyrri háhyrningamyndirnar og hún fór eins og eldur um sinu á fésbókinni á sínum tíma. Hún hefur verið skoðuð 1327 sinnum og hefur verið ansi lengi í öðru sætinu.

1. sæti:

Honda Fireblade CBR 929
Í topp sætinu er svo þessi mynd af gamla mótorhjólinu mínu. Þessi mynd var tekin á mína fyrstu myndavél sem var Canon EOS 400d og var tekin þegar ég var að selja hjólið. Hún var tekin þann 29. maí 2007 og svo tók ég hana og breytti henni aðeins og vann hana betur í desember 2008 og það virðist hafa fallið í kramið hjá einhverjum því að þessi mynd er lang efst í mest skoðuðu myndunum og hefur alls verið skoðuð 2291 sinni og það þarf mikið að gerast til að þessi mynd falli af toppnum. Eitthvað virðast áhugamenn um mótorhjól vera hrifnir af henni því að henni hefur verið dreift víða sem skýrir að hluta þessar vinsældir.

Þessi topp tíu listi er í boði pepsi max og always ultra dömubindi sem eru stoltir styrktaraðilar.

Þangað til næst….